NM Ísold er Norðurlandameistari í sjöþraut stúlkna U18 ára.
NM Ísold er Norðurlandameistari í sjöþraut stúlkna U18 ára. — Morgunblaðið/Óttar
Ísold Sævarsdóttir úr FH tryggði sér í gær Norðurlandameistaratitilinn í sjöþraut stúlkna 18 ára og yngri er hún vann sér inn flest stig á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum á ÍR-velli. Mótið fór fram um helgina og vann Ísold sér inn samanlagt 5.583 stig, sem dugði til sigurs

Ísold Sævarsdóttir úr FH tryggði sér í gær Norðurlandameistaratitilinn í sjöþraut stúlkna 18 ára og yngri er hún vann sér inn flest stig á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum á ÍR-velli.

Mótið fór fram um helgina og vann Ísold sér inn samanlagt 5.583 stig, sem dugði til sigurs.

Var hún eini Íslendingurinn sem komst á verðlaunapall en Ísold var í öðru sæti í sjöþraut stúlkna U18 ára eftir fyrri keppnisdaginn á laugardag.

Brynja Rós Brynjarsdóttir úr ÍR varð í sjöunda sæti í sjöþraut stúlkna U20 ára. Hún hlaut 4.720 stig. Er það persónuleg bæting hjá Brynju Rós.

María Helga Högnadóttir úr FH varð þá áttunda í sjöþraut stúlkna U20 ára og hlaut 4.687 stig.

Maríu Helgu gekk ekki jafn vel á öðrum keppnisdeginum í gær en hún var í öðru sæti í sjöþrautinni í sínum aldursflokki að fyrri keppnisdegi á laugardag loknum.

Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki tók sömuleiðis þátt í sjöþraut stúlkna U20 ára og hafnaði í níunda sæti. Hlaut hún alls 4.642 stig.

Thomas Ari Arnarsson úr Ármanni var fjórði í tugþraut pilta U18 ára og hlaut alls 6.331 stig.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson úr HSK/Selfossi tók sömuleiðis þátt í tugþraut pilta U18 ára. Hann hafnaði í fimmta sæti og hlaut 6.161 stig.

Birnir Vagn Finnsson úr UFA og Ísak Óli Traustason úr UMSS neyddust báðir til að draga sig úr keppni í tugþraut karla vegna meiðsla. gunnaregill@mbl.is