Breki Karlsson
Breki Karlsson
Þær lausnir sem hugnast bönkunum varðandi greiðslumiðlun á Íslandi þurfa ekki endilega að vera þær sem gagnast hagsmunum almennings, segir meðal annars í umsögn Neytendasamtakanna vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands

Þær lausnir sem hugnast bönkunum varðandi greiðslumiðlun á Íslandi þurfa ekki endilega að vera þær sem gagnast hagsmunum almennings, segir meðal annars í umsögn Neytendasamtakanna vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.

Breki Karlsson formaður samtakanna skrifar undir umsögnina og er óhætt að segja að honum lítist ekki á breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar þar sem heimild Seðlabankans til að setja gjaldtöku greiðsluþjónustuveitenda mörk yrði felld niður.

„Ekki einungis er bönkunum þannig í sjálfsvald sett hversu háa arðsemi þeir ætla sér af þjónustuveitingunni, heldur gætu þeir með ofurverðlagningu í raun komið í veg fyrir að aðrar lausnir en þær sem þeim eru þóknanlegar verði að veruleika.“

Neytendasamtökin leggjast því alfarið gegn þessari breytingartillögu og telja engin almannahagsmunarök hníga að því að fella brott þessa heimild Seðlabankans.