Hrafnseyri Reisulegar byggingar.
Hrafnseyri Reisulegar byggingar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska tungu þarf að vernda en um leið sækja fram, segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Hún flytur aðalræðuna á Hrafnseyrarhátíð sem venju samkvæmt er í dag, 17. júní, og segist þar munu ræða um íslenskuna

Íslenska tungu þarf að vernda en um leið sækja fram, segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Hún flytur aðalræðuna á Hrafnseyrarhátíð sem venju samkvæmt er í dag, 17. júní, og segist þar munu ræða um íslenskuna. Löng hefð er fyrir dagskrá á þessum degi á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta og að fólk úr forystu samfélagsins á hverjum tíma flytji þar ávarp.

„Við þurfum að tryggja að fólk af erlendum uppruna sem hér sest að fái tækifæri til þess að læra tungumálið, enda er slíkt lykill að virkri þátttöku þess,“ segir Lilja Alfreðsdóttir. „Jón Sigurðsson lagði á 19. öldinni áherslu á að lagasetning á Íslandi væri öll á íslensku. Með þetta í huga tel ég mikilvægt nú að ný tækni, hugbúnaður og stjórnkerfi sem tekið er í notkun hér á landi sé aðgengilegt á íslensku. Þetta á meðal annars við um margvíslegan hugbúnað á sviði máltækni sem er í þróun og hefur verið kynntur Íslendingum.“

Í framhaldi af Hrafnseyrarhátíð í dag opnar ráðherra á Ísafirði sýninguna Framtíðarfortíð, sem er í Safnahúsinu þar í bæ. Þetta er fyrsta sýningin í röð slíkra sem marka samvinnu Listasafns Íslands og safna á landsbyggðinni og er haldin til að fagna 80 ára lýðveldisafmæli. Valin hafa verið verk úr eigu Listasafns Íslands eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar.

„Þetta er mikilvæg sýning hvað varðar inntak og efni. Einnig tel ég þarft að höfuðsöfn Íslendinga fari með sýningar út á land, eins og hér er gert,“ segir Lilja. sbs@mbl.is