Stuðningsmenn Grindvíkingar eru duglegir að hittast á íþróttaleikjum.
Stuðningsmenn Grindvíkingar eru duglegir að hittast á íþróttaleikjum. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Hjörvar mariahjorvar@mbl.is „Við tökum bara þátt í hátíðarhöldum hvar sem við erum niður komin á landinu,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við Morgunblaðið um hvernig þjóðhátíðardagurinn lítur út fyrir Grindvíkinga.

María Hjörvar

mariahjorvar@mbl.is

„Við tökum bara þátt í hátíðarhöldum hvar sem við erum niður komin á landinu,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við Morgunblaðið um hvernig þjóðhátíðardagurinn lítur út fyrir Grindvíkinga.

Á 80 ára afmæli lýðveldisins munu Grindvíkingar hittast í Safnahúsinu klukkan 15 þar sem myndlistarsýningin „… að allir séu óhultir” verður opnuð en þar verður afrakstur myndlistarnámskeiðs barna sýndur.

10 til 12 ára gömlum börnum frá Grindavík var sérstaklega boðin þátttaka á námskeiðinu en á því var unnið út frá reynslu barna frá Grindavík sem þurftu að flýja heimili sín í nóvember.

Námskeiðið var samvinnuverkefni umboðsmanns barna og Listasafns Íslands og var það undir handleiðslu myndlistarfólksins Margrétar H. Blöndal og Kolbeins Huga.

Umboðsmaður hitti börnin

Umboðsmaður barna hélt fyrr á árinu fund með börnum frá Grindavík þar sem þau lýstu upplifun sinni af atburðum síðustu mánaða og gögn frá því þingi verða einnig sýnd á sýningunni. Rúmlega 300 börn mættu á fundinn í mars þar sem þau unnu að tillögum og skilaboðum til stjórnvalda. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra verður viðstaddur og stjórnvöldum verður afhent skýrsla með niðurstöðum fundarins á opnuninni.

Sjómannadagurinn mikilvægur

Fannar nefndi sjómannadaginn sem hátíðardag fyrir Grindvíkinga en þau fengu að halda upp á hátíðina Sjóarinn síkáti samhliða sjómannadeginum í Reykjavík hinn 2. júní. Sú hátíð hefur verið haldin í Grindavík í rúman aldarfjórðung og nú í ár var meðal annars boðið upp á kararóður og flekahlaup á Granda, sem hafa lengi verið hluti af henni. Sjómannadagsmessa fyrir Grindvíkinga fór fram í Vídalínskirkju í Garðabæ og heiðrun sjómanna fór fram í Hörpu og þá voru fjölskyldutónleikar haldnir um kvöldið 1. júní fyrir Grindvíkinga.

Grindvíkingar náðu því margir hverjir að koma saman á sjómannadaginn og halda því upp á þjóðhátíðardaginn hér og þar enda hafa Grindvíkingar verið búsettir víða um land eftir að bærinn var rýmdur vegna eldsumbrota. Framtíð sveitarfélagsins er óljós meðan ekki sér fyrir endann á eldgosum nærri bæjarstæðinu.

Höf.: María Hjörvar