Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis bendir á í nefndaráliti sínu um fjármálaáætlun áranna 2025 til 2029, sem nú er til umfjöllunar á þingi, að nauðsynlegt sé að samgönguáætlun sé stillt upp í samræmi við fjármálaáætlun „og ekki gengur upp að…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis bendir á í nefndaráliti sínu um fjármálaáætlun áranna 2025 til 2029, sem nú er til umfjöllunar á þingi, að nauðsynlegt sé að samgönguáætlun sé stillt upp í samræmi við fjármálaáætlun „og ekki gengur upp að framkvæmdir séu umfram áætlanir,“ segir þar orðrétt.

Bent er á að í gildandi samgönguáætlun hafi skapast misræmi við fjárveitingar og segir meirihlutinn um það orðrétt: „Er með öllu óviðunandi ástand.“ Í árslok 2023 hafi fjárveitingar til viðhalds á vegakerfinu verið neikvæðar um 4,5 milljarða og stofnkostnaður Vegagerðarinnar með 500 milljóna halla í árslok 2023.

Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því í gildandi samgönguáætlun að framkvæmdir við Hornafjarðarfljót kosti 4,9 milljarða og var heimilað að verja 2.450 milljónum af almannafé til verkefnisins, en jafn mikið átti að koma með fjármögnun verktaka. Einnig hefur komið fram að alls sé búið að verja 3,5 milljörðum í verkefnið, en áætluð útgjöld þessa árs séu 4 milljarðar. Fram hefur komið hjá þingmönnum að útgjöld Vegagerðarinnar umfram þær heimildir sem Alþingi veitir séu 5 til 6 milljarðar, eða jafnvel meira.

Í þeirri samgönguáætlun sem unnið er að á Alþingi, og hefur þ.a.l. ekki hlotið samþykki, er gert ráð fyrir 5,9 milljörðum til Hornafjarðarverkefnisins. Heildarkostnaður við það er þó áætlaður um 9 milljarðar, en verklok eiga að vera á næsta ári. Ekki verður því séð að Alþingi hafi gefið fjárheimildir fyrir þessum útgjöldum, enda aðeins heimilað útgjöld upp á 2.450 milljónir, eins og fyrr er sagt.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins kom inn á þetta mál á þingi í gær. Sagði hann óforsvaranlegt að afgreiða nú þá tillögu að samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi.

„Þar er skipting fjárveitinga og framúrkeyrsla, sérstaklega í ákveðnu kjördæmi, sem margt bendir til að muni soga til sín allt framkvæmdafé sem annars væri til ráðstöfunar landið um kring,“ sagði Bergþór og átti þar við framkvæmdir við Hornafjarðarfljót, sem komnar eru langt fram úr þeim fjárheimildum sem Alþingi hefur veitt.