Forsætisráðherra Bjarni tekur þátt í 17. júní-hátíðarhöldunum í dag.
Forsætisráðherra Bjarni tekur þátt í 17. júní-hátíðarhöldunum í dag. — Morgunblaðið/Eyþór
Svo gæti farið að ríkisstjórn Íslands fengi fundaraðstöðu í gamla hæstaréttarhúsinu við Lindargötu í Reykjavík. Er þetta meðal þess sem fram kemur hjá Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra í viðtali við Morgunblaðið en að undanförnu hafa framkvæmdir staðið yfir í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Svo gæti farið að ríkisstjórn Íslands fengi fundaraðstöðu í gamla hæstaréttarhúsinu við Lindargötu í Reykjavík. Er þetta meðal þess sem fram kemur hjá Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra í viðtali við Morgunblaðið en að undanförnu hafa framkvæmdir staðið yfir í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

„Verkefnið mun taka allt þetta ár og við höfum þess vegna hætt að funda í Ráðherrabústaðnum,“ segir Bjarni meðal annars en gamla hæstaréttarhúsið hefur verið notað að hluta til sem æfingahúsnæði fyrir Þjóðleikhúsið.

„Húsið verður tekið í gegn að innan en búið er að steina húsið að utan og laga glugga. Hugmyndin er að þar sé salur sem ríkisstjórnin geti fundað í og geti sömuleiðis verið móttökusalur,“ segir Bjarni og bendir á að með þessu mætti draga úr umfangi byggingar sem til stendur að byggja á baklóð Stjórnarráðsins.

Gerum okkur dagamun

Í dag eru 80 ár síðan Ísland varð lýðveldi og er rætt við Bjarna um tímamótin. „Ég hef alla tíð haldið upp á 17. júní og ég geri ráð fyrir að það eigi við um alla Íslendinga. Við eigum að gera okkur sérstakan dagamun þegar afmælishátíð ber að garði. Á 80 ára afmælinu er ástæða til að horfa með þakklæti til þeirra sem börðust fyrir fullveldinu og stóðu að stofnun lýðveldisins,“ segir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kristján Jónsson