Jón Sigurgeirsson
Jón Sigurgeirsson
Maður skráir á einum vef og upplýsingarnar safnast fyrir á öðrum og engin bein tengsl á milli.

Jón Sigurgeirsson

Ég hef unnið flesta daga í tölvu seinustu 40 árin og tel mig sæmilega hafa fylgst með þróuninni. Það eru margir á mínum aldri sem hafa minni reynslu og getu til að glíma við þessi tæki sem eiga að auðvelda fólkið lífið en ekki úrelda gamalmenni. Ég á rafmagnsbíl og skrái kílómetrastöðuna mánaðarlega til að forðast að það safnist fyrir inneign eða skuld. Kerfið er eins ónotendavænt og hugsast getur. Maður skráir á einum vef og upplýsingarnar safnast fyrir á öðrum og engin bein tengsl á milli. Í stað þess að birta greinargóðar upplýsingar um hvar maður á að skrá, hvar maður getur fylgst með gjaldtökunni og hvar maður kvartar yfir röngum útreikningum með krækjum á rétta staði er notandinn látinn leita tvist og bast um veraldarvefinn þótt slíkt skjal megi skrifa á klukkustund. Þetta er þrátt fyrir þá reglu stjórnsýslulaga að stjórnvald eigi að vísa mönnum rétta leið. Krækja á slíka síðu ætti að vera bæði á Ísland.is og hjá skattinum undir heitinu „Allt um kílómetragjald“. Þá þarf að gera krækjurnar sæmilega áberandi fyrir eldra fólk.

Eftir jarðarför maka vinar míns ætlaði ég að aðstoða hann við að sækja um búsetuleyfi sem á að vera auðvelt með krækju hjá sýslumanni. Við völdum krækju sem sagði að hún væri á eyðublað fyrir beiðnina. Svar kerfisins var að engin beiðni hefði fundist. Það var skiljanlegt því við ætluðum að fara að skrá hana. Við leituðum lengi að krækju til að frumskrá slíka beiðni án árangurs. Við hringdum í sýslumann og spurðum hvar krækjan væri. Okkur var bent á þá krækju sem við höfðum notað. Þegar við sögðum hvert hún leiddi þá var sagt að það þyrfti að tilkynna andlátið fyrst. Það hefði nú verið hægt að koma með slíka athugasemd þegar við völdum krækjuna í stað þess að senda okkur út og suður til að leita að þeirri réttu. Þar að auki höfðum við tilkynnt andlátið fyrir jarðarförina eins og lög gera ráð fyrir „Nú!“ Smá bið. „Já, það er rétt, þetta á að vera komið í lag núna.“ Við lögðum á og reyndum. Þá kom önnur athugasemd og við hringdum aftur. „Ha!“ „Ég verð að tala við tæknimann.“ Forritunin var í graut út af skráningu í einfalt pdf-form. Af hverju geta menn svo ekki fyllt út formið fyrr en andlát hefur verið tilkynnt? Ég sé aðeins tvær mögulegar skýringar á því. Annaðhvort vilja menn gera almenningi erfitt fyrir eða eru sjálfir ekki með nægilegt á milli eyrnanna (nema e.t.v. að hvort tveggja sé).

Þegar svo að lokum öllu hafði verið kippt í liðinn hélt maður að hægt væri að senda beiðnina inn rafrænt. Undirskriftir má staðfesta með rafrænum skilríkjum. Nei, það á ekki að gera mönnum þetta auðvelt. Það verður að fara til sýslumanns með pappírinn undirritaðan, berjast í gegnum umferðaröngþveitið og reyna að finna tíma dagsins þegar þröng bílastæði eru ekki öll upptekin eða eyða lunganum úr deginum í strætó. Svo geta embættismennirnir sagt að það sé allt of mikið að gera hjá þeim og heimtað meiri pening og fleira starfsfólk til að svara ráðvilltum almenningi sem ratar ekki um allar tilbúnu flækjurnar á einföldum hlut. Það er líklega af svipuðum ástæðum sem löng bið er eftir að fá skjali þinglýst, nokkuð sem við gátum afgreitt daginn eftir áður en tölvurnar komu til hjálpar.

Þetta er allt í samræmi við lögmál Parkinsons sem rannsakaði útþenslu kerfisins. Það er lifandi bókstafur nú á 21. öldinni hvað sem allri tækni líður. Ég spyr aftur: „Er rafrænt Ísland grautur?“

Höfundur er aldraður lögfræðingur.

Höf.: Jón Sigurgeirsson