Árbær Fanndís Friðriksdóttir, Ísabella Sara Tryggvadóttir og Jasmín Erla Ingadóttir fagna marki Ísabellu í 4:1-sigri á Fylki í Árbænum í gær.
Árbær Fanndís Friðriksdóttir, Ísabella Sara Tryggvadóttir og Jasmín Erla Ingadóttir fagna marki Ísabellu í 4:1-sigri á Fylki í Árbænum í gær. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Topplið Breiðabliks vann öruggan sigur á botnliði Þróttar úr Reykjavík, 3:0, þegar liðin áttust við í 8. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gær. Breiðablik er enn ósigrað á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 24, þremur stigum fyrir ofan ríkjandi Íslandsmeistara Vals

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Topplið Breiðabliks vann öruggan sigur á botnliði Þróttar úr Reykjavík, 3:0, þegar liðin áttust við í 8. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gær.

Breiðablik er enn ósigrað á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 24, þremur stigum fyrir ofan ríkjandi Íslandsmeistara Vals. Þróttur vermir botninn með aðeins fjögur stig.

Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði sitt fimmta deildarmark á tímabilinu gegn uppeldisfélagi sínu og Agla María Albertsdóttir skoraði beint úr hornspyrnu.

Var það sjöunda mark Öglu Maríu í deildinni og er hún í öðru til þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn ásamt liðsfélaga sínum Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur.

Karitas Tómasdóttir skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu.

Auðvelt hjá Val í Árbænum

Valur heimsótti nýliða Fylkis í Árbæinn og vann öruggan sigur, 4:1.

Valur er áfram í öðru sæti, nú með 21 stig. Fylkir er í níunda og næstneðsta sæti eftir að hafa tapað fimm leikjum í röð.

Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði fimmta mark sitt á tímabilinu og Amanda Andradóttir gerði slíkt hið sama. Jasmín Erla Ingadóttir skoraði fjórða mark sitt.

Berglind Rós Ágústsdóttir skoraði annan deildarleikinn í röð og það gegn gömlu félögum sínum, en hún lék með Fylki á árunum 2017 til 2020.

Jafnt á Sauðárkróki

Tindastóll og nýliðar Víkings úr Reykjavík mættust á Sauðárkróksvelli í gær og skildu jöfn, 1:1.

Með jafnteflinu fór Víkingur upp um eitt sæti og er nú í fimmta sæti með níu stig. Tindastóll heldur kyrru fyrir í sjöunda sæti með sjö stig.

Hafdís Bára Höskuldsdóttir kom gestunum í forystu með sínu fjórða marki á tímabilinu.

Liðsfélagi hennar, Emma Steinsen Jónsdóttir, varð svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og tryggði þannig Stólunum stig.

Woodard hetja FH-inga

FH styrkti stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar með því að leggja Keflavík að velli, 1:0, í Kaplakrika á laugardag.

FH er nú með 13 stig, fjórum stigum fyrir ofan Víking og Stjörnuna.

Bandaríkjakonan Breukelen Woodard skoraði sigurmark FH-inga eftir tæplega hálftíma leik og hefur nú skorað þrjú mörk í átta deildarleikjum.

Þór/KA gerði einstaklega góða ferð í Garðabæinn og vann öruggan sigur á Stjörnunni, 4:1.

Þór/KA er áfram í þriðja sæti deildarinnar, nú með 18 stig. Stjarnan er í sjötta sæti með níu stig.

Tímamót hjá Söndru Maríu

Hin 17 ára gamla Hrefna Jónsdóttir kom Stjörnunni yfir snemma leiks með sínu fyrsta marki í efstu deild í 11. leiknum. Sandra María Jessen jafnaði metin með sínu 100. marki í efstu deild í 161. leiknum.

Í upphafi síðari hálfleiks skoruðu gestirnir frá Akureyri tvívegis og þar á meðal hin 17 ára gamla Hildur Anna Birgisdóttir beint úr hornspyrnu. Hafði hún komið inn á sem varamaður í hálfleik og var um fyrsta mark hennar í efstu deild að ræða í sjötta leiknum.

Sandra María skoraði svo annað mark sitt og fjórða mark Þórs/KA og er nú búin að skora tólf mörk í átta deildarleikjum á tímabilinu.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson