Fótbolti Ekkert er víst mikilvægara en hann.
Fótbolti Ekkert er víst mikilvægara en hann. — Reuters/Phil Noble
Það eru bara þrír leikir á dag, sagði knattspyrnuáhugamaður við ljósvakahöfund og vísaði þar í útsendingar RÚV frá EM. Honum virtist það greinilega fremur lítið. Svona brenglast skynjun knattspyrnuáhugamanna þegar stórkeppni skellur á

Kolbrún Bergþórsdóttir

Það eru bara þrír leikir á dag, sagði knattspyrnuáhugamaður við ljósvakahöfund og vísaði þar í útsendingar RÚV frá EM. Honum virtist það greinilega fremur lítið. Svona brenglast skynjun knattspyrnuáhugamanna þegar stórkeppni skellur á. Þeim finnst sjálfsagt að sýnt sé frá þremur leikjum sama daginn og skilja ekki af hverju aðrir eru ekki jafn áhugasamir. Þeir vilja sjá alla leikina. Þá leitar á mann sú hugsun að mjög hljóti að draga úr vinnuframlagi þeirra þær vikur sem EM stendur yfir. Þeir sitja við borðið sitt í vinnunni, mæna á skjáinn og þykjast vera að vinna en eru að horfa á ruv.is. Yfirmönnum stendur nákvæmlega á sama því þeir eru líka að horfa á ruv.is.

Í knattspyrnuleikjum tapar alltaf einhver. Það hefur ekki farið framhjá manni í þá áratugi sem maður hefur verið á vinnumarkaði hversu geðvondir knattspyrnuáhugamenn verða ef liðið þeirra tapar stórleik. Þetta á sérstaklega við ef England tapar í stórkeppni, sem gerist afskaplega oft. Þá er eins og harmleikur hafi orðið í fjölskyldunni. Knattspyrnuáhugamaðurinn gefur sterklega í skyn, án þess að orða það beint, að hann þurfi tilfinningalegt svigrúm til að jafna sig. Samt gerðist ekkert annað en að lið tapaði í fótboltaleik.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir