Í Stjórnarráðinu Bjarni Benediktsson segir hátíðahöldin ná hápunkti í dag venju samkvæmt.
Í Stjórnarráðinu Bjarni Benediktsson segir hátíðahöldin ná hápunkti í dag venju samkvæmt. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is „Ég vil ávallt gera þessum tímamótum okkar Íslendinga hátt undir höfði hvort sem það er fullveldisafmæli eða lýðveldishátíð eins og núna þegar lýðveldið á 80 ára afmæli. Mér finnst mikilvægt að við höldum með myndarlegum hætti upp á þessa merkilegustu áfanga í sögu þjóðarinnar,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Ég vil ávallt gera þessum tímamótum okkar Íslendinga hátt undir höfði hvort sem það er fullveldisafmæli eða lýðveldishátíð eins og núna þegar lýðveldið á 80 ára afmæli. Mér finnst mikilvægt að við höldum með myndarlegum hætti upp á þessa merkilegustu áfanga í sögu þjóðarinnar,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

„Ég hef alla tíð haldið upp á 17. júní og ég geri ráð fyrir að það eigi við um alla Íslendinga. Við eigum að gera okkur sérstakan dagamun þegar afmælishátíð ber að garði. Á 80 ára afmælinu er ástæða til að horfa með þakklæti til þeirra sem börðust fyrir fullveldinu og stóðu að stofnun lýðveldisins. Við eigum líka að nota þessi tímamót til að minna okkur á hversu stóran þátt þessar ákvarðanir áttu í þeirri velsæld sem við njótum í dag. Á tiltölulega fáum árum erum við komin í hóp þeirra þjóða sem mestrar velmegunar njóta í heiminum. Nokkuð sem var útilokað að gera sér í hugarlund árið 1944 og nánast ekki hægt að vera með slíkar væntingar á þeim tíma. Ég tel að fullveldið og stofnun lýðveldisins séu algerir grundvallarþættir í þessu enda fólst í því frelsi til að ráða okkar málum á okkar forsendum. Er það grunnurinn að þeirri lífskjarasókn sem staðið hefur yfir síðan.“

Bók um Fjallkonuna dreift

Ýmislegt verður um að vera í dag eins og gjarnan á þjóðhátíðardaginn. Kostnaður vegna 80 ára afmælisins er 60 milljónir eins og gert var ráð fyrir. Þar er annars vegar um að ræða hátíðahöldin og hins vegar bókaútgáfuna.

„Mér finnst því ástæða til að halda myndarlega upp á 80 ára afmælið. Boðið er upp á nokkuð fjölbreytta dagskrá og segja má að hún sé þegar hafin. Um síðustu helgi vorum við í fjallgöngu með Fjallakórnum og fleiri slíkar göngur verða farnar. Við erum að virkja kórana til að koma saman en erum einnig að vekja athygli á þeim tækifærum til útivistar sem landið hefur upp á að bjóða. Dagskráin inniheldur röð viðburða þar sem 17. júní er hápunkturinn. Þar má nefna útgáfu bókarinnar um Fjallkonuna sem mér þykir hafa tekist mjög vel. Auk þess verður sýning á Þjóðminjasafninu, hátíð á Hrafnseyri við Arnarfjörð og hátíðardagskrá á Þingvöllum. Við ætlum að lyfta okkur upp og hugsa með hlýhug til þeirra sem lögðu grunn að þeirri sókn sem við höfum verið í síðan,“ segir Bjarni og er þeirrar skoðunar að Íslendingum hafi að mestu leyti tekist afskaplega vel upp sem fullvalda þjóð.

„Á tímamótum sem þessum getum við tekið stöðu okkar í samfélagi þjóðanna til umræðu. Við gerum okkur flest grein fyrir því að í öllum meginatriðum hefur okkur Íslendingum tekist stórkostlega vel upp á þessum 80 árum sem sjálfstæð fullvalda þjóð þótt verkefnin séu óþrjótandi og við viljum gera ennþá betur.“

Nýr veruleiki

Þegar staða Íslands í alþjóðakerfinu er skoðuð er þá eitthvað sem Ísland þarf að gæta sín á?

