„Til mikils er að vinna; því lengur sem fólk endist á vinnumarkaði, heldur góðri heilsu og dvelur lengur í sjálfstæðri búsetu, þeim mun meira útsvar skilar sér til baka,“ segir Janus Guðlaugsson.
„Til mikils er að vinna; því lengur sem fólk endist á vinnumarkaði, heldur góðri heilsu og dvelur lengur í sjálfstæðri búsetu, þeim mun meira útsvar skilar sér til baka,“ segir Janus Guðlaugsson. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þess utan ætti fjárfesting í heilsu alltaf að vera í fyrsta sæti hjá fólki, ekki síst þegar komið er á efri ár. Það margborgar sig.

Janus heilsuefling er til húsa í Suðurhrauni í Garðabæ, steinsnar frá Kaplakrika í Hafnarfirði. Vel fer á því enda kynntist þessi þjóð stofnandanum, dr. Janusi Friðriki Guðlaugssyni, fyrst sem knattspyrnumanni í FH fyrir um fimm áratugum. Hann átti síðar eftir að gera garðinn frægan sem atvinnumaður í Þýskalandi og Sviss og auðvitað með íslenska landsliðinu. Þannig að hreyfing hefur alla tíð verið snar þáttur í lífi Janusar.

Bára Ólafsdóttir, framkvæmda- og verkefnastjóri, tekur á móti mér og leiðir mig á fund Janusar. Hún er einnig búin að taka frá fundarherbergi og gera klára glærusýningu, þannig að Janus geti rennt yfir helstu atriði og áherslur í starfsemi fyrirtækisins áður en við hefjum spjallið. „Bára hugsar svo vel um mig að ég er að velta fyrir mér að ættleiða hana,“ segir Janus sposkur á svip og þau hlæja bæði. Þessi samvinna er til eftirbreytni enda byggist heilsuefling, eins og svo margt annað í þessu lífi, á henni enda þótt árangurinn sé auðvitað á endanum fyrst og síðast undir einstaklingnum kominn.

Glæran sem blasir við mér er ábyggilega táknræn fyrir hugmyndafræðina sem þau standa fyrir. Tveir rosknir menn sitja saman á bekk og hjá þeim stendur skrifað: „Þú ert ekki að eldast, þú ert að eflast!”

Janus heilsuefling er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki og tilgangur þess og helsta verkefni er að koma á fót markvissri heilsueflingu fyrir eldri aldurshópa um allt land með lýðheilsutengdu inngripi sem byggt er á gagnreyndum aðferðum doktorsverkefnis Janusar. Neðri mörkin eru 60-65 ára en efri mörkin eru í reynd engin. „Það er aldrei of seint að breyta um lífsstíl og huga að heilsu sinni; ekki meðan maður dregur andann,“ segir Janus.

Markmiðið til lengri tíma er að eldri aldurshóparnir geti tekist lengur á við athafnir daglegs lífs, að þeir geti búið sem lengst í sjálfstæðri búsetu og notið lífsins, að þeir geti starfað lengur á vinnumarkaði, að koma í veg fyrir eða seinka heimaþjónustu og/eða innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili og loks að aðstoða ríki og sveitarfélög við að efla heilsu og lífsgæði eldri aldurshópa án útgjaldaaukningar.

Bættu lífi við árin

Fyrirtækið stofnaði Janus árið 2016 til að nýta niðurstöður úr doktorsritgerð sinni sem hann lauk við tveimur árum áður, Fjölþætt heilsuefling – Leið að farsælum efri árum, nefnist hún. „Bættu lífi við árin,“ er eitt af slagorðum Janusar heilsueflingar og því fyrr sem fólk grípur sjálft inn í heilsuna með heilsutengdum forvörnum má gera ráð fyrir að það þurfi síður eða seinna á hjúkrunarleiðinni að halda. Þannig vinna allir, bæði einstaklingurinn og samfélagið. Einstaklingurinn er lengur óháður öðrum og háar upphæðir sparast, bæði fyrir ríkið og sveitarfélögin.

„Tilgáta mín er sú,“ segir Janus, „að hvert stig sem bætist við mat á eigin heilsu gegnum heilsutengdar forvarnir samsvari einu ári í sjálfstæðri búsetu. Og hver vill ekki vera sem lengst í sjálfstæðri búsetu? Langflestir, þótt auðvitað geti verið dæmi um annað.“

Þegar rætt er um heilsutengdar forvarnir er átt við styrktar- og þolþjálfun, rétt samsetta næringu, heilsutengda fræðslu, langtímaþjálfun og heilsufarsmælingar til að fylgjast með framgangi. Janus heilsuefling veitir ráðgjöf varðandi alla þessa þætti og er í samstarfi við heilsugæsluna um mælingar á efnaskiptavillu.

Janus byrjaði að skoða þessi mál markvisst þegar hann var að ljúka BS-námi sínu í íþróttafræðum í Danmörku á tíunda áratugnum. Horfði þá sérstaklega til heilsueflingar fatlaðra og eldri borgara og heimsótti meðal annars Rikshospitalet í þeim tilgangi. „Þegar kom að meistaranáminu langaði mig að fara af stað með rannsóknarverkefni sem tók á hlutum sem ekki höfðu áður verið skoðaðir að neinu marki hér á landi. Þannig að þetta tók tíma að þróast. Segja má að þetta ferli hafi tekið um 25 ár, sem hefur verið í senn skemmtilegur og áhugaverður tími. Þá hefur verkefnið verið eitt mest gefandi verkefni sem ég hef tekið að mér.“

Í meistaranáminu vann Janus með þrjá hópa. Einn lagði áherslu á þol, annar á styrk og sá þriðji á hvort tveggja. Niðurstaðan var sú að síðastnefndi hópurinn náði bestum árangri. Í doktorsnáminu skoðaði Janus styrktar- og þolþjálfun ásamt næringarráðgjöf yfir lengri tíma en þar fylgdist hann með hóp frá öldrunarrannsókn Hjartaverndar í hálft annað ár. „Samt fékk ég ekki alveg svarið sem ég var að leita eftir en þó kom skýrt fram að með markvissri þjálfun færðust allar mælingar til betri vegar og árangur fólks féll hratt niður þegar utanumhaldinu lauk. Fólk gaf eftir. Þess vegna stofnaði ég Janus heilsueflingu, ekki síður til að kanna þann möguleika að geta bætt heilsu þessa hóps og aukið lífsgæði þrátt fyrir hækkandi aldur.“

Janus segir mikilvægt að sveitarfélögin í landinu styðji við heilsueflingu eldri aldurshópa með gagnreyndum aðferðum. Ekki veitir víst af enda fer hlutfall 65 ára og eldri af þjóðarheildinni hratt vaxandi á Íslandi. Svokölluð „baby boomers“-kynslóð er nú að eldast en þeir árgangar, fæddir frá stríðslokum fram til 1964, eru mjög fjölmennir. Ekki þarf að segja Janusi neitt um það enda er hann kominn þangað sjálfur, eins og hann bendir hlæjandi á, fæddur árið 1955. „En aldur er bara tala,“ bætir hann við.

Síðan segir hann: „Fjölgun eldri borgara verður um 55-60% á næstu 15 árum og ríki og sveitarfélögin verða að sinna lögbundnum skyldum sínum. Þess utan er til mikils að vinna; því lengur sem fólk endist á vinnumarkaði, heldur góðri heilsu og dvelur lengur í sjálfstæðri búsetu, þeim mun meira útsvar skilar sér til baka. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá KPMG hafa útsvarsgreiðslur eldra fólks til sveitarfélaga fimmfaldast á aðeins 15 árum.“

Hægt að gera betur

Nokkuð vantar þó enn upp á, að mati Janusar. „Það er klárlega hægt að gera betur. Menn verða að hugsa til lengri tíma. Heilsutengdar forvarnir skipta sköpum þegar kemur að heilsu fólks, ekki síst þegar kostnaður er að sliga heilbrigðiskerfið okkar. Þessi heilsuefling meðal aldri aldurshópa er helsta sóknarfærið varðandi heilsu og velferð í dag enda sýna rannsóknir að bæta megi alla þætti heilsunnar með markvissri þjálfun. Þá benda nýjar rannsóknir á að koma megi í veg fyrir allt að 30% af heilabilunum með markvissum lífsstíl. Lyf eru líka mikilvæg en þau koma ekki í staðinn fyrir heilsutengdar forvarnir.“

Þess utan bendir Janus á að lyf virki oft og tíðum betur stundi einstaklingur daglega hreyfingu og geri gangskör að lífsstíl sínum.

Og þörf er á samstilltu átaki. „Við viljum vinna í takti við heilsugæslurnar og heilbrigðiskerfið í heild að því að auka lífsgæði og bæta heilsu eldri borgara og minnka álagið á heilbrigðiskerfið. Verkefni okkar fellur algjörlega að verkefninu; Gott að eldast.“

Það vekur Janusi bjartsýni að samstarf hefur tekist við nokkur sveitarfélög um átakið. Fyrst Reykjanesbæ árið 2017 en síðan Hafnarfjörð, Vestmannaeyjar, Grindavík, Seltjarnarnes, Garðabæ, Fjarðabyggð og nú síðast Borgarbyggð. „Nokkur sveitarfélög hafa að undanförnu átt við okkur samræður og fengið kynningu á verkefninu. Þá hefur verkefnið verið innleitt á höfðuðborgarsvæðinu án stuðnings borgarinnar og einnig á Akureyri. Þá hefur Janus heilsuefling átt í góðu samstarfi við Embætti landlæknis og innleitt verkefnið til Spánar og Litháen með góðum árangri.“

Bætt heilsa hverfist ekki bara um aukna hreyfingu og markvissar styrktaræfingar, heldur ekki síður um holla næringu. Janus leggur þunga áherslu á það og undirstrikar mikilvægi próteinríkrar fæðu fyrir eldri aldurshópa til að mæta viðhaldi á vöðvamassa gegnum styrktarþjálfun.

Janus segir menn líka alltaf vera að átta sig betur og betur á mikilvægi styrktarþjálfunar enda er tap á vöðvamassa eitt af einkennum hækkandi aldurs. Hann segir styrktarþjálfun, að lágmarki tvisvar í viku, og ráðgjöf um næringu geta komið í veg fyrir vöðvarýrnun eða seinkað þeim vanda.

„Ég hef talsvert verið að skoða þetta og rakst á tvær nýjar og merkilegar bækur í Þýskalandi síðasta haust sem fjalla um það að styrktarþjálfun skipti sköpum fyrir efnaskiptin í líkamanum. Þess vegna kalla ég erindi sem ég hef verið að halda að undanförnu; Þríleik um vöðvamassa. Þar byrja ég á að tala um líkamshreystibil öldrunar, fer svo yfir í sarcopeniu eða hægfara vöðvarýrnun og loks fjalla ég um RM-kerfið í styrktarþjálfun. Það er mikilvægt að fylgjast vel með í fræðunum og laga sitt starf og þjálfunaraðferðir að breyttum áherslum, þegar svo ber undir.“

– Hvaða fólk leitar til ykkar? Er það einhver tiltekinn hópur, öðrum fremur?

„Nei, við fáum allan skalann til okkar. Fólk sem er í mjög slæmu formi og fólk sem er í ljómandi góðu formi en vill samt gera enn betur – og allt þar á milli. Þannig erum við með tvo eða þrjá hjá okkur sem eru að taka þátt í heilum og hálfum járnkarli. Fólk um sjötugt. Elsta fólkið hjá okkur er á tíræðisaldri og sá elsti sem ég hef þjálfað er orðinn 101 árs og æfir enn reglulega. Fólkið sem leitar til okkar er eins misjafnt og það er margt. Við aðlögum þjálfunina að hverjum og einum þar sem gæði þjálfunar ráða ríkjum. Sumt af þessu fólki er komið fram á bjargbrúnina með sína heilsu og þarf nauðsynlega á inngripi að halda. Það er alltaf jafn ánægjulegt að fylgjast með þessu fólki fara fram og ná árangri.“

Að sögn Janusar er meðalaldur skjólstæðinga hans um 72 ár og þjónustan beinist ekkert síður að fólki sem enn er á vinnumarkaði en þeim sem sestir eru í helgan stein. Æ fleiri sækjast í seinni tíð eftir því að halda áfram að starfa eftir sjötugt og „hver er aðalforsenda þess að það sé hægt?“ spyr Janus.

Við vitum svarið, það er heilsan.

Janus er sjálfur í góðum samskiptum við skjólstæðinga sína og kveðst hafa kynnst mörgum út um allt land gegnum starfið. „Síðast í gær rakst ég á fólk í golfi sem hafði verið hjá okkur. Það urðu fagnaðarfundir. Sumt af þessu fólki hef ég vingast við og er í sambandi við það enn þá, þó það sé ekki lengur í þjálfun hjá okkur.“

Þá þekkir hann landið okkar orðið mun betur en hann gerði enda mikilvægt, að hans sögn, að bjóða upp á þessa þjónustu á landsvísu, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. „Með góðu skipulagi á þessi starfsemi heima alls staðar.“

Að sögn Janusar er hvorki þak né gólf á fjöldanum sem hann ræður við að þjónusta hverju sinni en alla jafna eru í kringum hundrað manns í prógramminu í einu á hverjum stað. „Við ráðum ágætlega við þann fjölda,“ segir hann en fólk nýtir sér þjónustuna að meðaltali í eitt og hálft til tvö ár. „Eftir þann tíma er fólk farið að skilja allt sem snýr að hreyfingu og næringu betur sjálft og er orðið heilsulæsara og sjálfbærara, sem er eitt af höfuðmarkmiðum okkar. Það tekur tíma að vinda ofan af kyrrsetulífsstíl, það sjáum við vel á blóðmælingunum sem við gerum í samvinnu við heilsugæsluna reglulega.“

Fólki er að sjálfsögðu velkomið að halda lengur áfram og Janus segir suma hafa verið hjá þeim í allt að fimm ár. „Og vilja helst ekki hætta.“

Hann brosir.

„Skyldi kannski engan undra enda getur fólk „yngst“ um allt að tíu til fimmtán ár með svona átaki. Það sá ég strax í doktorsrannsókninni og það hefur endurtekið sig í okkar verkefni. Til mikils er að vinna.“

Glænýjar niðurstöður

Janus dregur nú úr pússi sínu glænýjar niðurstöður, sem hvergi hafa birst opinberlega. „Þær eru úr könnun okkar um heilsutengd lífsgæði og efnaskiptavillu. Þar var spurningalisti lagður fyrir skjólstæðinga Janusar heilsueflingar og þeir beðnir um að leggja mat á eigin heilsu eftir tveggja ára heilsueflingu. Var fólkið, sem að meðaltali var 72 ára, beðið um að gefa heilsunni stig frá 0 og upp í 100. Áður en fólkið hóf sína heilsueflingu hjá okkur var meðaltalið 72 stig en við lok tveggja ára þjálfunar var það orðið 87.

Heilsan hafði því batnað um 15 stig eða um rúmlega 3,7 stig á hverju sex mánaða tímbili yfir tveggja ára heilsueflingu.

Niðurstöður úr mælingu á efnaskiptavillu sem gerð var meðal þátttakenda í Vestmannaeyjum sem tóku þátt í öllum fjórum mælingum á árabilinu 2019-24 var einnig sláandi. Þar hafði hlutfall einstaklinga með aukna áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum minnkað úr 67% í 29%.

Efnaskiptavilla er hugtak sem notað er til að lýsa ákveðnu líkamsástandi en því fylgir aukin áhætta á hjarta- og æðasjúkdómum auk sykursýki af tegund 2 ef fjöldi áhættuþátta er þrír eða fleiri. Áhættuþættirnir sem mældir voru náðu til ummáls mittis, blóðrýstings og þriggja blóðmælinga; HDL-kólesteróls, þríglýseríðs (blóðfitu) og blóðsykurs.“

Janus er ánægður með hversu vel starfsemin hafi spurst út og þau fyrir vikið ekki þurft að auglýsa sig mikið. „Þetta hefur spurst út manna á milli og yfirleitt talar fólk sem hefur verið hjá okkur vel um okkur, starfsemina og verkefnið í heild sinni. Árangurinn er vel mælanlegur og auðvelt fyrir okkur að sýna fram á hver ávinningurinn er. Hver þátttakandi fær einnig svonefnda ferilskrá þar sem hann getur fylgst með stöðu sinni á sex mánaða fresti. Læknar sem þekkja til okkar eru einnig farnir að mæla með okkur við skjólstæðinga sína. Einn læknir, sem ég hitti á dögunum, hafði á orði að allir hans skjólstæðingar, sem glímt höfðu við hjarta- og æðasjúkdóma, sem verið hefðu hjá okkur, hefðu bætt hjartaheilsu sína og um leið aukið lífsgæði. Það var virkilega ánægjulegt að heyra og í takt við okkar niðurstöður. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart enda er löngu þekkt að heilsuefling slær á áhættuþætti eins og hjarta- og æðasjúkdóma.“

Hann ber lof á þjálfarateymið sem starfar hjá honum. „Ég hef verið gríðarlega heppinn með heilsuþjálfara og annað starfsfólk. Mest er þetta fólk sem ég hef þekkt lengi og kenndi meira að segja mörgum þeirra í Háskóla Íslands þegar ég starfaði þar. Árangurinn í svona vinnu veltur ekki síður á þjálfaranum en þátttakandanum enda er það aðalsmerki góðs stjórnanda að fá fólkið með sér,“ segir Janus.

Besta fjárfestingin

Fátt er víst ókeypis í þessu lífi og þjónusta Janusar heilsueflingar kostar vitaskuld peninga. Sveitarfélögin sem fyrirtækið vinnur með greiða þjónustuna að vísu niður, og vinna í takt við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. „Ég hef ekki heyrt marga kvarta undan gjaldinu,“ segir Janus, „enda er okkur sagt að þjónusta okkar sé frekar ódýr í samhengi við margt annað og með tilliti til þeirra þjónustuþátta sem við veitum. Þess utan ætti fjárfesting í heilsu alltaf að vera í fyrsta sæti hjá fólki, ekki síst þegar komið er á efri ár. Það margborgar sig. Fólk lifir alltaf lengur og lengur og ég tel að sá tími sé að mestu liðinn að eldra fólk geymi lífeyri sinn alfarið handa afkomendunum. Og í hvað er betra að verja þessu fé en heilsuna og heilsutengdar forvarnir?“

Hann segir hugmyndir um sjálfstæða búsetu eldri borgara alltaf vera að komast sterkar inn í þjóðarsálina, í stað stofnanavæðingar við vissan aldur. „Það er rík tilhneiging víða, ekki síst meðal suðrænna þjóða, að hafa gamla fólkið sem lengst heima og yngri kynslóðirnar telja ekki eftir sér að hugsa um það, gerist þess þörf. Eins frábær og þjónustan er á dvalar- og hjúkrunarheimilum hér á landi þá kemur það aldrei í staðinn fyrir sjálfstæða búsetu.“

Talandi um dvalar- og hjúkrunarheimili þá hefur Janus verið að kynna verkefnið með markvissum hætti á þeim vettvangi að undanförnu og í dag er fyrirtækið með tilraunaverkefni í Vestmannaeyjum hjá eldri borgurum í dagdvöl og hefur því verið vel tekið. Hann sér þar mikil sóknarfæri.

– Hvar stöndum við í alþjóðlegum samanburði í heilsueflingu eldri borgara?

„Ég hef ekki nægilega góðan samanburð en veit að margir horfa til Japans sem náð hefur mjög góðum árangri í heilsueflingu eldra fólks enda mjög öguð þjóð að upplagi. Árið 2018 gerði Janus heilsuefling samning í gegnum Embætti landlæknis og Evrópuráðið við bæði Spán og Litháen um innleiðingu þessarar hugmyndafræði þar, þannig að greinilega horfa einhverjir til okkar varðandi góðan árangur. Raunar ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að við stæðum framarlega meðal þjóða með þessari nálgun og aðferðafræði. Mín persónulega skoðun er sú að við gerum það nú þegar og ef við höldum okkar striki þá gætum við hæglega tekið forystuna í heilsutengdum forvörnum eldri borgara í heiminum.“

Enda þótt Janus einbeiti sér að heilsueflingu eldra fólks þá leggur hann áherslu á að mikilvægt sé að hefja þessar forvarnir sem allra fyrst á lífsleiðinni. Þannig sé ábyrgð vinnumarkaðarins og fyrirtækjanna mikil. „Það á að vera siðferðisleg skylda vinnuveitenda að skila sínu starfsfólki sómasamlega og í sem bestu líkamsástandi inn í öldrunarferlið. Sumir eru kannski búnir að þjónusta fyrirtækið eða stofnunina í 30, jafnvel 50, ár, og fyrir vikið skuldar vinnuveitandinn þér að skila þér af vinnumarkaði við sem allra besta heilsu.“

Þýska hjartað slær

Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu hófst í Þýskalandi á föstudaginn og ekki er hægt að sleppa gamla landsliðsmanninum án þess að spyrja hann út í þá veislu sem er í vændum.

„Þýska hjartað er byrjað að slá,“ segir Janus brosandi en hann var, sem fyrr segir, í nokkur ár atvinnumaður í Þýskalandi. „Ég var reyndar eitt ár í Sviss líka og þær þjóðir eru merkilegt nokk saman í riðli. Það truflar mig þó ekki mikið, Þjóðverjar eru mínir menn. Mér leið mjög vel í Þýskalandi og kynntist þar skipulagðri þjálfun og góðum aga. Þannig sagði fyrsti þjálfarinn minn við mig: „Þú þúar kannski þjálfarana þína á Íslandi en hér þérar þú þá!“ Með betri tökum á þýskunni lærðist mér að þéra hann af og til.“

– Verður þýska liðið Evrópumeistari?

„Það er ekki gott að segja. Því hefur ekki gengið nægilega vel að undanförnu og það ekki verið nægilega sannfærandi. Heimavöllurinn er hins vegar alltaf drjúgur. Ætli sé ekki best að bíða og sjá hvernig þeim vegnar í fyrstu leikjunum sem og öðrum liðum áður en maður tjáir sig um það hvort þeir eigi möguleika á titlinum. Ég bíð spenntur.“

– Hverjir aðrir koma til greina?

„Frakkarnir eru mjög sterkir og alltaf líklegir. Mér líst hins vegar ekkert á Englendinga, eins og þeir spiluðu á móti okkur. Svo er spurning hvað Holland og Spánn gera og einnig Belgar og Portúgalir. Ekki skal heldur vanmeta Króata. Það er allt útlit fyrir spennandi mót.“

Lífsgæðin hafa aukist

Skúli Gunnar Böðvarsson, sem verið hefur þátttakandi í Janusi heilsueflingu frá haustinu 2022, segir átakið hafa gert sér margt gott. Best sé að lyfjanotkun hafi breyst mikið, skammtar minnkað og vægari lyf gefin.

„Svo eru fræðsluerindi sem við fáum um næringu sérlega upplýsandi og hafa leitt til mikilla breytinga á mataræðinu. Breytt mataræði með aukinni hreyfingu hefur svo leitt til þess að mörg kíló hafa horfið og því þarf maður í dag að kaupa sér buxur sem eru tveimur númerum þrengri! En bætt úthald og viðhald vöðva er árangur sem sannarlega bætir árum við lífið og gefur smá sigurtilfinningu.“

Skúli kveðst ekki hafa fengið vöðvabólgu eftir að hann byrjaði í átakinu og styrktarþjálfunin sjái til þess að liðir og vöðvar virki vel. „Þannig að líkamleg heilsa hefur batnað verulega og það að vera laus við verki er mikils virði.“

Hann nefnir einnig félagslega þáttinn og gaman sé að hitta annað fólk, hvort sem er í gönguferðum eða í tækjasalnum. Það komi í veg fyrir félagslega einangrun og auki lífsgæðin.