Bjartsýni Fylgst með stöðunni á kauphallargólfinu í New York síðastliðinn föstudag. Uppgangurinn á bandarískum hlutabréfamarkaði hefur m.a. verið drifinn áfram af miklum áhuga fjárfesta á öllu sem tengist gervigreind.
Bjartsýni Fylgst með stöðunni á kauphallargólfinu í New York síðastliðinn föstudag. Uppgangurinn á bandarískum hlutabréfamarkaði hefur m.a. verið drifinn áfram af miklum áhuga fjárfesta á öllu sem tengist gervigreind. — AFP/Spencer Platt
Nasdaq-vísitalan sló nýtt met við lokun markaða vestanhafs á föstudag og mældist 17.688 stig en það var fimmta skiptið í röð sem vísitalan hækkaði á milli daga. Nasdaq-vísitalan hefur verið á hraðri uppleið síðan í ársbyrjun 2023, þegar hún mældist…

Nasdaq-vísitalan sló nýtt met við lokun markaða vestanhafs á föstudag og mældist 17.688 stig en það var fimmta skiptið í röð sem vísitalan hækkaði á milli daga. Nasdaq-vísitalan hefur verið á hraðri uppleið síðan í ársbyrjun 2023, þegar hún mældist í kringum 10.500 stig, og hefur styrkingin haldist í hendur við hækkun hlutabréfaverðs bandarískra tæknirisa. Var hækkunin á föstudag ekki síst að þakka þróun hlutabréfaverðs Adobe sem tók 14,5% kipp eftir að félagið hækkaði hagnaðarspá sína fyrir árið, þökk sé aukinni eftirspurn eftir gervigreindardrifnum hugbúnaði tæknirisans.

S&P 500-vísitalan er líka í hæstu hæðum og styrktist alla síðustu viku þar til á föstudag að hún veiktist lítillega. Nam vikuhækkunin þó rúmlega 1%. Hefur S&P 500 hækkað um rösklega 14,5% á árinu en Nasdaq-vísitalan styrkst um 19,8%. Vöxtur Dow Jones-vísitölunnar hefur verið hægari og sveiflukenndari og hefur sú vísitala aðeins hækkað um 2,3% frá áramótum en hefur aftur á móti styrkst um 12,5% undanfarna tólf mánuði.

Neytendur varkárir

Virðist það ekki hafa komið að sök að nýleg könnun leiddi í ljós að bandaríska væntingavísitalan er með lægsta móti og var lægri í júní en greinendur höfðu spáð. Mældist vísitalan 65,6 stig þar sem 100 stig eru hæsta mögulega gildi, en greinendur höfðu gert ráð fyrir 72 stigum.

Greinendur eru ekki á einu máli um hvort bandaríski hlutabréfamarkaðurinn muni halda áfram á sömu braut, en óvenjulítið hefur verið um sveiflur í verði og virðast fjárfestar almennt bjartsýnir enda verðbólga á niðurleið, hagnaðartölur úr atvinnulífinu á uppleið og von er á að seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti a.m.k. einu sinni áður en árið er á enda. ai@mbl.is