Guðrún Sigríður Sæmundsen gss@mbl.is Gjaldsvæði bílastæða í Reykjavík voru útvíkkuð í lok júní 2023. Nú er fyrirhuguð frekari stækkun gjaldsvæða bílastæða líkt og fram kemur í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Guðrún Sigríður Sæmundsen

gss@mbl.is

Gjaldsvæði bílastæða í Reykjavík voru útvíkkuð í lok júní 2023. Nú er fyrirhuguð frekari stækkun gjaldsvæða bílastæða líkt og fram kemur í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt upplýsingum frá borginni mun gjaldtaka þó ekki hefjast fyrr en viðeigandi merkingum og greiðslubúnaði hefur verið komið upp. Þá á einnig eftir að kynna breytingarnar, m.a. í dreifibréfi til íbúa.

Nýting bílastæða í miðborginni

Tillögur að breytingunum sýna niðurstöður talningar á bílastæðum í miðborginni. Þar segir að nýting á jöðrum gjaldsvæða sé mikil og stöðug sem gefi tilefni til að stækka gjaldsvæði á tilteknum stöðum. Tillagan var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní síðastliðinn.

Gjaldskyldutími á gjaldsvæðum og gjaldskrá tóku síðast breytingum í október 2023 en helst nú óbreytt þrátt fyrir að Efla hafi komið með tillögur að verðbreytingum ýmist til hækkunar eða lækkunar.

Markmiðið er að stýra eftirspurn eftir bílastæðum og þess vegna var verkfræði- og ráðgjafarstofunni Eflu falið að kanna nýtingu á öllum gjaldskyldum bílastæðum eftir síðustu breytingar sem og notkun gjaldfrjálsra bílastæða. Efla framkvæmdi talningu á álagstímum virka daga og um helgar. Niðurstöður voru þær að bílastæðanýting á álagstíma á helstu gjaldvæðum er um 60-85% en það hlutfall er innan viðmiða borgarinnar varðandi nýtingu á stæðum.

Nýting bílastæða á kvöldin minnkar á flestum svæðum milli ára sem sýnir að lenging gjaldskyldu sem tekin var upp í breytingunum í október síðastliðnum sé að hafa áhrif. Á sama tíma hefur nýting bílastæðahúsa aukist umtalsvert. Neikvæðu áhrifin eru hins vegar að nýting á mæli P3 eykst verulega milli ára enda lýkur gjaldskyldu þar kl. 18. Á stóru svæði hefur eftirspurn eftir helstu gjaldsvæðum í kringum miðbæinn minnkað umfram 5% milli áranna 2022 og 2023. Af því má leiða að íbúar sem eiga fleiri en einn bíl sjái frekar hag sinn í að leggja í mæli P3 að kvöldi til.

Nýting á nýjum gjaldsvæðum í Vesturbænum hefur samkvæmt talningunni verið undir 50% á álagstíma. Það bendir til þess að gjaldið sé líklega of hátt á þessu svæði. En einnig að þau gjaldsvæði voru nýlega innleidd og að með tímanum muni nýtingin aukast.

Niðurstöður vegna gjaldfrjálsra svæða sýnir nýtingu yfir 90% á bílastæðum eins og við Háskóla Íslands, í Þingholtunum og á Kirkjusandi. Nefnt er dæmi um að í Vesturbænum sé nýting bílastæða meiri að kvöldi en að deginum sem gæti þýtt að íbúar og gestir í næstu götum við mæli P2 leggi frekar í gjaldfrjáls stæði.

Við mat á nýtingu bílastæða um helgar voru gjaldsvæðin aðeins talin. Við samanburð ársins 2023 og áranna á undan hefur nýting gjaldsvæða farið minnkandi sem þýðir að gjaldskyldan hafi haft tilætluð áhrif.

Markmiðið með breytingunum

Í svari frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar segir að ekki sé haldið sérstaklega utan um tekjur vegna gjaldskyldu af hverri götu. Tekjurnar séu færðar á hvern gjaldflokk, P1, P2 og P3. Þar segir einnig að ekki sé unnt að sjá tekjur af gjaldskyldu sérstaklega vegna þeirra gatna sem síðast var samþykkt gjaldskylda á. Heildartekjur af gjaldskyldum stæðum P1, P2 og P3 jukust úr 582 milljónum króna árið 2022 í 712 milljónir króna árið 2023. Í því samhengi er bætt við að á móti leggst kostnaður við rekstur skrifstofu og útideildar bílastæðasjóðs og eins kostnaður vegna leigu, reksturs og viðhalds stæðanna.

Umhverfis- og skipulagssvið segir tilgang gjaldskyldunnar vera stýringu á nýtingu bílastæða og því hefur ekki verið farið í nákvæma greiningu á fjárhagslegum áhrifum fyrirhugaðra breytinga. Að markmiðið sé að bílastæði séu vel nýtt en að einnig séu laus stæði fyrir þá sem á þurfa að halda og eiga erindi á svæðið.

Breytingarnar voru samþykktar á grundvelli reglna um notkun stöðureita og gjaldtöku í Reykjavík, verklagsreglna um innleiðingu nýrra gjaldsvæða á borgarlandi Reykjavíkur og áðurnefndrar talningar á nýtingu bílastæða sem fram fór í lok árs 2023. Þá var einnig tekið tillit til ábendinga frá íbúum og rekstraraðilum á svæðinu.

Engin bein svör fengust við því hvort frekari útvíkkun yrði fyrirhuguð ef almenningur tæki upp á að leggja í jaðrinum á þessum nýju gjaldsvæðum.

Höf.: Guðrún Sigríður Sæmundsen