Börnin Eir, Hlín, Edda Sif og Páll Magnús á sólríkum degi.
Börnin Eir, Hlín, Edda Sif og Páll Magnús á sólríkum degi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Magnússon fæddist 17. júní 1954 í Reykjavík en ólst upp í Vestmannaeyjum. „Mér þótti mikið til koma þegar ég var barn að eiga afmæli 17. júní og stóð í þeirri meiningu ábyggilega fram undir fermingu að þessi hátíðarhöld hefðu eitthvað með …

Páll Magnússon fæddist 17. júní 1954 í Reykjavík en ólst upp í Vestmannaeyjum. „Mér þótti mikið til koma þegar ég var barn að eiga afmæli 17. júní og stóð í þeirri meiningu ábyggilega fram undir fermingu að þessi hátíðarhöld hefðu eitthvað með afmælisdaginn minn að gera.“

Hann var í sveit í Úthlíð í Biskupstungum í þrjú sumur. „Ég var hjá Sigurði Jónssyni og Jónínu Gísladóttur á gamla bænum í Úthlíð eins og hann var kallaður.“ Páll æfði og keppti í knattspyrnu í Vestmannaeyjum og varð Íslands- og bikarmeistari með ÍBV í 3. og 2. flokki 1970-72. „Eftir landspróf gerði ég misheppnaða tilraun til að fara í Menntaskólann á Laugarvatni fyrir þrábeiðni foreldra minna. Dvaldi þar þó ekki nema í þrjár vikur og strauk svo til Vestmannaeyja. Ég vildi fara að vinna í vaktavinnu í fiskimjölsverksmiðjunni og æfa fótbolta. Ég hafði takmarkaðan áhuga á skólagöngu akkúrat á þessum árum.“

Það breyttist þó stuttu seinna því veturinn eftir fór Páll í Kennaraháskólann, lauk stúdentsprófi þaðan 1975 og fór beint til Lundar í Svíþjóð og lauk fil. cand.-prófi í stjórnmálasögu og hagsögu frá háskólanum þar 1979.

Páll var kennari við Þingholtsskóla í Kópavogi 1979-80 og við Fjölbrautaskólann í Breiðholti 1980-81, blaðamaður á Vísi 1980-81, fréttastjóri á Tímanum 1981-82, aðstoðarritstjóri Iceland Review/Storð 1982, fréttamaður hjá RÚV, sjónvarpi, 1982-85 og aðstoðarfréttastjóri þar 1985-86. Hann var síðan fréttastjóri Stöðvar 2 1986-90, framkvæmdastjóri hjá Stöð 2 1990-91 og forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991-94, sjónvarpsstjóri Sýnar 1995-1996, fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996-2000, framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar 2000-2003, framkvæmdastjóri dagskrár- og fréttasviðs Stöðvar 2 og Bylgjunnar 2003-2005 og útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 2005-2013. Páll stundaði síðan heimildarmynda- og útvarpsþáttagerð 2013-2016. Hann gerði m.a. tvær myndir fyrir Íslenska erfðagreiningu. Önnur þeirra var um erfðatengt brjóstakrabbamein og hin um alzheimer.

„Ég byrjaði sem sumarafleysingamaður á Vísi og fer svo á fullu í blaðamennskuna og er síðan búinn að vera í fjölmiðlum svo gott sem alla starfsævina í alls konar hlutverkum. Ég gerði eina tilraun til að hætta í fjölmiðlum þegar ég var hjá Íslenskri erfðagreiningu en sú tilraun stóð bara í þrjú ár. Sá um Sprengisand á Bylgjunni um skeið áður en ég fór í pólitík og fyrir nokkrum árum var ég með samtalsþætti í útvarpinu á K100 og síðan í þáttunum Dagmál í sjónvarpinu á Mbl.is. Ég gerði svo sex skemmtiþætti með Eddu Andrésdóttur fyrir Stöð 2 núna í vor. Þar bættist við enn eitt sem ég hef gert í fjölmiðlum: skemmtiþættir.

Í öllu þessu fjölmiðlabrasi hef ég upplifað það þannig að ég hafi aldrei tekið yfirvegaða og úthugsaða ákvörðun um nokkurn skapaðan hlut af því sem ég hef gert – heldur allt af tilfinningu. T.d. var ég varafréttastjóri á RÚV þegar mér bauðst að búa til fréttastofu Stöðvar 2 nokkrum mánuðum áður en hún fór í loftið. Ég mátti hafa fréttastofuna eftir eigin höfði og ráða þá fréttamenn sem ég vildi ráða og vera í raun einráður um þetta. Margir voru hissa á því að ég vildi fara út í þessa óvissu sem Stöð 2 var. En þegar ég tek svona ákvarðanir þá spyr ég mig alltaf: Hvoru myndirðu sjá meira eftir, að hafna tilboðinu eða taka því? Ég vissi að ég myndi sjá eftir því alla ævi ef ég hefði hafnað þessu tilboði um að búa til fréttastofu eftir eigin höfði.“

Páll var alþingismaður Suðurkjördæmis 2016-2021 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Á öllum fjölmiðlaferlinum var ég tengdur fréttum um pólitík og hef alltaf haft áhuga á henni. Ég byrjaði sem þingfréttamaður þegar ég hóf fyrst störf hjá RÚV, sjónvarpi og í þáttagerðinni voru þetta pólitískir þættir, ég man eftir nöfnum eins og Eldlínan og Í návígi. Það var því kannski við hæfi að prófa undir lokin að fara inn fyrir girðinguna sem ég hafði staðið svo lengi fyrir utan og horft inn. Ég féllst svo á að demba mér í bæjarmálapólitíkina í Eyjum 2022, leiddi lista bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey, var kosinn í bæjarstjórn 2022 og hef verið forseti bæjarstjórnar síðan.“

Í gegnum tíðina hefur Páll haft mikinn áhuga á veiði. Hann hefur veitt bæði á stöng og byssu og verið í lundaveiði. „Ég les mikið, fylgist mikið með íþróttum, aðallega mínu félagi ÍBV, bæði fótbolta og handbolta. Með því skemmtilegra sem ég geri er svo að eyða drjúgum tíma á skemmtibát sem við eigum þrír félagar og fóstbræður í Eyjum. Sigli um í kvöldkyrrðinni og fylgist með náttúrunni, hvölum og fuglum og veiði svolítið á bátnum líka á sjóstöng. Svo teflum við talsvert nokkrir frændur og félagar. Þegar ég byrjaði í blaðamennskunni á Vísi fyrir 44 árum var stofnaður félagsskapur sem heitir Frakkalafið og við höfum hist hálfsmánaðarlega á veturna og teflum. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á skák þótt getan sé ekki í samræmi við áhugann. Ég náði þó að verða unglingameistari í Vestmannaeyjum og hef verið dreginn í að tefla fyrir neðri sveitirnar í Taflfélagi Vestmannaeyja á Íslandsmóti skákfélaga.“

Fjölskylda

Eiginkona Páls er Hildur Hilmarsdóttir, f. 28.10. 1964, flugfreyja, en þau gengu í hjónaband 12.3. 1988. Þau eru búsett í Vestmannaeyjum og Garðabæ. Foreldrar Hildar eru Hilmar Ingólfsson, f. 3.6. 1943, fv. skólastjóri, búsettur í Reykjavík, og Edda Snorradóttir, f. 1.9. 1942, fv. kennari, búsett í Hafnarfirði.

Dætur Páls og fyrri konu hans, Maríu S. Jónsdóttur, eru 1) Eir, f. 30.6. 1975, flugfreyja, búsett í Hafnarfirði. Maki: Jón Arnar Guðbrandsson, f. 1970. Börn hennar eru Elísa Eir Gunnarsdóttir, f. 2000, og Bjarki Steinn Gunnarsson, f. 2005; 2) Hlín, f. 22.5. 1980, tanntæknir, búsett í Garðabæ. Maki: Michael Benjamin David, f. 1979. Börn þeirra eru Sóley Sara, f. 1998, María Malín, f. 2006, og Ísmael Ísak, f. 2011. Börn Páls og Hildar eru 3) Edda Sif, f. 20.7. 1988, íþróttafrétta- og dagskrárgerðarkona. Maki: Vilhjálmur Siggeirsson, f. 1991. Sonur þeirra er Magnús Berg, f. 2020; 4) Páll Magnús, f. 12.12. 1995, lögfræðingur, búsettur í Garðabæ. Maki: Anna Ýr Johnson Hrafnsdóttir, f. 1991. Dóttir þeirra er Hildur Ellen, f. 2021.

Hálfbræður Páls, samfeðra, voru Magnús, f. 18.5. 1944, d. 10.9. 1986, og Ægir, f. 19.5. 1947, d. 27.5. 2002. Alsystkini Páls eru Sigríður, f. 8.2. 1950, lífeindafræðingur, búsett á Eyrarbakka; Björn Ingi, f. 18.4. 1962, tölvunarfræðingur, búsettur í Reykjavík, og Helga Bryndís, f. 2.5. 1964, píanóleikari, búsett í Kópavogi.

Foreldrar Páls voru hjónin Magnús H. Magnússon, f. 30.9. 1922, d. 23.8. 2006, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, alþingismaður og ráðherra, og Marta Björnsdóttir, f. 15.11. 1926, d. 24.8. 1989, húsmóðir í Vestmannaeyjum.