Listakonan segir að sýningin sé sér afar kær.
Listakonan segir að sýningin sé sér afar kær. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég var hraust en um leið veik, viðkvæm en um leið sterk, meyr eins og lunga en um leið með þandar taugar, berskjölduð en um leið vernduð.

Margrét H. Blöndal sýnir 25 ný verk á pappír á sýningunni Þín er vænst/Do not go roughly into that good night í galleríi i8, Tryggvagötu. Sýningin stendur til 6. júlí.

Um heiti sýningarinnar segir Margrét: „Þessi titill kom til mín í upphafi árs þegar mér bauðst að sýna hér. Þín er vænst inniheldur bæði væntumþykju og væntingar. Enski titillinn vísar hins vegar í hamskiptin sem við förum í gegnum síendurtekið í lífinu. Ég er að stíga fram úr dálitlu sem ég hafði blessunarlega aldrei prófað áður en það var að fara í stranga krabbameinsmeðferð og eins og þegar þrengt er að manni upplifði ég ríkulega hvernig maður getur verið margt á sama tíma. Ég var hraust en um leið veik, viðkvæm en um leið sterk, meyr eins og lunga en um leið með þandar taugar, berskjölduð en um leið vernduð.

Mér varð hugsað til kvæðis Dylans Thomas Do not go gentle into that good night og þessi góða nótt sótti á mig og merking hennar. Ég hugsaði með mér hvernig í ósköpunum væri hægt að streitast á móti og nóttin varð að stað … griðastað umbreytinga, þar sem mögulegt er að skipta um ham, þroskast, heilast og verða aftengdur áreitinu – sérstaklega frá sjálfri þér – stað þar sem efinn hefur ekki aðgang að þér og þú ert beintengd öflunum. Mér finnst þessi staður, þetta umbreytingarferli frekar tengjast nóttinni heldur en deginum. Á Íslandi eigum við bjarta nótt sem er ekki bundin við myrkur heldur tímaleysi – þannig er líka sköpunarferlið. Hver er ávarpaður í titlinum, þín er vænst? Áhorfandinn eða verkin eða listamaðurinn sjálfur?“

Pappírinn verður rýmið

Spurð um myndefnið segir hún: „Ég er aldrei með fyrirframgefnar hugmyndir þegar ég nálgast pappírinn en þetta eru teikningar sem eru dregnar upp í hamskiptunum. Veröldin skreppur saman og pappírinn verður rýmið. Höndin heldur á penslinum sem dansar milli olíu og litadufts, hver litur hefur sína aðlöðun, duftið er misþykkt, lengd og breidd pensilsins líka og höndin strýkur eftir fletinum knúin samspili þessara þátta og þessa augnabliks sem verður aldrei meir.“

Margrása sýning

Verkin á sýningunni eru gerð á þessu ári. „Þegar ég sneri aftur í vinnustofuna fann ég hvað hver stroka varð dýrmæt. Mig langaði til að vinna með aðrar stærðir en hafa verið mér tamar og það var ánægjulegt hversu áreynslulaust það reyndist. Gjarnan eru þetta glímur og geta tapast og verkin fara í ruslið. En svo er magnað og uppljómandi að fylgjast með einhverju óþekktu verða til og fá að elta það. En það sem er dýrmætast er líka fágætt og leikur sem tókst verður ekki endurtekinn því þá er komin önnur stund og annar taktur í tilveruna.

Mig langaði að hafa ólík verk á þessari sýningu og fleiri frekar en færri. Ég vildi líka að þessi sýning yrði margrása. Ég er ekki eingöngu að vinna með mismunandi takta heldur líka ólíka hljóma svo ég noti samlíkingu úr tónlistarheiminum. Það þýðir ekkert fyrir mig að ákveða uppsetningu áður en ég mæti með verkin inn í sýningarrýmið. Verkin verða að finna sér stað. Súlan hefur áhrif á klasamyndanir, áhorfandinn gengur um salinn og hljómurinn breytist eftir því hvar hann er staddur í rýminu.

Að sjá nýjar sýningar verða að veruleika er kært en þessi er sérstaklega kær og ekki orð um það meir.“