Eitruð lítil pilla Jóhanna Vigdís brilleraði í krefjandi hlutverki.
Eitruð lítil pilla Jóhanna Vigdís brilleraði í krefjandi hlutverki. — Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýliðið leikár bauð eins og oft áður upp á töluverða breidd í verkefnavali. Gerðar voru tilraunir með form og innihald, ný íslensk verk voru sem fyrr áberandi og ólíkir söngleikir í boði, en mest bar þó á minni sýningum og einleikjum

AF LEIKLIST

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Nýliðið leikár bauð eins og oft áður upp á töluverða breidd í verkefnavali. Gerðar voru tilraunir með form og innihald, ný íslensk verk voru sem fyrr áberandi og ólíkir söngleikir í boði, en mest bar þó á minni sýningum og einleikjum. Á tímabilinu frá miðjum júní 2023 til maíloka 2024 rýndu leiklistargagnrýnendur Morgunblaðsins í 34 nýjar leiksýningar, þar af fimm barna- og fjölskyldusýningar. Það er tveimur leiksýningum færri en voru til skoðunar leikárið 2022–2023. Þess má geta að 43 leiksýningar voru lagðar fram til Grímunnar, Íslensku sviðslistaverðlaunanna 2024, (þar af tíu barnasýningar) samanborið við 39 sýningar á þarsíðasta leikári, en þá voru óvenjufáar barnasýningar.

Sé rýnt í tölfræðina má sjá að 71% þeirra verka, sem rýnt var í á nýliðnu leikári, var íslensk verk eða 24 talsins. Ný verk voru 21 og þar af voru sex leikgerðir. Þetta er næsthæsta hlutfall íslenskra verka á þeim rúma áratug sem undirrituð hefur tekið þessar tölur saman með markvissum hætti fyrir Morgunblaðið. Hæst fór hlutfallið leikárið 2020–2021, eða í 77%, en lægst leikárið 2022–2023, eða í rétt rúm 55%, en meðaltalið frá 2013 til 2024 hefur verið í kringum 65%.

Sé litið á erlendu leikritin á nýliðnu leikári, sem skrifuð voru á ensku, þýsku, dönsku og rússnesku, má sjá að sjö þeirra voru samin á síðustu átta árum, eitt var skrifað á tíunda áratug síðustu aldar, annað á fjórða áratug síðustu aldar og eitt rétt skömmu eftir aldamótin 1900. Leikhúsin voru því greinilega að horfa nær sér í tíma en oft áður, en aldur segir ekki allt því elsta verkið á efnisskránni kallaðist sterklega á við samtímann.

Sýndu 67% íslenskra verka

Sem fyrr er gróskan í íslenskri leikritun mest áberandi hjá sjálfstæðu senunni, sem frumsýndi 16 af 24 íslenskum verkum leikársins, sem gerir um 67%. Þess ber að vanda að geta að í reynd voru íslensku verkin örlítið fleiri, því hér er aðeins miðað við þær sýningar sem gagnrýndar voru í Morgunblaðinu. Ef samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Þjóðleikhússins eru talin með sýndu þau hvort um sig rúm 33% og 17% íslenskra verka leikársins, en hlutfallið lækkar í 17% og 12,5% ef samstarfsverkefnin eru ekki talin með.

Þegar uppfærslur leikársins eru skoðaðar með kynjagleraugum má sjá að hlutfall kvenna í hópi höfunda og leikstjóra lækkar töluvert frá fyrra leikári, ekki síst í hópi leikstjóra. Á nýliðnu leikári voru 32% sýninganna byggð á leiktextum einvörðungu eftir konur (samanborið við 36% leikárið 2022–2023) en 47% byggðust á leiktextum einvörðungu eftir karla (sem er sama hlutfall og árið áður) og 20% eftir bæði kyn (samanborið við tæp 17% leikárið 2022–2023), alls 24 höfunda (þar sem konur voru 42% og karlar 58%). Hvort heldur með eða án samstarfsverkefna var helmingur sýninga Þjóðleikhússins skrifaður af konum, en hlutur þeirra var rýrastur hjá sjálfstæðu senunni þar sem aðeins 17% verka voru eftir konur (samanborið við 52% leikárið 2022–2023).

Leikárið 2023–2024 var tæpu 41% leiksýninga leikstýrt af konum, en til samanburðar var hlutfallið 64% leikárið 2022–2023; 56% leikárið 2021–2022 og 71% leikárið 2020–2021. Án samstarfsverkefna er skiptingin 50/50 í Þjóðleikhúsinu, en fer í 62,5/37,5 körlum í vil án samstarfsverkefna, meðan hún er um 55/45 körlum í vil í Borgarleikhúsinu séu samstarfsverkefni talin með en fer í um 57/43 konum í vil án samstarfsverkefna. Mestu munar um að karlar eru mun fleiri í hópi leikstjóra hjá sjálfstæðu senunni eða 56% leikárið 2023–2024 samanborið við 24% leikárið 2022–2023.

Metnaðarfullar barnasýningar

Leikárið hófst á því að Leikhópurinn Lotta dustaði rykið af hinni stórskemmtilegu Gilitrutt eftir Önnu Bergljótu Thorarensen í leikstjórn Ágústu Skúladóttur tíu árum eftir að verkið var fyrst sett upp. Nýverið frumsýndi hópurinn síðan Bangsímon eftir Önnu Bergljótu í leikstjórn höfundar, sem verður spennandi að sjá, en um er ræða fyrsta nýja verk hópsins eftir fjögurra ára hlé vegna covid.

Stóru leikhúsin tvö í höfuðborginni buðu upp á sinn hvorn fjölskyldusöngleikinn. Börnin voru í forgrunni í Borgarleikhúsinu í Fíasól gefst aldrei upp í góðri leikstjórn Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur sem byggist á ástsælum bókum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur þar sem titilpersónan er orku- og gleðisprengja. Í Þjóðleikhúsinu fékk töfrandi sykursæt og tímalaus saga af systrakærleik og vináttu að blómstra í Frosti eftir Jennifer Lee í vandaðri leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar þar sem Vala Kristín Eiríksdóttir heillaði áhorfendur upp úr skónum sem Anna. Gríman fyrir barnasýningu ársins féll í hlut söngleiksins Hollvætta á heiði eftir Þór Tulinius í leikstjórn Ágústu Skúladóttur sem leikhópurinn Svipir sýndi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum af miklum metnaði og þrótti. Var þetta fimmta leiksýningin í leikstjórn Ágústu sem valin er barnasýning ársins sem hlýtur að teljast met í þessum flokki.

Sé horft til þeirra sýninga leikársins sem, ásamt fyrrnefndum uppfærslum, standa upp úr á liðnu leikári verður að segjast að þar kemur sjálfstæða senan sterkt inn. Þar má nefna Sund eftir Birni Jón Sigurðsson í samstarfi við leikhópinn og í leikstjórn Birnis í Tjarnarbíói þar sem sundmenning landans var skoðuð með spaugilegum og sjónrænt flottum hætti. Í Kornhlöðunni sýndi leikhópurinn Díó Piparfólkið eftir Aðalbjörgu Þóru Árnadóttur, Ylfu Ösp Áskelsdóttur og Guðna Eyjólfsson í leikstjórn Aðalbjargar og Ylfu þar sem sögulegt grúsk var borið á borð með sjarmerandi hætti.

Heimildarsýningin Stroke eftir Virginiu Gillard og Trigger Warning í leikstjórn Andreu Elínar Vilhjálmsdóttur og Köru Hergils bauð upp á mikilvæga innsýn í lífið eftir heilablæðingu þar sem Virginia deildi sinni sárustu lífsreynslu með hjálp trúðleiksins. Töframáttur húmorsins var einnig alltumlykjandi í heimildarsýningunni Fúsi – aldur og fyrri störf eftir Agnar Jón Egilsson og Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson í gjöfulli leikstjórn Agnars Jóns sem Monochrome setti upp í samstarfi við Borgarleikhúsið og List án landamæra. Þar deildi Fúsi lífshlaupi sínu á einlægan og hlýjan hátt. Til að leikhúsið geti verið í sterku samtali við samfélagið þarf það að endurspegla fjölbreytileika þess og því ber að fagna þeirri auknu áherslu á inngildingu sem farin er að sjást á fjölunum.

Endastöðvar lífsins og heilabilun á efri árum var til skoðunar í hinni undurfallegu sýningu Með Guð í vasanum eftir Maríu Reyndal í frábærri leikstjórn höfundar sem sýnd var í Borgarleikhúsinu. Þar skein Katla Margrét Þorgeirsdóttir skært í dramatískasta hlutverkinu sem undirrituð hefur séð hana takast á við. Jóhanna Vigdís Arnardóttir brilleraði í krefjandi hlutverki í söngleiknum Eitruð lítil pilla eftir Diablo Cody í snjallri leikstjórn Álfrúnar Helgu Örnólfsdóttur í Borgarleikhúsinu og er vonandi snúin aftur á leiksviðið til lengri tíma.

Eftirtektarverðir einleikir

Einleikir voru áberandi á leikárinu og meðal þess besta sem boðið var upp á í ár. Fyrstan ber þar að nefna uppfærslu Þjóðleikhússins á Saknaðarilmi þar sem Unnur Ösp Stefánsdóttir fór á kostum í töfrandi efnivið Elísabetar Jökulsdóttur í leikgerð Unnar og góðri leikstjórn Björns Thors. Í Orði gegn orði eftir Suzie Miller í vandaðri leikstjórn Þóru Karítasar Árnadóttur í Þjóðleikhúsinu sýndi Ebba Katrín Finnsdóttir fimi sína sem ein eftirtektarverðasta leikkona sinnar kynslóðar í mikilvægu verki um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess.

Gaman var að sjá þá miklu breidd í umfjöllunarefnum sem í einleikjunum birtust. Í Félagsskapur með sjálfum mér eftir Gunnar Smára Jóhannesson í fallegri leikstjórn Tómasar Helga Baldurssonar í Tjarnarbíói var á tragikómískan hátt unnið með áföll, sorg og félagskvíða. Einnig verður að minnast á einnar konu uppistandssýninguna Á rauðu ljósi í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem Kristín Þóra Haraldsdóttir deildi reynslu sinni af taugaáfalli, dugnaði og stressi með sprúðlandi skemmtilegum hætti.

Vandinn við að vera manneskja var einnig yfir og allt um kring í frábærum Kirsuberjagarði Antons Tsjekhov sem útskriftarhópur leikaranema Listaháskóla Íslands sýndi í Kassa Þjóðleikhússins í framúrskarandi leikstjórn Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, en ljóst má vera að hér er mikill hæfileikahópur á ferð sem gaman verður að fylgjast með á fjölunum í framtíðinni.

Þó undirrituð hafi á þessum vettvangi frá 2013 einvörðungu beint sjónum sínum að leiksýningum hvers leikárs og unnið alla tölfræði út frá þeim, er ekki úr vegi að nefna að þessu sinni sérstaklega tvær framúrskarandi óperusýningar sem vöktu verðskuldaða athygli á starfsárinu. Annars vegar er það bráðskemmtileg uppfærsla sviðslistahópsins Óðs á frönsku gamanóperunni Póst-Jóni eftir Adolphe Adam í góðri leikstjórn Tómasar Helga Baldurssonar í Þjóðleikhúskjallaranum. Í þessari þriðju uppfærslu hópsins frá 2021 sýndi hann enn og aftur hversu miklu skiptir að syngja óperur á íslensku til að gera þær aðgengilegri fyrir almenning. Óperan hundrað þúsund eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur við texta Kristínar Eiríksdóttur í hugvitsamlegri leikstjórn Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur í Kassa Þjóðleikhússins reyndist óvæntur gullmoli vorsins með veislu fyrir jafnt eyru og augu þar sem Herdís Anna Jónasdóttir geislaði í þremur ólíkum hlutverkum með bravúr.

Höf.: Silja Björk Huldudóttir