Samtaka Dalakrakkar tóku fyrstu skóflustungur að íþróttahöll.
Samtaka Dalakrakkar tóku fyrstu skóflustungur að íþróttahöll.
Framkvæmdir við byggingu íþróttamiðstöðvar í Búðardal hófust í síðustu viku þegar efnilegir íþróttakrakkar af svæðinu tóku fyrstu skóflustungurnar að mannvirkinu. Þetta var gert 11. júní, þann dag þegar Dalabyggð í núverandi mynd varð til með sameiningu nokkurra sveitarfélaga

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Framkvæmdir við byggingu íþróttamiðstöðvar í Búðardal hófust í síðustu viku þegar efnilegir íþróttakrakkar af svæðinu tóku fyrstu skóflustungurnar að mannvirkinu. Þetta var gert 11. júní, þann dag þegar Dalabyggð í núverandi mynd varð til með sameiningu nokkurra sveitarfélaga.
Í Dalabyggð hefur lengi verið þörf á að bæta íþróttaaðstöðu og nú er skrefið tekið. Miðstöðin samanstandi af íþróttasal, þjónustukjarna með búningsklefum og lyftingasal ásamt útisundlaug. Undir þaki þarna eru 1.335 m2. Svo bætist við útisvæði sundlaugar sem eru 670 m2. Samið hefur verið við byggingafyrirtækið Eykt um framkvæmdir að öllu leyti og gerður hefur verið samningur þar að lútandi. Sá er upp á rúmlega 1,2 ma. kr. Þá hefur vegna þessa verið slegið lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 950 millj. kr.

„Hér í Dölum er mikil eftirvænting fyrir þessu verkefni og stundum hefur verið eðlileg óþreyja. En nú hafa orðið hér kaflaskil og allt er að fara í gang og við fáum mannvirkið í okkar umsjón fullfrágengið 4. febrúar 2026. Þetta er samfélagsverkefni sem mun styrkja innviði okkar hér í Dölunum til muna,“ segir Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri í Dalabyggð.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson