Bobby Moore á herðum félaga sinna með heimsbikarinn 1966.
Bobby Moore á herðum félaga sinna með heimsbikarinn 1966. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Beckham glotti í rysjóttan kampinn og fullvissaði kóngsa um að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur.

Þegar komið er að Wembley-leikvanginum í Lundúnum, einum frægasta ef ekki frægasta knattspyrnuleikvangi heims, tekur sjálfur Bobby Moore á móti manni; yfirvegaður og virðulegur á stalli sínum. Það segir sína sögu enda er Moore eini Englendingurinn sem tekið hefur á móti og lyft bikar á stórmóti, einmitt á Wembley árið 1966. Síðan eru liðin 58 ár.

Þegar það afrek vannst gekk enska þjóðin ábyggilega út frá því að leikurinn yrði endurtekinn reglulega í bráðri framtíð. Það hefur ekki gerst. Stórmótasögu Englands má raunar draga saman í eina stutta setningu: Vonbrigði á vonbrigði ofan. Iðulega hafa piltarnir valhoppað fjallbrattir inn á völlinn og þeim fylgt bjartar kveðjur frá þjóðinni, til þess eins að staulast svo sneyptir af velli, ósjaldan eftir tap í vítakeppni. Sá sirkus á ekki vel við enska sparkendur.

Í þessu ljósi sætir stórtíðindum að veðbankar spái enska landsliðinu sigri á EM sem hófst í Þýskalandi á föstudaginn. Hvað er að frétta? Opnuðu menn „góða“ skápinn áður en þeir skelltu sér í spágallann? Svari nú hver fyrir sig.

England vann að vísu risastóran áfangasigur á EM 2020, sem fór eins og við munum fram 2021, á heimavelli sínum – komst alla leið í sjálfan úrslitaleikinn. Laut þó í gras gegn tápmiklum Ítölum – í vítakeppni, nema hvað? Ári síðar var liðið áfram í fínu formi á HM í Katar en hnaut um Frakka í átta liða úrslitum en þeir síðarnefndu skiluðu sér alla leið í úrslit. Allt þetta hafa veðmangarar haft í huga er þeir drógu fram spá sína.

Tilfinningin meðal okkar, óbreyttra áhorfenda, er að manni virðist svipuð. Menn hafa trú á enska liðinu enda þótt Jón Dagur Þorsteinsson hafi rekið fleyg í þær væntingar í lokaleiknum fyrir mót á Wembley um daginn. Enska liðið leit hreint ekki vel út það kvöld og Karl konungur sá meira að segja ástæðu til að boða sjálfan David Beckham á neyðarfund í höllu sinni vegna málsins. Beckham glotti í rysjóttan kampinn og fullvissaði kóngsa um að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur; menn væru alltaf á handbremsunni í undirbúningsleikjum sem þessum enda vildi ekki nokkur maður meiðast korteri fyrir stórmót. Karl tók gleði sína á ný.

Leitun að betur mönnuðu liði

En eru veðspekingar úti á túni með blessuðum kúnum? Nei, það eru þeir ekki. Því er óhætt að lofa ykkur. Leitun er að betur mönnuðu liði en því enska í álfunni í dag og það sem meira er, lykilmenn sigla til Þýskalands á bylgju velgengni og vaskra tilburða í allan vetur.

Enda þótt Harry Kane fyrirliði hafi hvorki unnið Búndeslíguna né Meistaradeildina á sínum fyrsta vetri með Bayern München þá tætti hann og tryllti, eins og Stuðmenn forðum. Ég meina, hver skorar 44 mörk í 45 leikjum á þessu getustigi? Kane losar nú þrítugt og þetta gæti orðið lokaatlaga hans að Evrópubikarnum.

Aðrir lykilmenn í sókn Englands eru hver öðrum yngri. Phil Foden er „gamli“ maðurinn, 24 ára. Hann þekkir ekkert annað en að vinna titla með félagsliði sínu, Manchester City, og bar af öðrum sparkendum í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Ef hans tími er ekki kominn þá heiti ég Jóhanna Sigurðardóttir! Bukayo Saka er enn bara 22 ára, þrátt fyrir að hafa verið lykilmaður hjá Arsenal og landsliðinu í nokkur ár. Hann bætti leik sinn enn á liðinni leiktíð og rauf í fyrsta skipti 20 marka múrinn í öllum keppnum. Bætum svo við einu stykki Jude Bellingham, nýbökuðum Spánar- og Evrópumeistara með Real Madríd. Hann er tvítugur. Já, ég skal segja þetta aftur, tvítugur! Eigi að síður klárlega búinn að skipa sér á bekk með bestu leikmönnum í þessum heimi – og þótt víðar væri leitað.

Allir gengu þessir menn á vatni í vetur en menn hafa þó obbolitlar áhyggjur af því að þeir séu ekki í sínu allra besta standi akkúrat núna. Kane og Saka eru nýstignir upp úr meiðslum og hlífðu sér greinilega báðir gegn Íslandi; Saka kom raunar bara inn á í þeim leik og mögulega er hann ekki klár að byrja fyrsta leik á EM gegn Serbum í kvöld, sunnudagskvöld. Þá er Bellingham sagður úrvinda eftir langt og strangt tímabil en gleymir maður á hans aldri því ekki um leið og hann hleypur inn á völlinn?

Við þetta bætist að Foden hefur enn ekki farið á sama flug með landsliðinu og City; hefur til að mynda aðeins gert fjögur mörk í 34 leikjum. Ekki honum líkt. Pressan mun því ábyggilega leggjast á hann eins og mara frá og með deginum í dag. Hiksti þessir kappar bíður Cole Palmer, 22 ára, átekta á bekknum en hann bar lið Chelsea á herðum sér í allan vetur. Þrælbrögðóttur leikmaður og hændari að vinstri fæti sínum, líkt og bæði Foden og Saka.

Ekki er heldur í kot vísað aftar á vellinum, Declan Rice (25 ára) verður djúpur á miðjunni, reynslunni ríkari eftir að hafa gert harða hríð að enska meistaratitlinum á sínum fyrsta vetri með Arsenal. Margir vilja sjá Púlarann Trent Alexander-Arnold (25 ára), einn besta sendingamann heims, honum við hlið en Chelsea-maðurinn Conor Gallagher (24 ára) og United-maðurinn Kobbie Mainoo (19 ára) gera líka tilkall til þeirrar stöðu.

Í vörninni býr mikil reynsla í bakvörðunum Kyle Walker og Kieran Trippier og hafsentinum John Stones en þeir eru allir komnir á fertugsaldurinn. Fjórði maðurinn er að vísu nýgræðingur, Marc Guéhi, 23 ára, en hann ætti að geta reitt sig á góða leiðsögn frá félögunum.

Í markinu verður, eins og undanfarin ár, Jordan Pickford. Ekki afslappaðasti maður í heimi en mikill stuðkall.

Já, sem ég segi. Liðið er stríðmannað. En nægir það?