„Tvímælalaust. Á síðustu tveimur áratugum höfum við séð mjög mikla breytingu í heiminum og algera kúvendingu í stöðumati í varnar- og öryggismálum í okkar heimshluta. Frá því við sáum brotthvarf Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli yfir í innlimun Krímskaga í Rússland og síðar innrás í Úkraínu. Það hefur leitt til þess að algert endurmat hefur farið fram á öryggis- og varnarmálum um alla Evrópu. Við þurfum að vera meðvituð um að það geisar stríð í okkar heimshluta,“ segir Bjarni og nefnir einnig hraðar tæknibreytingar.

„Tæknibyltingin þróast mjög hratt og það verður áskorun fyrir stjórnvöld hvarvetna að hámarka tækifærin sem liggja í tæknibyltingunni en lágmarka um leið skaðann sem getur fylgt hryðjuverkaógnum, netárásum, falsfréttum og öðru slíku. Þetta er hinn nýi veruleiki sem við erum til dæmis að fást við í þjóðaröryggisráðinu. Við reynum að vera meðvituð og eiga gott samstarf við aðrar þjóðir en sinna líka okkar skyldu til að byggja upp varnir gegn slíkum ógnunum á okkar eigin forsendum. Ógnir sem þessar eru eins og nýr málaflokkur og við erum enn að læra að fást við þær ógnir.“

Nýr umræðuvettvangur

Bjarni segir vert að velta fyrir sér hvernig gangi að framkvæma lýðræðið sem sé eitt af grundvallaratriðum hjá ríkjum sem vegnar vel.

„Ef maður kafar aðeins dýpra þá er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig okkur gengur að framkvæma lýðræðið. Í okkar heimshluta eru nokkrir lykilþættir sem einkenna þau ríki þar sem velsæld er mest í heiminum. Það eru sterk lýðræðisríki, ríki þar sem friður ríkir, ríki þar sem mannréttindi eru virt og almennt er byggt á frjálsum opnum markaðshagkerfum. Þessir grundvallarþættir friður, öryggi, mannréttindi, sterk lýðræðishefð og opið markaðshagkerfi eru allt annað en sjálfsagðir í heiminum í dag. Líta má þannig á að árás Rússlands inn í Úkraínu sé bein árás á gildin því þetta er árás á fullvalda ríki í okkar heimshluta, á alþjóðalög og á landamæri. Þetta eru alvarlegir hlutir,“ segir Bjarni og bendir á að samskipti fólks hafi einnig tekið breytingum.

„Samfélagsmiðlarnir hafa talsverð áhrif á samtal okkar því þar hefst oft á tíðum umræða sem áður hófst á heimilum, vinnustöðunum, kaffistofunum, menningarviðburðum, íþróttaviðburðum, í fjölskylduboðum og heitu pottunum. Ekki er óalgengt að á þessum stöðum sé í dag rætt um það sem fram kemur á samfélagsmiðlum.“

Minna rými fyrir dýpra samtal

Bjarni segir kollega sína hjá nágrannaþjóðunum hafa áhyggjur af því að minna rými sé fyrir dýpri skoðanaskipti í stjórnmálaumræðu.

„Nú er nýr vettvangur til að hafa skoðanaskipti og við verðum að veita því athygli að það hefur breyst hvernig við tölum saman. Hafa áhrifin af þessu á framkvæmd lýðræðisins verið rannsökuð nokkuð erlendis og nokkrir þættir eru áberandi. Fleiri láta sig málin varða oftar og má túlka það sem jákvæða þróun. Því má halda fram að fleiri sæki upplýsingar en áður var og það getur verið jákvætt svo lengi sem upplýsingarnar eru áreiðanlegar sem aðgengilegar eru. Hins vegar virðist aukin útbreiðsla samfélagsmiðla leiða til aukinnar skautunar í löndunum sem við berum okkur saman við. Það er visst áhyggjuefni þegar svo virðist sem minna rými sé fyrir dýpra samtal. Það er nokkuð sem ég heyri frá kollegum mínum á öllum Norðurlöndunum. Þeir hafa áhyggjur af þessu og það ber á góma bæði í formlegum og óformlegum samtölum. Einnig hefur dregið úr trausti á stofnunum ríkisins og við þurfum að vera meðvituð um þetta. Þetta á ekki við alls staðar í heiminum en á við í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem lýðræðishefðin er sterk, en síður þar sem lýðræðið er veikara.“

Höf.: Kristján Jónsson