[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rétt er samt að mæla eindregið með því að fólk lyfti andanum með því að taka nokkrar bækur með sér í fríið og eigi góðar stundir við lestur þeirra.

Það er enginn stórglæpur að fara í sumarfrí án þess að hafa með sér bók. Rétt er samt að mæla eindregið með því að fólk lyfti andanum með því að taka nokkrar bækur með sér í fríið og eigi góðar stundir við lestur þeirra. Það er sannarlega úr nógu að velja.

Mikið úrval er af erlendum glæpasögum eins og fyrri daginn. Engin þeirra sem nú eru á markaði er beinlínis framúrskarandi, en afþreyingargildið stendur nokkurn veginn fyrir sínu. Glæpasagnaunnendur hljóta margir að hafa áhuga á að lesa Sjö fermetra með lás sem er tíunda og síðasta bók hins danska Jussi Adler-Olsen um Deild Q. Adler hefur skrifað margar ansi góðar glæpasögur en bækur hans hafa heldur dalað síðustu árin, rétt eins og á við um hinn norska Jo Nesbö. Það getur verið erfitt fyrir ríka metsöluhöfunda að viðhalda glóðinni og eldmóðinum og þá fara bækurnar að verða eins og hver önnur framleiðsla. Þessi síðasta bók um Deild Q er ekki slæm, en of löng eins og á við aðra hverja glæpasögu nútímaglæpasagnahöfunda. Deila má um lok bókarinnar, en þar umfaðmar Adler-Olsen aðalpersónu bókaflokksins, Carl Mörk, og þakkar honum fyrir tilurð þessa vinsæla bókaflokks á nokkuð sérstakan hátt.

Mýrarstúlkan er glæpasaga eftir hina bresku Elly Griffiths. Aðalpersónan er Ruth Galloway sem býr ein með köttum við ströndina í Norfolk á Englandi og kennir fornleifafræði. Einn daginn fær hún símtal frá lögreglunni og af stað fer atburðarás sem tengist hvarfi ungrar stúlku tíu árum fyrr. Bókin er sú fyrsta í bókaflokki höfundar um Ruth Galloway. Hún minnir sumpart á bækur Anne Cleeves og Vivecu Stein því hún er eins og þær þægilegheita-glæpasaga þótt hún mætti vera meira spennandi.

Anne Cleeves er þekktust fyrir glæpasögur sínar um Jimmy Perez og hina einstöku Veru Stanhope. Glæpasaga eftir hana er efst á metsölulista Eymundsson. Fuglinn í fjörunni heitir hún og þar kynnir Cleeves til sögunnar nýja söguhetju, Matthew Venn, sem rannsakar dularfullt morð.

Ástin nýtur vinsælda

Rómantískar skáldsögur hafa verið að sækja í sig veðrið síðustu misseri. Ein þeirra er Bústaðurinn við ströndina eftir Sarah Morgan. Morgan er metsöluhöfundur og ótrúlega afkastamikil því hún hefur frá árinu 2000 sent frá sér um 80 rómantískar skáldsögur sem hafa selst í rúmlega 18 milljónum eintaka. Þeir sem kjósa þægilega afþreyingu geta leitað til hennar. Jill Mansell er annar vinsæll ástarsagnahöfundur og bók hennar Ætti ég að segja þér? er ofarlega á metsölulista Eymundsson eins og bók Morgans.

Lykillinn, bók Kathryn Hughes, er sömuleiðis á metsölulista. Hughes skrifar oft um tvö tímaskeið sem tengjast á einhvern hátt. Það á við í þessari bók þar sem fimmtíu ár skilja persónur að. Þetta er nokkuð dæmigerð metsölubók sem reynir ekki mjög á lesandann en afþreyingargildið er nokkuð eins og vinsældirnar sanna.

Frábær Keegan

Ef mæla á með bókum vegna gæða þeirra, eins og á reyndar fyrst og fremst að gera, kemur ein bók samstundis upp í hugann, sem er Fóstur eftir hina írsku Claire Keegan. Bókin hefur slegið í gegn hér á landi, eins og svo víða annars staðar. Aðalpersónan er ung stúlka sem fer í fóstur til ættingja eitt sumar þegar móðir hennar er um það bil að eignast barn. Stúlkan kynnist þar hlýju og umhyggju sem foreldrar hennar hafa ekki veitt henni og kemst að leyndarmáli fósturforeldranna. Þetta er hjartnæm bók, gríðarlega vel byggð og skrifuð af einstakri stílgáfu. Áður hefur komið út eftir sama höfund nóvellan fallega, Smámunir sem þessir, sem geymir sterkan siðaboðskap án þess að predikað sé yfir lesandanum.

Keegan er ekki afkastamikil en afar vandvirk og hefur einbeitt sér að því að skrifa smásögur og nóvellur. Hún er margverðlaunaður höfundur sem bæði gagnrýnendur og almennir lesendur hrífast af.

Dularfullur köttur

Nokkrir íslenskir rithöfundar hafa sent frá sér skáldverk, sem eru misgóð. Hér er mælt með Möndlu eftir Hildi Knútsdóttur. Bókin er í stíl við fyrri nóvellur Hildar, Myrkrið milli stjarnanna og Urðarhvarf.

Mandla er læða sem fer að gera sig heimakomna á hjúkrunarheimili og öldrunarlæknirinn Eva tekur henni vel í byrjun. Hún tekur síðan eftir því að allir sem Mandla hænist að látast skömmu síðar.

Þetta er stutt bók, læsileg og fremur spennandi. Það eru ólíkir þræðir í bókinni, sem í byrjun virðast ekki tengjast, en gera það þó samt. Hin ágætasta bók. Glæný bók á markaði er svo Týndur eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Lögreglukonan Hanna leitar þar ungs drengs sem hvarf.

Klassík sem bregst ekki

Það er dapurleg staðreynd að þýdd klassísk verk seljast lítið hér á landi. Það er þó engin ástæða til að hætta að tala máli þeirra. Gæðin eru einfaldlega mjög mikil. Ein þessara bóka er Í landi sársaukans eftir Alphonse Daudet. Gyrðir Elíasson þýðir en hann lætur ekki nafn sitt nema við það besta. Í þessari áhrifamiklu bók lýsir Daudet (1840-1897) baráttu sinni við sýfilis. Þetta er stutt og brotakennd frásögn þar sem höfundur setur óbærilega líðan í orð. Sár og nístandi lestur um mann sem býr við stöðugan líkamlegan sársauka en reynir eftir megni að þrauka.

Önnur bók sem óhætt er að lofa er Lofgjörð til Katalóníu eftir þann stórmerka George Orwell, höfund Dýrabæjar og 1984. Þarna lýsir hann reynslu sinni úr borgarastyrjöldinni á Spáni þar sem hann barðist sem sjálfboðaliði með sveitum sósíalista á árunum 1936-1937. Hann lýsir hryllingi og ömurlegum aðstæðum og segir frá baráttu og dauða. Þetta er bók sem allir áhugamenn um sögu ættu að lesa en hún höfðar sannarlega til fleiri vegna hins mannúðlega tóns sem umlykur alla frásögnina og gerir að verkum að lesandinn tengir við Orwell á fallegan hátt.

Ljóð sem gleðja

Góð ljóð virka afar vel á sálina. Það á við um úrval af ljóðum Þórarins Eldjárns, 100 kvæði. Kímin, skemmtileg og hlýleg ljóð og oftar en ekki full af óvæntum hugdettum. Þórarinn sér ljóð í öllu, eins og til dæmis íslenskum kerlingum, sloppum og úhú-líminu nytsama. En þarna eru líka dýpt og harmur, eins og í einu besta ljóði skáldsins, Óli. Annað ljóð um sorgina og nauðsyn þess að halda áfram að lifa, Sonatorrek, er sömuleiðis verulega eftirminnilegt.

Kristján Þórður Hrafnsson valdi ljóðin og gerði það óaðfinnanlega, eins og flest annað sem hann kemur nærri. Þetta ljóðaúraval mun gleðja alla þá sem það lesa.

Bækur fyrir börnin

Sá vinsæli barnabókahöfundur Sigrún Eldjárn sendir frá sér persónulegustu bók sína til þessa, Sigrún á safninu, þar sem hún lýsir uppvaxtarárum sínum á Þjóðminjasafninu þar sem faðir hennar, Kristján Eldjárn, starfaði sem þjóðminjavörður. Bókin hefst á fæðingu Sigrúnar og endar þegar fjölskyldan flytur úr Þjóðminjasafninu. Þetta er skemmtileg og fróðleg bók, full af léttleika, og vitaskuld er hún ríkulega myndskreytt. Þarna eru bæði teikningar eftir Sigrúnu og myndir úr fjölskyldualbúminu.

Gunnar Helgason er svo líklegur til að slá í gegn hjá krökkum með bókinni Amma slær í gegn, sem er ný bók um Stellu og litríka fjölskyldu hennar.

Rétt er svo að minna á fallega barnabók. Bangsímon bjalla heitir sú eftir Selinu Chönz með myndskreytingum eftir Alois Carigiet. Björn Oddsson þýðir. Sagan, sem er í bundnu máli, segir frá dreng sem verður fyrir einelti en vegna eigin þrautseigju stendur hann uppi sem sigurvegari. Bókin inniheldur góðan boðskap og er auk þess ákaflega falleg og eiguleg, sem skiptir vitanlega máli.

Aldrei verður næg áhersla lögð á mikilvægi þess að börn lesi bækur. Lestur eykur ímyndarafl og skapandi hugsun, styrkir málkennd og eflir samkennd. Auk þess er lestur alveg óskaplega skemmtilegur. Þess vegna eigum við öll að lesa bækur, og helst sem allra mest af þeim.