Mótmæli hafa ítrekað farið úr böndunum á Íslandi að undanförnu og orðið til þess að fámenn lögregla landsins hefur orðið að grípa til þess að beita piparúða til að hafa einhverja stjórn á aðstæðum.

Mótmæli hafa ítrekað farið úr böndunum á Íslandi að undanförnu og orðið til þess að fámenn lögregla landsins hefur orðið að grípa til þess að beita piparúða til að hafa einhverja stjórn á aðstæðum.

Mótmælendurnir hafa reynt að hindra för og störf ríkisstjórnar landsins og að auki látið ófriðlega við Alþingishúsið. Þegar myndskeið af þessum atvikum eru skoðuð má glöggt sjá að mótmælendur hlýddu ekki fyrirmælum lögreglu og ýttu jafnvel við henni eða slógu til hennar. Slíka framkomu á ekki að líða og hún yrði hvergi látin óátalin, líkt og forsætisráðherra benti á í viðtali í Spursmálum á dögunum.

Athygli vekur og óhug að þessir ofsafullu mótmælendur eru skreyttir sömu merkjum og þeir sem valdið hafa og haldið uppi ófriði á Gasa og víðar. Og það sem meira er, söngurinn sem er kyrjaður er sá sami og heyrist víðar á Vesturlöndum hjá þeim sem efna til svipaðra uppákoma og berjast með því gegn Ísrael og styðja í það minnsta óbeint hryðjuverkasamtökin Hamas.

Í New York er þetta til dæmis orðin plága og hefur færst út í beinar árásir á gyðinga, á opinberum vettvangi og jafnvel á heimilum þeirra. Allt er það eins ógeðfellt og hægt er að hugsa sér, ekki síst í ljósi sögunnar, og Vesturlönd verða að grípa til eindreginna aðgerða til að slíkur ófriður og gyðingaandúð vindi ekki upp á sig með afleiðingum sem enginn vill hugsa út í.