Karphúsið Þó margir kjarasamningar hafi verið undirritaðir á seinustu dögum eru þó enn fjölmörg stéttarfélög með lausa samninga.
Karphúsið Þó margir kjarasamningar hafi verið undirritaðir á seinustu dögum eru þó enn fjölmörg stéttarfélög með lausa samninga. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Búist er við að kraftur verði nú settur í kjaraviðræður háskólamanna við opinbera launagreiðendur þar sem BSRB-félög hafa mörg hver lokið undirritun nýrra kjarasamninga, sem ná til meirihluta félagsfólks innan þeirra.

Aðildarfélög BHM eru 24 talsins með yfir 18 þúsund félagsmenn. Fara BHM-félögin sjálf með samningsumboðið og kemur BHM því ekki að viðræðunum með beinum hætti en reglulegt samráð fer þó fram í kjaranefnd BHM.

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, segir aðildarfélögin eiga í viðræðum við alla viðsemjendur sína, þ.e. ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ekki sé óalgengt að BSRB fari á undan í viðræðum um endurnýjun kjarasamninga. „Hins vegar hafa okkar félög í BHM núna ákveðið í ljósi þess sem liggur á borðinu, sem er fjögurra ára samningsviðmið, að fara nánast hvert í sínu lagi að samningaborðinu og eru þau því ekki í sambærilegu samfloti eins og BSRB-félögin hafa verið í,“ segir Kolbrún.

Verkefnið er flókið þar sem innan BHM eru ólíkir hópar launafólks, í sumum félögum starfa flestir félagsmennirnir hjá sveitarfélögum og svo eru önnur að stærstum hluta með ríkisstarfsmenn innan sinna raða. Launamyndunarkerfin eru mismunandi hjá ríkinu og sveitarfélögunum.

„Það er gangur í viðræðunum og úr því að BSRB-félögin eru að klára, þá erum við örugglega næst á dagskrá. Við gerum bara ráð fyrir því að núna fari allt af stað hjá okkur,“ segir hún.

BHM og BSRB hafa staðið saman í viðræðum við ríki og sveitarfélög um verkefnið að jafna laun á milli markaða. Því hefur verið haldið utan eiginlegra kjaraviðræðna þar sem stéttarfélögin benda á að um leiðréttingu sé að ræða, sem byggist á að uppfylllt verði loforð í tengslum við lífeyrissamkomulagið sem gert var 2016. Hægt hefur miðað í átt að niðurstöðu. Fyrsta áfangasamkomulag um jöfnun launa náðist í fyrra fyrir tiltekna hópa og í tengslum við samningana núna hefur samkomulag númer tvö verið undirritað, sem nær til fleiri hópa en enn virðist þó langt í að verkefninu ljúki. Kolbrún segir það mjög flókið, þokast hafi að undanförnu en verkefnið sé ekki komið á leiðarenda.

Samningar í orkugeiranum

Fleiri stéttarfélög en aðildarfélög BSRB hafa undirritað samninga að undanförnu. Í gær voru undirritaðir kjarasamningar VM og RSÍ vegna starfsfólks í orkugeiranum hjá Orkuveitu Reykjavíkur og undirfyrirtækjum, Landsvirkjun, HS Veitum, Orkubúi Vestfjarða, HS Orku og Norðurorku. Þá skrifaði RSÍ undir nýjan kjarasamning vegna RARIK.