Kirkja Falleg bygging sem setur svip á byggðina á Egilsstöðum.
Kirkja Falleg bygging sem setur svip á byggðina á Egilsstöðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fimmtíu ára afmæli Egilsstaðakirkju verður fagnað með hátíðarguðsþjónustu þar á morgun, 16. júní. Einmitt á þeim degi árið 1974 var kirkjan vígð og þeirra tímamóta er nú minnst með messu. Þar þjónar sr

Fimmtíu ára afmæli Egilsstaðakirkju verður fagnað með hátíðarguðsþjónustu þar á morgun, 16. júní. Einmitt á þeim degi árið 1974 var kirkjan vígð og þeirra tímamóta er nú minnst með messu. Þar þjónar sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands, prestar kirkjunnar, núverandi og fyrrverandi, ásamt fjölda sjálfboðaliða og tónlistarfólks.

Jafnhliða afmæli kirkjunnar stendur nú yfir í Sláturhúsinu, menningarhúsinu á Egilsstöðum, sýningin Sæl eru þau sem búa í húsi þínu. Þar eru sýndir munir og myndir úr einkaeigu eða sem hafa verið gefnir Egilsstaðakirkju og tengjast stóru stundunum í lífi fólks í gleði og sorg. Sýningin er opin á sama tíma og Sláturhúsið, þriðjudaga til föstudaga kl. 11-16 og laugardaga kl. 13-16.

Fjöldi sjálfboðaliða og kirkjufólks hefur leitt og komið að undirbúningi og skipulagi sýningarinnar. Í henni er áhersla lögð á persónulega tengingu við kirkjulegar athafnir á stóru lífsstundunum og til dæmis má nefna heimagerða skírnarkjóla, fermingarföt, brúðkaupsföt og umbúnað um líkkistur.

„Þessi sýning er ekki síst hugsuð til að lyfta upp mikilvægi sóknarkirkjunnar á stóru stundum lífsins,“ segir í tilkynningu. Út árið eru síðan áformaðir fleiri viðburðir í Egilsstaðakirkju. Má þar nefna barnahátíð í haustbyrjun, afmælistónleika með listafólki af Héraði og málþing um Austurlandsskáldin á sautjándu öldinni.

Egilstaðaprestakall nær yfir víðfeðmt svæði á Héraði – svo og Seyðisfjörð og Borgarfjörð. Kirkjurnar eru 14, en mest starfið er í Egilsstaðakirkju, enda flest fólkið þar. Kallinu þjóna sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Þorgeir Arason sem er sóknarprestur og þar með í forystuhlutverki. sbs@mbl.is