Þýskaland Gígja Guðnadóttir nýkomin þangað frá Frakklandi.
Þýskaland Gígja Guðnadóttir nýkomin þangað frá Frakklandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erla Svava Sigurðardóttir og Gígja Guðnadóttir vinna saman þrátt fyrir að búa í rúmlega 8.000 kílómetra fjarlægð hvor frá annarri. Þær eru tvær af um 20 íslenskum hjúkrunarfræðingum sem búa erlendis og starfa í fjarvinnu fyrir Upplýsingamiðstöð…

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Erla Svava Sigurðardóttir og Gígja Guðnadóttir vinna saman þrátt fyrir að búa í rúmlega 8.000 kílómetra fjarlægð hvor frá annarri. Þær eru tvær af um 20 íslenskum hjúkrunarfræðingum sem búa erlendis og starfa í fjarvinnu fyrir Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar á Íslandi þar sem þær svara í símann 1700 og veita skjólstæðingum ráðgjöf.

Erla Svava Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur til 20 ára, býr og starfar á Cayman-eyjum í Karíbahafinu ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Cayman-eyjar eru eyjaklasi sunnan við Kúbu og vegnar fjölskyldunni vel þar. Börnin sækja skóla, eru í fimleikum og lifa því sem telst vera eðlilegt líf. Þegar Erla var búsett á Íslandi starfaði hún að hluta til á bráðamóttökunni í Keflavík en vann einnig fyrir Rauða krossinn á Haítí og í Pakistan um stund.

Ævintýraþrá

„Það var í rauninni ákveðin ævintýraþrá, mig langaði að prófa að búa erlendis og sjá hversu gerólíkur hversdagsleikinn er,“ segir Erla, spurð hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að flytja til Cayman-eyja. Þá hefur löngunin til að búa erlendis blundað lengi í Erlu og þar sem maðurinn hennar er kanadískur spilaði það einnig inn í.

Maður Erlu er skurðlæknir. Hann kom til Íslands í covid-19 og ætlaði að reyna að búa hér, ásamt því að sækja um skurðlækningaleyfi. Þar lenti hann á vegg og nú þremur árum seinna er hann ekki enn kominn með leyfi til skurðlækninga á Íslandi.

Til annarra ráða þurftu þau hjón að grípa og skráðu sig á alþjóðlegan lista vinnumiðlunar fyrir hjúkrunarfræðinga og lækna sem vilja starfa erlendis. Þá kom upp laus staða á Cayman-eyjum sem maðurinn hennar stökk á. Erla fylgdi auðvitað fast á eftir en hjúkrunarleyfið hennar er þó ekki tekið gilt á þessu svæði.

Hún dó þó ekki ráðalaus og mundi eftir íslenskum hjúkrunarfræðingi sem vann fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi í fjarvinnu á Tenerife. Hafði Erla þá samband við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og lýsti yfir áhuga sínum á starfinu. Var hún ráðin strax og hóf störf nú í febrúar.

„Ég þarf bara að hafa góða nettengingu, tölvuna mína og heyrnartól, þá get ég sinnt þessu starfi hvar sem er,“ segir Erla.

Sveigjanlegur vinnutími

Gígja Guðnadóttir hefur starfað í fjarvinnu fyrir heilsugæsluna í rúmt ár. Fyrst frá Frakklandi en nú Þýskalandi. Hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræðinámi árið 2022 og vann í kjölfarið hérlendis í einn vetur. Fyrir rúmu ári flutti hún svo til Frakklands þar sem kærastinn hennar starfaði þar. „Ég vissi ekki af þessum möguleika þegar ég flutti út, ég renndi bara blint í sjóinn. Svo benti þáverandi yfirmaður minn mér á þetta og ég byrjaði bara strax að vinna hjá heilsugæslunni,“ segir Gígja.

Kærasta hennar bauðst svo starf í Þýskalandi og í dag eru þau búsett þar. Gígja segir það hafa reynst lítið mál þar sem það sé henni heppilegt að vera ekki með fasta búsetu.

Gígja segir þetta vera algert draumastarf fyrir fólk sem vill vera á sífelldu flakki og ekki binda sig niður á einum stað. Þá segir hún að það geti reynst erfitt að fá vinnu í nýju landi og tala ekki tungumál heimamanna. Hún segir hentugt að vinna fjarvinnu á íslensku.

Báðar vinna þær Gígja og Erla vaktavinnu með sveigjanlegum tímum. Spilar þá tímamismunur landanna mest inn í hve vel vinnutímar hjúkrunarfræðinga passa saman. Þær segjast báðar sjá hvað mest um tímana sem erfiðast er að manna á Íslandi. Það sé þá helst milli klukkan sex og átta á morgnana og síðan á háannatímum seinnipartinn. Þá er fólk ýmist að koma sér í eða úr vinnu, sækja og skutla börnum á leikskólann og fleira. Aftur á móti er klukkan hjá þeim annaðhvort ekki komin að þeim tíma eða komin fram yfir hann.

„Það er mjög einstaklingsbundið hvernig vaktir fólk tekur í þessu starfi og vinnan er mjög sveigjanleg. Ekki eins og á spítölunum þar sem maður er bara á dagvakt, kvöldvakt eða næturvakt,“ segir Gígja.

Fjarvinnan víða

Helsti munurinn á starfseminni á Íslandi og þeirra fjarvinnu liggur í því að þær fá ekki „kaffistofumenninguna“ sem er ómissandi þáttur á vinnustöðum. Þær veita ráðgjöf í síma 1700. Ýmist leysa þær málið með skjólstæðingnum eða beina honum á réttan veg þar sem hann fær viðeigandi læknisþjónustu.

Þær segja starfið snúast einna helst um forflokkun. Þá flokka þær skjólstæðinga sem hringja niður eftir alvarleika, tegund veikinda, hvar þeir eru búsettir á landinu upp á það hvaða heilsugæslu þeir skuli leita til, og svo koll af kolli. Þetta auki álag þeirra en að sama skapi léttir það álag heilsugæslunnar til muna og gerir heilbrigðiskerfið skilvirkara.

Báðar segjast þær sakna þess að vinna með sjúklingum augliti til auglitis en á móti kemur tækifærið að búa á framandi stöðum og upplifa nýja menningarheima. Þær segjast þakklátar fyrir að fá að nýta sína þekkingu á starfi og fá möguleikann á að vera í sambandi við íslenskt heilbrigðiskerfi.

Auk Cayman-eyja og Þýskalands starfa íslenskir hjúkrunarfræðingar í fjarvinnu frá Frakklandi, Kanada, Nýja-Sjálandi, Danmörku, Ítalíu, Sviss, Bretlandi og Spáni. Þetta vinnufyrirkomulag skapar hjúkrunarfræðingum tækifæri til að prófa að búa erlendis ásamt því að hafa örugga vinnu.