Brautskráning Rektor afhendir kandídat hér skírteini sitt.
Brautskráning Rektor afhendir kandídat hér skírteini sitt. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
„Tækniframfarir geta orðið svo hraðar að okkur svimar við tilhugsunina. Fjarri fer þó að tækniframförum fylgi sjálfkrafa aukinn siðferðisþroski. Við sem vijum helga líf okkar leit að þekkingu, skilningi og frelsi treystum því að stríð og…

„Tækniframfarir geta orðið svo hraðar að okkur svimar við tilhugsunina. Fjarri fer þó að tækniframförum fylgi sjálfkrafa aukinn siðferðisþroski. Við sem vijum helga líf okkar leit að þekkingu, skilningi og frelsi treystum því að stríð og sundrung spilli ekki þroskabraut mannsins,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningarathöfn skólans sl. laugardag.

Alls brautskráðust nú 2.652 kandídatar, fólk sem var að ljúka grunn- eða þá framhaldsnámi.
Frá félagsvísindasviði brautskráðust 779, 635 af sviði heilbrigðisvísinda og 328 úr hugvísindum. Þá brautskráðust 648 frá menntavísindasviði og 262 frá verkfræði- og náttúruvísindasviði. „Nú bíða ykkar ný og spennandi tækifæri og ótal áskoranir sem þið eruð vel í stakk búin til að takast á við og munuð vaxa af,“ sagði rektor í ávarpi sínu og ennfremur: „Íslendingar hafa borið gæfu til að rækta fróðleiksfýsn sína með formlegri og óformlegri menntun. Þeir hafa í aldanna rás leitað ýmissa leiða til að hefja sig yfir óblíðar aðstæður og bæta lífskjörin. Þar hefur skipt sköpum að þekkja sitt nánasta umhverfi, læra að lesa í náttúruna, bæði umhverfis okkur og í okkur sjálfum.“

Guðni Th. Jóhannesson, fráfarandi forseti Íslands, prófessor í sagnfræði, kemur senn aftur til starfa við HÍ samkvæmt því sem rektor greindi frá. Um forsetakjör á dögunum sagði Jón Atli að umræður þar hefðu verið fjörlegar. „Það er mikils virði að búa í landi þar sem val um þau sem við kjósum til forystu fyrir okkar hönd fer friðsamlega fram og við öll unum lýðræðislegri niðurstöðu.“ sbs@mbl.is