Inga Sæland
Inga Sæland
Í sjö ár hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks setið við völd. Hvað hefur þjóðin mátt þola á þessum tíma? Allt frá Landsréttarmálinu og að lækkun veiðigjalda, til Namibíu/Samherjamálsins og sveltistefnu ríkisins…

Í sjö ár hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks setið við völd. Hvað hefur þjóðin mátt þola á þessum tíma? Allt frá Landsréttarmálinu og að lækkun veiðigjalda, til Namibíu/Samherjamálsins og sveltistefnu ríkisins gagnvart sjúkum, öryrkjum, öldruðum og sárafátækum fjölskyldum. Börn fá ekki greiningar, aldraðir bíða eftir hjúkrunarrýmum og sjúklingar eftir aðgerðum. Íslandsbanki var seldur á gjafvirði til einkavina og ráðherrar sögðu af sér vegna brota á eigin reglum, bara til þess að verðlauna sig með enn umsvifameiri ráðuneytum. Þetta eru örfá afrek sem skreyta ferilskrá þessarar ríkisstjórnar.

Nú ætlar ríkisstjórnin að ganga enn lengra í aðför sinni að almenningi. Vernduðum vinnustöðum á að loka og persónuafsláttur lífeyrisþega með búsetu erlendis á að falla niður. Fátækt barna eykst og lífsgæði öryrkja minnka. Eftir tíu ára skólagöngu er um helmingur barna ólæs eða með lélegan lesskilning. Skerðingarofbeldið heldur áfram og hagsmunafulltrúa aldraðra er fleygt í ruslið þrátt fyrir að allur þingheimur hafi samþykkt tilveru hans. En nei, ráðherrann Guðmundur Ingi Guðbrandsson, VG, telur að það sé nóg fyrir þetta gamla lið að fá tvo símsvara til að þjóna þörfum þeirra. Lítilsvirðingin gagnvart öldruðum er alger.

En ríkisstjórnin hættir ekki þar. Nú á að selja Íslandsbanka í þriðja sinn, gullgæsina sem skilar tugum milljarða í arð á hverju ári. Og hverjir geta keypt? Auðvitað einkavinir fjórflokksins, bankaelítan, kvótakóngarnir og útrásarvíkingarnir. Opið ferli og allir með er yfirskriftin en staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur séð til þess með efnahagsstefnu sinni að okurvaxtastefna þeirra kemur í veg fyrir að nokkur geti nýtt sér þetta „opna ferli“ nema enn og aftur þeir sem eiga alla peningana. Svona er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna.

Ríkisstjórnin lofaði tugum þúsunda nýrra íbúða, en ekkert bólar á þeim. Þeir boðuðu lágvaxtaskeið, en stýrivextir eru fastir í 9,25%. Á meðan ráðamenn stæra sig af fyrirmyndarþjóðfélagi leita einstæðar mæður ráða á samfélagsmiðlum um hvernig næra megi börn sín fyrir 5.000 krónur á viku. Ég fyrirlít þessa framkomu stjórnvalda gagnvart börnunum okkar og öllum þeim sem eiga um sárt að binda.

Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm með fjölmörgum frumvörpum og tillögum um réttlátara samfélag. Gegn fátækt og óréttlæti. En ríkisstjórninni er nákvæmlega sama um þá sem hún var kjörin til að vernda. Það er ekki hægt að ljúga upp á þau.

Að baki eru sjö ár svika, vaxandi fátæktar og vonbrigða. Ráðherraræði sem stappar nærri einræði ríður hér röftum.

Kæru landsmenn, gleðilega þjóðhátíð.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins. ingasaeland@althingi.is

Höf.: Inga Sæland