Umskipti Viðskiptavinur skoðar flíkur í Kaliforníu. Ný tegund kröftugra megrunarlyfja virðist farin að hafa áhrif á bandaríska tískugeirann.
Umskipti Viðskiptavinur skoðar flíkur í Kaliforníu. Ný tegund kröftugra megrunarlyfja virðist farin að hafa áhrif á bandaríska tískugeirann. — AFP/Justin Sullivan
Bandarísk tískufyrirtæki hafa orðið vör við vaxandi áhuga neytenda á fatnaði í smærri stærðum og þá virðast kaupendur þar í landi einnig meira reiðubúnir en áður að velja snið sem eru þröng og hylja minna af líkamanum

Bandarísk tískufyrirtæki hafa orðið vör við vaxandi áhuga neytenda á fatnaði í smærri stærðum og þá virðast kaupendur þar í landi einnig meira reiðubúnir en áður að velja snið sem eru þröng og hylja minna af líkamanum. Á sama tíma segja margir framleiðendur að eftirspurn eftir flíkum í stærstu stærðunum hafi dregist mikið saman og telja þeir líklegast að rekja megi þessa þróun til vinsælda megrunarlyfja á borð við Ozempic.

Wall Street Journal birti á sunnudag umfjöllun um þessa breytingu á markaðinum og vitnar þar í stjórnanda tískuverslanakeðju sem áætlar að 5% viðskiptavina fyrirtækisins séu nú í leit að nýjum flíkum eftir að hafa náð að létta sig. Svipaða sögu er að segja af fyrirtæki sem leigir út hátískufatnað en þar hefur eftirspurn eftir smærri stærðum aldrei verið meiri og einnig merkjanlegt að viðskiptavinir eru minna feimnir við djörf snið. Er þetta viðsnúningur frá þeirri þróun sem einkenndi fyrstu árin eftir kórónuveirufaraldurinn þegar sala á stærstu stærðum jókst jafnt og þétt.

Nýleg greining á sölutölum vinsælla tískumerkja vestanhafs leiddi í ljós að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs varð 10,9% samdráttur í sölu þriggja stærstu stærðanna af hnepptum skyrtum fyrir konur borið saman við sama tímabil árið 2022, en samhliða því jókst sala þriggja minnstu stærðanna um 12,1%.

Áætlað er að um það bil 6% Bandaríkjamanna, samtals um 15,5 milljónir manna, hafi notað Ozempic eða önnur sambærileg sprautulyf sem eiga að hjálpa fólki að grennast. Af þessari 330 milljóna manna þjóð eru 30% í ofþyngd og 42% glíma við offitu. ai@mbl.is