Landvarðafélag Íslands veitti nú um helgina Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, viðurkenningu sína sem er Gyllta stikan. Sú var nú veitt í fyrsta sinn og er ætluð því fólki sem hefur átt einstakt framlag á sviði náttúruverndar,…

Landvarðafélag Íslands veitti nú um helgina Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, viðurkenningu sína sem er Gyllta stikan. Sú var nú veitt í fyrsta sinn og er ætluð því fólki sem hefur átt einstakt framlag á sviði náttúruverndar, landvörslu eða sinnt óeigingjörnu starfi í þágu landvörslu.

Mat Landvarðafélags Íslands er að Vigdís Finnbogadóttir hafi lagt gildum félagsins ómetanlegt lið í gegnum tíðan. Er þar nefndur stuðningur hennar við landgræðslu, skógrækt og náttúruvernd. Einnig hafi hún talað fyrir því að æskan kynnist náttúruvernd og fái að kynnast landinu. Vigdís telji að þar með læri fólk að umgangast náttúruna af virðingu og ábyrgð. Þá má geta þess að Vigdís var fyrr á árum leiðsögumaður erlendra ferðamanna sem komu til Íslands og ein af frumkvöðlum á því sviði.

Eitt af störfum landvarða á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðurm er að merkja gönguleiðir með máluðum viðarstikum. Það þótti því við hæfi að kalla viðurkenninguna Gylltu stikuna sem er úr lerki úr Fljótsdalnum. „Gylltu stikurnar munu stika andlega gönguleið og störf handhafa stikunnar í þágu náttúruverndar verða okkur til fyrirmyndar og hvatningar,“ segja landverðir. sbs@mbl.is