Lindargata Gamla hæstaréttarhúsið er sambyggt Arnarhvoli.
Lindargata Gamla hæstaréttarhúsið er sambyggt Arnarhvoli. — Morgunblaðið/Sisi
Ríkisstjórnin hefur að undanförnu fundað í húsakynnum í Skuggasundi þar sem umhverfisráðuneytið var áður til húsa. Unnið er að endurbótum í Ráðherrabústaðnum, hinum hefðbundna fundarstað ríkisstjórnar Íslands

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu fundað í húsakynnum í Skuggasundi þar sem umhverfisráðuneytið var áður til húsa. Unnið er að endurbótum í Ráðherrabústaðnum, hinum hefðbundna fundarstað ríkisstjórnar Íslands.

„Endurbætur á sumum fasteignum Stjórnarráðsins hafa staðið yfir og er nú unnið að gagngerum endurbótum á Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Verkefnið mun taka allt þetta ár og við höfum þess vegna hætt að funda í Ráðherrabústaðnum. Í ljós kom að tími var kominn á viðhald á öllum lögnum í húsinu og einnig var óviðunandi brunahætta ásamt ýmsu fleiru. Uppi eru metnaðarfull áform um að endurgera Ráðherrabústaðinn þannig að hann verði tilbúinn snemma á næsta ári. Í Stjórnarráðshúsinu sjálfu hafa verið gerðar ákveðnar endurbætur. Með því að slípa gólf og skipta um veggfóður á undanförnum árum hefur verið frískað aðeins upp á húsið en ítrekað hefur verið frestað að ráðast í nýja byggingu á baklóð Stjórnarráðsins,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Svo kann að fara að ráðherrarnir muni ráða ráðum sínum í gömlum dómsal.

„Ríkisstjórninni býðst fundarstaður í dómsalnum í gamla Hæstarétti. Húsið verður tekið í gegn að innan en búið er að steina húsið að utan og laga glugga. Hugmyndin er að þar sé salur sem ríkisstjórnin geti fundað í og geti sömuleiðis verið móttökusalur. Byggingin sem hýsti gamla Hæstarétt hefur undanfarin ár verið notuð sem æfingahúsnæði fyrir Þjóðleikhúsið. Með því að nota gamla dómsalinn er hægt að draga úr umfangi byggingarinnar sem til stendur að reisa fyrir aftan Stjórnarráðið. En þess ber að geta að ekki er gert ráð fyrir fjármagni í þá framkvæmd alveg á næstunni. Samhliða erum við að fara nánar yfir þarfir Stjórnarráðsins til lengri tíma og meta hvaða tækifæri geta legið í Stjórnarráðsreitnum. Ég tel mikilvægt að fara yfir eldri tillögur að skipulagi þessara lóða og koma þeim hlutum á hreyfingu.“ kris@mbl.is