[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England vann Serbíu með minnsta mun, 1:0, í fyrsta leik liðanna í C-riðli EM 2024 í knattspyrnu karla í Gelsenkirchen í Þýskalandi í gærkvöldi. Jude Bellingham skoraði sigurmark Englands á 13. mínútu með þrumuskalla eftir góðan undirbúning og fyrirgjöf Bukayo Saka

EM 2024

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

England vann Serbíu með minnsta mun, 1:0, í fyrsta leik liðanna í C-riðli EM 2024 í knattspyrnu karla í Gelsenkirchen í Þýskalandi í gærkvöldi.

Jude Bellingham skoraði sigurmark Englands á 13. mínútu með þrumuskalla eftir góðan undirbúning og fyrirgjöf Bukayo Saka.

Fyrr um daginn höfðu Slóvenía og Danmörk mæst í C-riðlinum og skilið jöfn, 1:1. Var um fyrsta jafntefli keppninnar að ræða.

Christian Eriksen kom Dönum yfir í fyrri hálfleik með laglegri afgreiðslu eftir glæsilega hælsendingu Jonas Winds. Erik Janza jafnaði metin fyrir Slóveníu á 77. mínútu með þrumuskoti fyrir utan vítateig sem fór af varnarmanni og í netið.

Weghorst hetja Hollands

Í D-riðli áttust Holland og Pólland við í Hamborg og lauk leiknum með torsóttum sigri Hollands, 2:1.

Pólverjar náðu forystunni á 16. mínútu þegar Adam Buksa skoraði með góðum skalla. Cody Gakpo jafnaði metin eftir tæplega hálftíma leik.

Wout Weghorst tryggði Hollendingum svo sigurinn á 83. mínútu, aðeins tveimur mínútum eftir að hann hafði komið inn á sem varamaður.

Sviss fór vel af stað

Á laugardag mættust Sviss og Ungverjaland í A-riðli í Köln. Lauk leiknum með 3:1-sigri Sviss.

Sviss var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi 2:0 að honum loknum eftir að Kwadwo Duah og Michel Aebischer skoruðu báðir sín fyrstu landsliðsmörk.

Barnabás Varga minnkaði muninn fyrir Ungverja með sínu sjöunda landsliðsmarki í tólfta leiknum áður en Breel Embolo rak smiðshöggið fyrir Sviss undir lokin.

Spánverjar ógnarsterkir

Á laugardag fór fyrsta umferð B-riðils, sem jafnan er litið á sem dauðariðil mótsins, fram í heild sinni.

Spánn mætti Króatíu á Ólympíuleikvanginum í Berlín og vann sannfærandi sigur, 3:0.

Öll mörkin komu í fyrri hálfleik þar sem fyrirliðinn Álvaro Morata, Fabián Ruiz og Dani Carvajal komust allir á blað.

Morata skoraði sitt sjöunda mark í lokakeppni Evrópumóts og er nú þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu EM ásamt Alan Shearer og Antoine Griezmann.

Fljótasta markið í sögunni

Ítalía mætti Albaníu í Dortmund og vann endurkomusigur, 2:1.

Ekki blés byrlega fyrir Ítali strax í upphafi leiks þegar Federico Dimarco tók innkast á eigin vallarhelmingi, sendi beint á Nedim Bajrami sem kom Albaníu yfir eftir aðeins 23 sekúndna leik. Er það fljótasta mark sem hefur verið skorað í sögu EM.

Ítalir voru þó fljótir að taka við sér þar sem Alessandro Bastoni jafnaði metin á 11. mínútu með góðum skalla og Nicolo Barella skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig fimm mínútum síðar.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson