Áttatíu ára lýðveldisafmæli

Íslenska þjóðin fagnar stolt og glöð 80 ára lýðveldisafmæli sínu í dag. Það má lengi deila um það, ef menn endilega vilja, hvaða dagur sé stærstur í sögu þessarar fámennu þjóðar.

Horfa má til kristnitökunnar árið eitt þúsund. Þá komu menn víða að og hefði átt að vera uppskrift að uppnámi og illindum. En vitrir menn og um flest velviljaðir héldu svo vel utan um hin viðkvæmu mál, að flestir menn sem komu þykkjuþungir til funda á Þingvöllum fóru sáttir heim og þjóðin fylgdi þeim.

Stór hluti þessarar sögu er þó líkari kraftaverki en nokkru öðru fyrirbæri. Horfa má til fyrstu tíðar landnáms, sem er bærilega skráð, jafnvel svo að einsdæmi er, og næstu hundraða ára sem á eftir fóru.

Enn lesa Íslendingar þessar frásagnir í bland við Íslendingasögur og enginn sanngjarn maður getur efast um þær eða sannleiksgildi þeirra, eftir því sem nokkur eðlilegur kostur er á, og í versta falli geta þeir haldið því fram að sumir fjölmiðlar nútímans, ekki síst þeir sem sagt er að hafi mestar skyldur og mulið er undir með ógrynni fjár, megi þykjast góðir, ef frásagnir þeirra og meint sannindi standa betur með sannleikanum, þótt hann eigi helst að endast aðeins sólarhringinn, á meðan efni „samkeppnisaðilans“ í þessum samanburði eigi að endast í hundruð ára á skinnbók.

Síðari tíma menn héldu ekki verr á sínum málum fyrir 120 til 130 árum, þegar þeir sigldu heimastjórn í höfn, svo ekki sé talað um Jón Sigurðsson sjálfan, þegar eldurinn brann heitast á honum, nokkrum áratugum fyrr í Kaupmannahöfn.

Hér áður var eftirfarandi sagt af sama tilefni: „Sjálfsagt erum við Íslendingar heldur ónýtir í persónudýrkun, ef frá er talin ósvikin aðdáun á einstökum persónum Íslendingasagna og á örfáum skáldum. Af síðari tíma mönnum höfum við þó helst haft trú á Jóni Sigurðssyni forseta. Þó er mynd hans ekki reist til að auðvelda okkur landsmönnum að vegsama afrek hans eða dýrka persónuna. Nær er að ætla að svipmynd hans sé látin vaka yfir hjarta höfuðborgarinnar, okkur öllum til eilífrar áminningar um skyldur við land og þjóð. Barátta hans og leiðsögn, þrautseigja hans og þolgæði, eiga að minna okkur á, að ekkert er sjálfgefið eða fæst fyrirhafnarlaust, síst af öllu frelsi og sjálfstæði fámennrar þjóðar. Ef þjóðin sofnar á verðinum „verða hugsjónirnar fyrir vonbrigðum“ svo að notað sé tungutak málarans.“

Þremur árum eftir að til lýðveldis var stofnað á Íslandi árið 1947 orti Tómas Guðmundsson skáld „Íslandsljóð“, sem birtist síðar í bók hans „Heim til þín Ísland“, ásamt allmörgum eftirminnilegum ljóðum.

Íslandsljóð

Ég heilsa þér mín þjóð! Í kveðju mína

á þessum degi leggur blessun sína

hver kynslóð, sem í gröf og gleymsku hvarf,

en gaf oss móðurjörð og tungu í arf.

Þar mætast þeir, sem ofurefli vörðust,

og allir þeir, er fyrir okkur börðust.

Hve gott að mega slíkum þakka það,

að þjóð mín, land og saga fylgdust að.

En hrynja vítt mín höf og fjöll mín blána

og himinblærinn lyftir ungum fána,

sem á að fylgja um aldur þeirri þjóð,

er þráir stærri afrek, fegri ljóð,

sem landi sínu vinnur ævi alla

og öllum stundum heyrir rödd þess kalla,

sem ást á frelsi og ættjörð knýr hvern dag

að einu marki um vilja og bræðralag.

Svo kveð ég yður kveðju árs og friðar.

Mitt konungsríki ég legg í hendur yðar,

þér tryggu þegnar. Meðal yðar enn

skal Ísland finna sína beztu menn.

Og meðan ljósið lyftir ungu blómi

og líf og æska syngur einum rómi

og vors míns birta úr ungum augum skín,

við eigum samleið, ég og þjóðin mín.