Leigumorðinginn „Persónuþróunin er ekki trúðverðug,“ segir rýnir.
Leigumorðinginn „Persónuþróunin er ekki trúðverðug,“ segir rýnir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Netflix Hit Man / Leigumorðingi ★★½·· Leikstjórn: Richard Linklater. Handrit: Richard Linklater, Glen Powell og Skip Hollandsworth. Aðalleikarar: Glen Powell, Adria Arjona og Austin Amelio. 2023. Bandaríkin. 115 mín.

KVIKMYNDIR

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Kvikmyndin Leigumorðingi var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í september í fyrra og nokkrum dögum síðar var hún frumsýnd í Norður-Ameríku á Toronto International Film Festival (TIFF) þar sem Netflix keypti sýningarréttinn en það er einfaldlega ótrúlegt að svona ómerkileg mynd hafi komist á þessar virtu kvikmyndahátíðir.

Myndin fylgir aðalpersónunni Gary Johnson (Glenn Powell) sem er prófessor í sálfræði og heimspeki við Háskólann í New Orleans en samhliða því hjálpar hann lögreglunni í svokölluðum blekkingaraðgerðum (e. sting operation). Einn daginn er Gary beðinn um að leysa samstarfsfélaga sinn Jasper (Austin Amelio) af og leika leigumorðingja og fá „viðskiptavinina“ til að játa á sig sökina. Það kemur strax í ljós að Gary er með leynda leikarahæfileika og gengur svo langt að rannsaka hinn grunaða eða „viðskiptavininn“ fyrir fram og sníða persónu í kringum hvern og einn. Í eitt skipti leikur hann til dæmis Patrick Bateman sem Christian Bale lék svo listilega í American Psycho (Mary Harron, 2000). Persónan sem Gary á hins vegar auðveldast með að leika er Ron enda er sú persóna í raun bara svalari og öruggari týpa af honum sjálfum. Gary setur sig í fyrsta skiptið í hlutverk Rons þegar hann hittir „viðskiptavininn“ Madison (Adria Arjona) sem vill láta myrða ofbeldisfullan eiginmann sinn. Á meðan Gary ræðir við hana fyllist hann samúð og þegar hún reynir að greiða honum neitar „Ron“ að taka við peningunum og leggur til að Madison noti þá í staðinn til að hefja nýtt líf. Þessi óvenjulegi fundur verður upphafið að þeirra ástarsambandi en með Madison fær Gary tækifæri til að vera óbeisluð útgáfa af sjálfum sér eða eins og Gary myndi orða það sjálfur, þá mætir aðeins þaðið (e. id) heim til Madison á kvöldin, sjálfið (e. ego) og yfirsjálfið (e. superego) verður eftir heima.

Kvikmynd en ekki hljóðbók

Í byrjun myndarinnar er Gary bara Gary, frekar óaðlaðandi og lúðalegur kennari sem er fastur í sama fasa. Líf hans snýst fyrst og fremst um kennsluna og kettina hans, Id og Ego. Það er mjög ljóst að fyrirlestrar hans virka sem eins konar spegill á lífið hans og það er í gegnum kennsluna sem áhorfendur sjá skýrast þróunina á aðalpersónunni. Snemma í myndinni hittir Gary fyrrverandi kærustu sína í hádegishléi og áhorfendur fá að vita að hann sé þeirra skoðunar að fólk geti ekki breyst. Fyrrverandi kærastan kemur aldrei aftur fyrir í myndinni en samt fá áhorfendur kynningu í gegnum sögumann, þ.e. Gary, að þetta sé fyrrverandi kærasta hans og sú sem þekkir hann best. Það er truflandi þegar sögumannsröddin talar yfir myndina en undirrituð er þeirrar skoðunar að ef það er hægt að sleppa því og koma upplýsingum til skila öðruvísi þá er það yfirleitt betra enda er um að ræða sjónrænan miðill en ekki hljóðbók. Í þessu atriði er sögumannsröddin ekki nauðsynleg og í raun heldur ekki fyrrverandi kærastan, eina sem þurfti að koma fram var að hann tryði ekki að fólk gæti breyst en því hefði verið hægt að koma til skila á frumlegri máta.

Gary tekur miklum breytingum í myndinni og undir lok myndarinnar hvetur hann nemendur sína til að mæta sem besta útgáfan af sjálfum sér þangað til það verður nýja normið en það er einmitt það sem Gary gerir, hann breytist undir lokin í Ron. Af þessu að dæma er Leynimorðinginn dæmi um vel skipulagt handrit, þ.e. mynd um persónu sem tekur breytingum eftir óvæntan atburð. Vandamálið er að það er mjög erfitt að sannfæra áhorfendur um að fjallmyndarlega vöðvabúntið klæði sig svona hallærislega og lifi einungis fyrir kennsluna og kettina sína. Eina sem undirrituð sá var sjarmatröll í búningi og keypti þar af leiðandi ekki persónuna eða persónuþróunina og ef áhorfendur kaupa ekki þróunina þá hefur leikstjóranum mistekist. Leikarinn Glen Powell stóð sig ágætlega og þessi persónuþróun hefði eflaust gengið ef Linklater hefði leyft sér að ganga lengra í umbreytingunni. Útlitsbreytingin á Mia Thermopolis (Anne Hathaway) í Dagbókum prinsessunnar (2001) eftir leikstjórann Gary Marshall var meira segja áhrifameiri en umbreytingin í Leigumorðingja en ekki komst Dagbækur prinsessunnar á TIFF eða alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Feneyjum.

Endirinn það eina góða

Myndin gengur ekki upp af því að persónuþróunin er ekki trúverðug og þegar áhorfendur trúa ekki á persónurnar þá missir myndin allt sitt vægi. Það er þó mjög ánægjulegt að fylgjast með Glenn Powell bregða sér í ólík gervi leigumorðingja og sýna þannig breidd í leik sínum en jafnvel þó undirrituð sé hrifin af Glenn Powell þá er hún hrædd um að hann hafi ekki verið rétti aðilinn í hlutverkið. Lokaatrennan er hins vegar hápunktur myndarinnar en það er ekki nóg til að myndin geti talist góð.