Hljóðið í „verkinu“ minnti Jóu jákvæðu einna helst á umferðargný.
Hljóðið í „verkinu“ minnti Jóu jákvæðu einna helst á umferðargný. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Jóa jákvæða ritaði Velvakanda bréf í júní 1984 og lýsti upplifun sinni af listsýningu á Listahátíð í Reykjavík. „Inn af sýningarsölunum í litlu fundarherbergi var sýning á videolist. Það hafði ég aldrei séð og varð forvitin, settist á stól gegnt sjónvarpi og byrjaði að horfa

Jóa jákvæða ritaði Velvakanda bréf í júní 1984 og lýsti upplifun sinni af listsýningu á Listahátíð í Reykjavík.

„Inn af sýningarsölunum í litlu fundarherbergi var sýning á videolist. Það hafði ég aldrei séð og varð forvitin, settist á stól gegnt sjónvarpi og byrjaði að horfa. Listamaðurinn var á skjánum að útskýra vinnuaðferðir sínar og eftir stutta stund hætti myndin, spólunni var spólað til baka og myndin byrjar á ný. Á skjánum birtust láréttar hvítar og svartar nokkuð óreglulegar rákir, sem þeyttust upp og niður og stundum mynduðust hin ýmsu mynstur. Hljóðið minnti helst á umferðargný og skófluskelli, t.d. í grýttri jörð. Ég sit og horfi (að vísu verkjaði mig í augun, því myndin var stöðugt á hreyfingu) og hlusta og horfi. Ýmsar hugsanir flugu um í kollinum t.d.: Þetta líkist nú bara sjónvarpstruflunum, jæja þetta getur nú batnað, en hvað er listamaðurinn að fara? Ég sat áfram, vildi gjarnan kynnast þessari nýju listgrein og reyna að komast til botns í þessu. En mér var orðið svolítið illt í augunum og ég hugsaði: Ekki get ég farið að lítillækka listamanninn og sjálfa mig í leiðinni með því að fara fram og spyrja starfsfólk hússins hvort tækið sé bilað. Ég var sem sagt ein allan tímann. Ég sat áfram og horfði og hlustaði með sama jákvæða hugarfarinu. Eftir að um tuttugu mínútur voru liðnar kom ein starfsstúlka í gættina, horfði á skjáinn og sagði: „Hvað er þetta, allt í volli hér.““