— Morgunblaðið/Eggert
Hvenær og hvernig byrjaðir þú að fást við töfrabrögð? Það var árið 2006. Þá kynntist ég minni barnsmóður og það var maður innan hennar fjölskyldu sem kunni á töfrabrögð og kynnti mér þau. Svo féll ég algerlega fyrir þessu og þar byrjaði þetta allt

Hvenær og hvernig byrjaðir þú að fást við töfrabrögð?

Það var árið 2006. Þá kynntist ég minni barnsmóður og það var maður innan hennar fjölskyldu sem kunni á töfrabrögð og kynnti mér þau. Svo féll ég algerlega fyrir þessu og þar byrjaði þetta allt.

Hver eru þín uppáhaldstöfrabrögð?

Mín sérgrein og mín uppáhaldstöfrabrögð eru spilagaldrar, ef við erum að tala um flokka. Sem stakt töfrabragð ætla ég að nefna Fiber optics. Það er bandarútína sem er fallegri en allt í heiminum og verður til dæmis framkvæmd á sýningunni.

Hvaðan færðu innblástur?

Minn innblástur í töfrabrögðum á Íslandi fæ ég frá Pétri pókus. Hann var gríðarlegur töframaður hérna á 9. áratugnum og ég keypti mitt fyrsta töfrabragð af honum. En mitt átrúnaðargoð og sá sem ég horfði upp til fyrst um sinn, og varð kveikjan að mínum áhuga, er þó David Blaine. Mér hefur alltaf fundist töfrabrögð svo falleg og svo mikil dulúð í kringum þau. Fólki finnst þetta alveg óþolandi en samt eitthvað svo heillandi. Það er svo mikil þversögn í þessu. Og ég plata engan, ég fæ fólk til að plata sig sjálft. Það eru forréttindi að fá að veita fólki upplifun. Ég fæ að veita fólki þessa upplifun og þess vegna vinn ég við þetta.

Ljóstrarðu einhvern tímann upp þínum brögðum?

Ég geri það yfirleitt aldrei, nema þá einhver grín-töfrabrögð.

Geturðu sagt okkur aðeins frá sýningunni?

Ég einfaldlega hringi einn dag í vin minn og segi að það séu hvergi töfrasýningar á dagskrá. Það var kveikjan að þessari sýningu, mig langaði að búa til eitthvað svo það væru töfrabrögð til sýnis í Reykjavík. Mig langaði einnig að hafa sýninguna á þessum tíma vegna þess að móðir mín lést 20. júní 2021, og hún hélt mjög mikið upp á töfrabrögðin mín. Þetta er því haldið á þessum tíma í minningu hennar. Þetta eru sem sagt ég, Einar Aron töframaður, John Tómasson töframaður og Tryggvi Rafnsson uppistandari. Einar er alveg ótrúlega fyndinn og mun sýna skemmtileg töfrabrögð. John er dulúðlegur og sýnir rosalega falleg töfrabrögð. Tryggvi er ekkert eðlilega fyndinn, hann mun á ákveðinn hátt tengja okkur saman. Við töframennirnir verðum allir með atriði og Tryggvi verður með uppistand inn á milli atriða. Þetta er því ákveðin uppistands-töfrasýning. Það er rosalega mikill húmor í þessu og þetta verður skemmtileg sýning.

Daníel Örn töframaður er einn fjögurra sem munu halda töfrasýningu í Iðnó 20. júní. Sýningin verður uppistands-töfrasýning.