[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dallas Mavericks hélt sér á lífi í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfuknattleik með því að vinna stórsigur á Boston Celtics, 122:84, í fjórða leik liðanna í Dallas aðfaranótt laugardags. Staðan í einvíginu er því 3:1, Boston í vil, en vinna þarf …

Dallas Mavericks hélt sér á lífi í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfuknattleik með því að vinna stórsigur á Boston Celtics, 122:84, í fjórða leik liðanna í Dallas aðfaranótt laugardags. Staðan í einvíginu er því 3:1, Boston í vil, en vinna þarf fjóra leiki til þess að tryggja sér meistaratitilinn. Slóveninn Luka Doncic skoraði 29 stig fyrir Dallas og Kyrie Irving 21 stig. Stigahæstur hjá Boston var Jayson Tatum með 15 stig. Fimmti leikur liðanna fer fram aðfaranótt þriðjudags.

Knattspyrnukonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, sem lék sinn fyrsta landsleik fyrir íslenska A-landsliðið fyrr í mánuðinum, varð á laugardag danskur meistari með félagsliði sínu Nordsjælland. Liðið gerði jafntefli við Íslendingalið Bröndby, 1:1, í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni, sem dugði til að vinna deildina með tveimur stigum. Emilía lék allan leikinn og endaði markahæst í dönsku úrvalsdeildinni með tíu mörk í 19 leikjum. Hafrún Rakel Halldórsdóttir lék fyrstu 69 mínúturnar fyrir Bröndby og skoraði mark liðsins og Kristín Dís Árnadóttir lék allan leikinn fyrir Bröndby.

Katla María Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt Selfoss. Lið Selfoss vann 1. deildina á síðasta tímabili með afar sannfærandi hætti, vann alla 18 leiki sína, og leikur því í úrvalsdeild að nýju á næsta tímabili. Katla María, sem er 22 ára gömul, skoraði 131 mark í 16 leikjum í 1. deildinni og var næstmarkahæst allra í henni.

Emma Hawkins skoraði þrennu fyrir FHL þegar liðið tyllti sér á toppinn í 1. deild kvenna í knattspyrnu með því að vinna stórsigur á Gróttu, 6:2, í 6. umferð deildarinnar í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Samantha Smith og Björg Gunnlaugsdóttir komust einnig á blað auk þess sem Lilja Lív Margrétardóttir, leikmaður Gróttu, skoraði sjálfsmark. Mörk Gróttu skoruðu Margrét Edda Lian Bjarnadóttir og Díana Ásta Guðmundsdóttir. Selfoss fékk Aftureldingu í heimsókn á laugardag og vann sterkan 1:0-sigur. Katrín Ágústsdóttir skoraði sigurmark Selfyssinga.

Króatinn Zoran Vrkic hefur framlengt samning sinn við Breiðablik sem féll úr úrvalsdeild karla í körfubolta á síðasta tímabili. Zoran kom til Breiðabliks á miðju síðasta tímabili en hann hefur einnig spilað með Tindastóli og Grindavík hér á landi. Hann var að meðaltali með 13 stig og 6 fráköst í leik í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og tekur slaginn með Blikum í 1. deildinni á næsta tímabili.

Fjölnir endurheimti toppsæti 1. deildar karla í knattspyrnu með því að leggja Þór frá Akureyri að velli, 1:0, í Grafarvogi í 7. umferð deildarinnar á laugardag. Baldvin Þór Berndsen skoraði sigurmark Fjölnis. Grindavík heimsótti Leikni úr Reykjavík í Breiðholtið og vann 3:2. Var um fyrsta sigur Grindavíkur á tímabilinu að ræða og jafnframt fyrsta leik þjálfarans Haralds Árna Hróðmarssonar við stjórnvölinn. Einar Karl Ingvarsson, Dennis Moreno og Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoruðu mörk Grindvíkinga. Shkelzen Vezeli og Róbert Quental Árnason skoruðu fyrir Leikni. Loks gerðu Dalvík/Reynir og Keflavík markalaust jafntefli á Dalvík.

Bandaríski kylfingurinn Bryson DeChambeau tryggði sér í gærkvöldi sigur á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Lék hann hringina fjóra á sex höggum undir pari Pinehurst-vallarins í Norður-Karólínuríki. Er þetta annað stórmótið sem DeChambeau vinnur á ferlinum en hann vann sama mót árið 2020. Norður-Írinn Rory McIlroy var með forystuna stóran hluta lokahringsins í gær en hafnaði að lokum í öðru sæti á fimm höggum undir pari.

Þýska knattspyrnufélagið Fortuna Düsseldorf tilkynnti á laugardag að liðið væri búið að festa kaup á landsliðsmanninum Ísak Bergmanni Jóhannessyni. Ísak lék þar á láni á síðasta tímabili frá FC Köbenhavn en þýska félagið ákvað að nýta sér kaupákvæði í lánssamningnum og borgar Köbenhavn tvær milljónir evra, um 300 milljónir íslenskra króna, fyrir miðjumanninn. Düsseldorf leikur í B-deild.