St. Pauli Maðurinn lét til skarar skríða við Reeperbahn í St. Pauli.
St. Pauli Maðurinn lét til skarar skríða við Reeperbahn í St. Pauli. — AFP/Steven Hutchings
Lögreglumenn á götuvakt í Hamborg í Þýskalandi sáu sitt óvænna í gær þegar maður réðst að þeim vopnaður öxi skammt frá upphitunarsvæði stuðningsmanna hollenska landsliðsins í knattspyrnu sem þar drukku í sig andagift fyrir viðureign liðsins við Pólland

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Lögreglumenn á götuvakt í Hamborg í Þýskalandi sáu sitt óvænna í gær þegar maður réðst að þeim vopnaður öxi skammt frá upphitunarsvæði stuðningsmanna hollenska landsliðsins í knattspyrnu sem þar drukku í sig andagift fyrir viðureign liðsins við Pólland.

Greinir lögregla frá því í yfirlýsingu sinni að axarmaðurinn hafi haft í hótunum við lögreglumennina, reitt öxi sína til höggs samtímis því sem hann gerði tilraun til að bera eld að bensínsprengju sem hann bar.

Er lögreglumönnunum þótti sýnt að engu tauti yrði við uppivöðslusegginn komið beittu þeir varnarúða og brugðu að lokum á það ráð að draga upp skotvopn sín og skjóta hann með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarlega áverka en er ekki í lífshættu. Veittu lögregluþjónarnir honum fyrstu hjálp áður en honum var komið undir læknishendur.

„Við göngum út frá því að hér sé um einangrað atvik að ræða sem ekki tengist knattspyrnunni,“ sagði Sandra Levgruen, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Hamborg, við fjölmiðla í gær, en Evrópumót karla í knattspyrnu stendur nú sem hæst í álfunni.

Myndskeið, er athygli vakti á samfélagsmiðlum, sýndi berserkinn sveifla öxinni með ógnandi hætti fyrir framan lögregluna skömmu áður en nokkrir skothvellir glumdu. Er Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi hafði lögregla hvorki nafngreint manninn né haft uppi kenningar um hvað honum gekk til með háttsemi sinni.

Atburðurinn átti sér stað við götuna Reeperbahn, lífæð hins alræmda næturlífshverfis St. Pauli í Hamborg.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson