Hrólfur Hraundal
Hrólfur Hraundal
Samgöng um Mjóafjörð myndu bæta samskipti, verslun og þjónustu milli þessara byggðarlaga sem og við Egilsstaði, flugvöllinn og sjúkrahúsið í Neskaupstað.

Hrólfur Hraundal

Samgöng svonefnd, ætluð í Fjarðabyggð, myndu sameina byggðarlög og gera Fjarðabyggð og Egilsstaði með flugvellinum og áhrifasvæði hans að sterkari heild en fengist með Fjarðarheiðargöngum. Til að koma Seyðfirðingum í samband við þjóðvegakerfið með nútímalegum hætti sem snarast er það líkast til fljótlegast með göngum frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og frá Mjóafirði upp á Eyvindarárdal. Þar með komast bæði þessi sveitarfélög í viðunandi þjóðvega- og flugsamband.

Fagridalur er á stundum til vandræða á vetrum og reyndist mér oft erfiðari en Oddsskarð, hvort heldur sem var á rútu eða gömlum amerískum herbíl. Þar getur blásið og fennt sem lens að norðan, en þegar fer að halla suður af og ófærð fram undan er ekki hægt að snúa við nema á því öflugri tækjum og með þokkalegt afl og áræði. Til að losna við þau vandræði þarf göng frá Mjóafirði í Fannardal og þá væri bara hálftíma akstur frá Seyðisfirði og á sjúkrahúsið í Neskaupstað. Göng eru til staðar úr Fannadal og á Eskifjörð (Norðfjarðargöng) og þaðan um Reyðarfjörð (Búðir) á Fáskrúðsfjörð (Fáskrúðsfjarðargöng), þannig að þessi samgöng kæmu Fjarðabyggð í samband við Egilsstaðaflugvöll frá Breiðdalsvík til Seyðisfjarðar sumar og vetur hvernig sem viðrar á Fagradal.

Fjarðarheiðargöng myndu verða löng, blaut og kostnaðarsöm, meðal annars vegna öryggisatriða sem fylgja löngum göngum. (Munum Vaðlaheiðar-Steingrím og kompaní, þau göng áttu ekki að kosta ríkissjóð eina krónu! Stórhuga menn en lítt framsýnir þar á ferð, eða bara falskir.) Fjarðarheiðargöng myndu í meginatriðum þjóna Seyðfirðingum og gestum þeirra. Þar með yrði nýting þeirra mun lakari en samganganna um Mjóafjörð og þar af leiðandi yrðu veggjöld Fjarðarheiðarganga að vera há ef þeim væri ætlað að borga þau og sá skattur myndi að mestu leyti lenda á Seyðfirðingum.

Fjarðarheiðargöng kæmu ekki í staðinn fyrir samgöng í Fjarðabyggð vegna þess að þrenn tiltölulega stutt göng gætu þjónað Fjarðabyggð frá Seyðisfirði suður til Breiðdalsvíkur og upp á flugvöllinn á Egilsstöðum allan ársins hring. Þau myndu og bæta samskipti, verslun og þjónustu milli allra þessara byggðarlaga sem og við fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Atvinnusvæðið yrði svo vel samtengt sem nútímatækni leyfir.

Möguleikar eru sjálfsagt margir varðandi tæknilegar úrlausnir þessa máls, en þær kæmi til kasta tæknideildar Vegagerðarinnar þegar hagkvæmnisathugun fer fram. Rétt er að hafa hér með að Eskifjarðarheiði hefur verið með í umræðu um tengingu Fjarðabyggðar um Eyvindarárdal við Egilsstaði, en það breytir engu um virkni eða hagkvæmni þessa verks. Það er áríðandi að ábyrgðaraðilar hysji upp um sig brækur og ryðji þessu verki í gang, svo hagkvæmt sem það kemur til með að verða.

Ég man ekki alveg hvernig það var, en samþykkti Sigurður Ingi Fjarðarheiðargöng þegar hann var samgönguráðherra? Hafi það gerst þá lítur málið alvarlega út, því hann er núna fjármálaráðherra og til alls vís eins og Vaðlaheiðar-Grímur, þrátt fyrir auraleysi og rýran Íslandsbanka.

Höfundur er vélvirki, rak vélsmiðju á Grundarfirði en er nú eldri borgari í Neskaupstað.

Höf.: Hrólfur Hraundal