„Þegar öllu er á botninn hvolft erum við að tala um ýmis undirstöðustörf í matvælaframleiðslu, í rekstri hótela og veitingastaða, störf sem eru gjaldeyrisaflandi. Hver vill koma á hótel þar sem salernið er illa þrifið?“ spyr höfundur.
„Þegar öllu er á botninn hvolft erum við að tala um ýmis undirstöðustörf í matvælaframleiðslu, í rekstri hótela og veitingastaða, störf sem eru gjaldeyrisaflandi. Hver vill koma á hótel þar sem salernið er illa þrifið?“ spyr höfundur. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eflaust reka einhverjir upp stór augu við svona tal. Það gera þau helst sem eru á hinum endanum í launaskalanum, fólkið sem sjálft hefur allt til alls og getur veitt börnum sínum aðgang að lystisemdum lífsins.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Ögmundur Jónasson

ogmundur@ogmundur.is

Annað veifið birtast fréttir af vinnustöðum þar sem enginn Íslendingur vill vinna. Þetta mun jafnvel eiga við um heilar starfsgreinar, að landinn fúlsi við þeim. Störfin þar séu lýjandi, skítug, einhæf og síðast en ekki síst lágt launuð.

Við vitum hvað þá er tekið til bragðs. Þá er einfaldlega flutt til landsins fólk sem er svo illa haldið heima fyrir að það lætur sér lynda óþrifin, einhæfnina, amstrið – og lágu launin.

Margir telja þetta til marks um ágæti markaðarins, lofa og prísa lögmál hans og minna á að við gætum ekki rekið samfélagið án þessa aðkomufólks á lágu laununum.

Íslendingar eru ekki einir um svona tal. Að þessu leyti sverja þeir sig í ætt við aðrar þjóðir Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Í lagi þykir að bjóða upp á léleg kjör svo lengi sem eftirspurn sé fyrir hendi.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að spyrja hvort þetta sé siðleg afstaða. Ég tel svo ekki vera og það sem meira er, að þetta stuðli að vaxandi mismunun og stéttaskiptingu. Útlendingar á lágum launum, sem búi við erfið húsnæðiskjör og standi stöðugt í lýjandi glímu við framandi og þar af leiðandi erfiðar aðstæður, séu engan veginn í færum að sinna börnum sínum á sama hátt og betur stæðu stéttirnar geta gert. Af þessu hlýst hróplegt misrétti sem fyrr eða síðar leiðir til margvíslegra félagslegra vandamála. Þetta er reynslan um allan hinn iðnvædda heim.

Er þá verið að mæla með banni á innflutningi fólks? Nei, það er einfaldlega verið að segja, að ef til eru þau störf í ríku þjóðfélagi sem enginn vill sinna ótilneyddur, þá sé um tvennt að ræða. Að leggja þessi störf niður eða breyta þeim.

En væri þá hægt að reka þjóðfélagið? Þegar öllu er á botninn hvolft erum við að tala um ýmis undirstöðustörf í matvælaframleiðslu, í rekstri hótela og veitingastaða, störf sem eru gjaldeyrisaflandi. Hver vill koma á hótel þar sem salernið er illa þrifið?

Því er til að svara að ef það er forsenda þess að reka hótel eða önnur fyrirtæki að starfsfólkinu séu búin afarkjör, bæði launalega og félagslega, þá er hreinlega ekki nein forsenda fyrir rekstrinum. Svo einfalt er það.

Eflaust reka einhverjir upp stór augu við svona tal. Það gera þau helst sem eru á hinum endanum í launaskalanum, fólkið sem sjálft hefur allt til alls og getur veitt börnum sínum aðgang að lystisemdum lífsins. Ekkert mál að kaupa námskeiðin í músík og íþróttum, fara í ferðalög, leikhús, kaupa bækur og tölvur, allt sem hugurinn girnist. Þetta geta margir en aðrir ekki.

Þeir sem þenja út hagkerfið með því að nýta sér neyð fólks sjálfum sér til ávinnings eru á góðri leið með að eyðileggja samfélag okkar. Þeir eru vandamálið, ekki nokkrir hælisleitendur. Það er hinn mikli misskilningur ef þá ekki stóra lygin.

Það er ekkert við það að athuga að erlendis frá komi fólk til starfa hér á landi á sama hátt og Íslendingar halda utan í atvinnuleit. Það er hinn öri vöxtur sem er varhugaverður, svo ekki sé meira sagt, þegar tugþúsundum er beint til landsins án þess að samfélagið sé fært um að taka á móti þeim og því síður atvinnureksturinn sem býður kjör sem Íslendingar telja óboðleg. Í ofanálag sligast innviðir íslenskrar menningar, tungumálið þá sérstaklega, undan farginu sem fylgir stjórnlausri þenslu.

En er hægt að rétta kúrsinn?

Auðvitað er það hægt en kallar á byltingu hugarfarsins.

Það gæti þá kostað milljón á mánuði að hreinsa skítinn eftir ríka túristann.