[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Sjálfstæði og fullveldi hafa skapað Íslendingum tækifæri. Hér hefur tekist að skapa samfélag mikilla lífsgæða og aðstæður sem eru eftirsóknarverðar,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, fulltrúi í sveitarstjórn Múlaþings, varaþingmaður og formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi

„Sjálfstæði og fullveldi hafa skapað Íslendingum tækifæri. Hér hefur tekist að skapa samfélag mikilla lífsgæða og aðstæður sem eru eftirsóknarverðar,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, fulltrúi í sveitarstjórn Múlaþings, varaþingmaður og formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi. „Með sjálfstæði hafa Íslendingar skapað sér sterka stöðu gagnvart öðrum þjóðum, svo sem í viðskiptum þar sem fjórfrelsið svonefnda sem nær til vöru, fólks, þjónustu og fjármagns er aðalatriðið.“

Lýðveldi og lýðræði eru tengd fyrirbæri. Nú þegar liðin eru 80 ár frá stofnun lýðveldis er mikilvægt að mati Berglindar að styrkja betur stöðu almennings til að hafa áhrif og ráða nokkru um sín mál.

„Þegar stjórnmálaflokkar voru færri höfðu fulltrúar þeirra á Alþingi ef til vill meiri áhrif til að vinna mikilvægum málum brautargengi,“ segir Berglind. „Kraftarnir nú hafa dreifst og fyrir vikið lenda mál sem samstaða ætti að vera um stundum á vegg svo ekkert gerist. Á þessu þarf að finna lausnir svo almenningur finni að hlustað sé á rödd sína og að hagsmunamálum þeirra sé sinnt. Þetta finnum við vel hér í dreifbýlinu þar sem margt er afskipt. Uppbygging í orkumálum hefur stöðvast, sem er bagalegt. Einnig þarf að breyta áherslum í útlendingamálum. Sannarlega höfum við skyldur gagnvart fólki sem hingað kemur til að leita betra lífs. Fjármunir sem í þann málaflokk fara eru miklir en ef til vill ætti að verja þeim peningum í annað, svo sem uppbyggingu innviða úti á landi sem þó nýtist landsmönnum öllum.“sbs@mbl.is

„Fyrstu 40 lýðveldisár Íslands voru einstakur tími. Framfarir voru miklar; hvarvetna framkvæmdir og félagslegar framfarir. Mér virðist þó að nú sé komið bakslag og þá verður að rétta kúrsinn af,“ segir Ari Teitsson á Hrísum í Reykjadal, fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands.

„Sjálfstæði og lýðveldi skipta okkur miklu máli. Að því fengnu í júní 1944 tókst með samtakamætti fjöldans að byggja hér upp gott þjóðfélag þar sem fólki voru búin góð lífsskilyrði, svo sem menntun, heilbrigðisþjónusta og sterkir innviðir á flestum sviðum. Þorri fólks hafði líka ágætar tekjur og gat með því og svo mörgu öðru látið drauma sína rætast. Nú hefur þetta breyst; margir í dag búa við þrengri kjör en áður og aðstöðumunur fólks er orðinn meiri en var. Hér er misskipting í veldisvexti, meðal annars vegna þess að hér fá að ríkja aðstæður og regluverk sem leiðir til þess að auðurinn safnist á færri hendur en áður,“ segir Ari.

„Ísland þarf nýja stjórnarskrá, meðal annars til þess að styrkja lýðræði. Þetta er mín skoðun eftir setu í stjórnlagaráði. Umræða þarf að vera opinská og heiðarleg: byggjast á staðreyndum og þekkingu. Þar er vandinn þó sá að vísindin, sem eiga að byggjast á þekkingu og visku, stjórnast orðið mjög af hagsmunum út og suður svo akademískt frelsi er tæplega lengur til. Ég hefði líka viljað líka sjá að umræða og athafnir á Íslandi yrðu í ríkari mæli teknar út frá skynsemi og rökum. Kreddutrú á hugmyndir er að mínu mati alltaf varhugaverð.“

„Á Íslandi má segja að hver og einn hafi meira vægi en ef til vill gerist meðal fjölmennari þjóða,“ segir Anita Elefsen, sagnfræðingur og safnstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði. „Hér er lýðræðisþjóðfélag þar sem allflestir nýta sér atkvæðisrétt sinn. Þá höfum við tækifæri til þess að lýsa hugmyndum okkar og skoðunum. Þannig getur hinn almenni borgari lagt sitt af mörkum og haft talsverð áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Í mörgu tilliti er íslenska lýðveldið í góðri stöðu nú á 80 ára afmælinu.“

Á fyrstu árum lýðveldisins skiptu síldveiðar og tekjurnar af þeim afar miklu máli fyrir íslenskt þjóðfélag. Þegar best lét um miðja 20. öldina stóð síldin undir 44% af útflutningstekjum Íslendinga. Þessi auður er stundum kallaður þjóðarkakan og um fjórðungur hennar varð til úr Siglufjarðarsíld. Þessar staðreyndir hefur Anita á hraðbergi og leggur áherslu á mikilvægi þeirra.

„Síldin er mikill örlagavaldur í sögu Íslands og ólíklegt er að velmegunarsamfélagið sem við búum við í dag hefði þróast með sama hætti, ef síldarinnar hefði ekki notið við. Íslenskur efnahagur treysti mjög á síldina um áratugaskeið. Í dag eru eggin ekki öll í sömu körfu og áhætta því dreifaðri en var. Nýsköpun hverskonar hefur gert atvinnulífið mun fjölbreyttara en áður. Ný tækni hefur sömuleiðis opnað Íslendingum ótal gáttir út um allan heim. Við búum vissulega áfram á eyjunni Íslandi, en ekki eylandi eins og forðum var. Með því hefur á Íslandi orðið til nýtt samfélag; sem er um margt mjög ólíkt því sem var 1944.“

„Ísland hefur dafnað vel á lýðveldistímanum og er í fremstu röð á mörgum sviðum. Þjóðin er vel menntuð, framleiðir úrvalsmatvæli, þjónustu og þekkingu. Íslendingar hafa alla burði til þess að skapa komandi kynslóðum góð lífsskilyrði til næstu 80 ára í lýðveldissögunni,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, sagnfræðingur og kennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Ágúst rifjar upp að í hörmungum heimsstyrjaldar hafi draumur íslensku þjóðarinnar ræst; um sjálfstæði og stofnun lýðveldis. Eftir tæplega 700 ár hafi Íslendingar endanlega orðið frjáls og fullvalda þjóð, það er eftir að konungssambandinu við Dani var formlega rift með sambandslögunum frá 1918. Íslendingar hafi þó haft fulla sjálfstjórn frá því Danmörk var hernumin af þýska hernum 9. apríl 1940 og samband landanna rofnaði. Sömu daga og lýðveldið var stofnað á Þingvöllum hafi Þjóðverjar sótt hart að Dönum og fjöldi fólks ýmist særðist eða lét lífið í átökum við hernámsliðið. „Margir Danir eru enn þeirrar skoðunar að Íslendingar hefðu mátt bíða með stofnun lýðveldis uns stríðinu lyki,“ segir Ágúst og heldur áfram:

„Nýju lýðveldi mættu strax miklar áskoranir því eftir stríð tók við kalt stríð milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Unga lýðveldið var allt í einu orðið eitt, sjálfstætt og landfræðilega milli tveggja ofurvelda. Í umróti nútímaalþjóðastjórnmála þarf að standa vörð um sjálfstæðið, svo evrópskar reglugerðir taki ekki endanlega yfir íslenska löggjöf.“