— Morgunblaðið/Björn Jóhann
Parísarhjólið, sem verið hefur í undirbúningi í nokkra mánuði, hefur verið reist á Miðbakka í Reykjavík og búist er við að það verði snúið í gang mjög bráðlega. Þó liggur ekki enn fyrir hvenær nákvæmlega hjólið verði opnað almenningi

Parísarhjólið, sem verið hefur í undirbúningi í nokkra mánuði, hefur verið reist á Miðbakka í Reykjavík og búist er við að það verði snúið í gang mjög bráðlega.

Þó liggur ekki enn fyrir hvenær nákvæmlega hjólið verði opnað almenningi.

Hjólið er tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar til eins sumars og rekur rætur sínar til hugmyndavinnu innan borgarinnar um haftengda upplifun og útivist.

Þá voru settar fram hugmyndir um hvernig mætti auka lífsgæði og bæta lýðheilsu borgarbúa í skýrslu sem var birt síðasta september.

Parísarhjólið verður 32 metra hátt, með 24 vagna og hefur verið gert til þess að þola íslenskar aðstæður, til að mynda jarðhræringar og vindálag.

Borgin auglýsti í mars eftir samstarfsaðila til að reka hjólið og bárust fjórar umsóknir en Taylors Tivoli Iceland ehf. varð fyrir valinu. Fyrirtækið mun því sjá um uppsetningu og rekstur á parísarhjólinu en samkomulag við borgina rennur út í september.