Friðvænlegt? Selenskí Úkraínuforseti á þinginu í Sviss í gær. Hann segir Úkraínumenn ganga til friðarviðræðna við Rússa kalli þeir her sinn heim.
Friðvænlegt? Selenskí Úkraínuforseti á þinginu í Sviss í gær. Hann segir Úkraínumenn ganga til friðarviðræðna við Rússa kalli þeir her sinn heim. — AFP/Urs Flueeler
Úkraínsk stjórnvöld lýsa vilja sínum til að ganga á rökstóla með þeim rússnesku í dag og ræða frið í væringum nágrannaríkjanna að því gefnu að Rússar fallist á að kalla hersöfnuð sinn heim frá úkraínsku yfirráðasvæði

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Úkraínsk stjórnvöld lýsa vilja sínum til að ganga á rökstóla með þeim rússnesku í dag og ræða frið í væringum nágrannaríkjanna að því gefnu að Rússar fallist á að kalla hersöfnuð sinn heim frá úkraínsku yfirráðasvæði. Frá þessu greindi Volódimír Selenskí Úkraínuforseti í gær.

Forsetinn ávarpaði friðarþing í Sviss á lokadegi þess í gær og lét þess þar getið að Vladimír Pútín forseti Rússlands myndi ekki láta staðnæmast með sigri í Úkraínu. Því yrði að stöðva hann með „öllum tiltækum ráðum“, hvort sem það gerðist fyrir tilstilli vopnavalds eða viðræðna, áður en til innrásar í Vestur-Evrópu og heimsstyrjaldar kæmi.

Sagði Selenskí að aðstoð Vesturlanda hefði ekki hrokkið til að knýja átökin í Úkraínu til kyrrðar. Þingið í Sviss hefði hins vegar sýnt og sannað að stuðningur Vesturlanda við stríðshrjáða þjóð Úkraínu hefði hvergi dvínað, þvert á móti stæðu tugir vestrænna ríkja með Úkraínumönnum í bjargfastri trú á að þeirra land værri þeirra eign.

Sársaukafullar málamiðlanir

Þingið í Sviss ályktaði fyrir slit umræðna að Rússum einum væri um þær hörmungar að kenna sem nágrannaríkið hafi mátt sæta frá innrásardeginum í febrúar 2022. Þetta neituðu fulltrúar Indlands, Suður-Afríku og Sádi-Arabíu þó að skrifa undir.

Rúmlega 90 ríki og alþjóðlegar hjálparstofnanir áttu fulltrúa á þinginu í Sviss. Fulltrúum Rússa var ekki boðið og helsta stuðningsríki Pútíns, Kína, kaus að senda enga fulltrúa til viðræðnanna sem einhverjir töldu veikja áhrifamátt samkomunnar.

Er þessi neitun talin skiljanleg í ljósi þess að þingið sóttu fulltrúar ríkja sem ekki hafa talist í hópi einörðustu stuðningsmanna Úkraínu síðan Pútín fór með oddi og egg að nágrönnum sínum. Má þar nefna Sádi-Arabíu sem látið hefur í veðri vaka að Úkraínumenn þurfi að bjóða Rússum sársaukafullar málamiðlanir áður en friður kemst á. Þá hafa kenísk stjórnvöld gagnrýnt viðskiptabann Rússa harðlega.

„Rússar geta hafið friðarviðræður á morgun ef þeir yfirgefa okkar landsvæði,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu í gær um leið og hann lýsti því yfir að Kínverjar væru ekki óvinir Úkraínu. „Við virðum Kínverja og þeirra yfirráðarétt, við viljum að Kína veiti okkur það sama,“ sagði forsetinn.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson