40 ára Matthias fæddist 17. júní í Mülheim í Þýskalandi en sá dagur var einmitt þjóðhátíðardagur í Vestur-Þýskalandi þangað til 1990 þegar Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland voru sameinuð. „Fyrstu sex árin af ævinni fékk ég því þann heiður að fagna afmæli mínu á þjóðhátíðardegi

40 ára Matthias fæddist 17. júní í Mülheim í Þýskalandi en sá dagur var einmitt þjóðhátíðardagur í Vestur-Þýskalandi þangað til 1990 þegar Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland voru sameinuð. „Fyrstu sex árin af ævinni fékk ég því þann heiður að fagna afmæli mínu á þjóðhátíðardegi. Ég ólst upp í Ruhr-héraði sem er sögulega mikilvægt iðnaðarsvæði. Þar upplifði ég miklar umbreytingar og hnignun á kola- og stáliðnaði. Þetta hafði það mikil áhrif á mig að ég fékk ungur áhuga á samfélagsbreytingum.“

Til þess að geta haldið áfram að halda upp á afmælið sitt á þjóðhátíðardegi þurfti Matthias að flytja til Íslands, en það var þó ekki eina ástæðan fyrir flutningunum. „Mig fór fyrst að dreyma um að koma til landsins þegar ég var 14 ára en þá fékk ég tvær bækur í afmælisgjöf, eina um Ísland og aðra um evrópska knattspyrnuvelli. Í þeirri síðarnefndu sá ég mynd af knattspyrnuvellinum í Vestmannaeyjum og ákvað að ég myndi einhvern tímann horfa á fótboltaleik þar. Sá draumur rættist 14 árum seinna þegar ég kom til Íslands sem skiptinemi árið 2010. Á þeim tíma ákvað ég líka að koma aftur til Íslands og flytja hingað varanlega.“

Matthias lauk meistaranámi í landafræði, félagsfræði og kennslufræði við Háskólann í Essen og Duisburg árið 2012. Eftir það kom hann til Íslands og hóf doktorsnám hjá HÍ þar sem hann rannsakaði seiglu íslenskra sjávarbyggða og skoðaði samfélagsleg áhrif kvótakerfisins á lítil og afskekkt samfélög á Íslandi. „Meðan á þessari rannsóknarvinnu stóð heimsótti ég næstum allar sjávarbyggðir á Íslandi og varði nokkrum vikum á Raufarhöfn og Skagaströnd.“

Matthias flutti til Ísafjarðar árið 2019 og starfar sem fagstjóri meistaranámsins í sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða. Hann stundar enn rannsóknir og meðal annars má nefna rannsóknir á lífskjörum fólks, íbúaþróun og alls konar öðrum samfélagslegum þáttum á landsbyggðinni.


Fjölskylda Eiginkona Matthiasar er Pia Elisabeth Czorny, f. 1985, mannauðsstjóri hjá Arctic Fish. Hún er einnig frá Þýskalandi og flutti með honum til Íslands frá Berlín. Foreldrar Matthiasar eru Hans og Hildegard Kokorsch sem búa enn í Mülheim.