Hofsjökull Myndarleg askja er undir jöklinum eins og Páll orðar það.
Hofsjökull Myndarleg askja er undir jöklinum eins og Páll orðar það. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Skúli Halldórsson sh@mbl.is

Fréttaskýring

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Skjálftavirkni í Hofsjökli hefur tífaldast á aðeins nokkrum árum. Ljóst þykir að megineldstöðin, ein sú tilkomumesta á landinu, er að vakna til lífsins. Hvað það þýðir er þó alls óvíst, enda hefur ekki gosið þar frá landnámi og jafnvel aðeins fimm sinnum á síðustu tíu þúsund árum.

Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, greinir frá þessu í samtali við Morgunblaðið. Hann segir virknina hafa tekið að aukast upp úr árinu 2020.

„Það er mjög greinilegt að það hefur orðið næstum tvöföldun á ári í fjölda skjálfta, og skjálftavirkninni eins og hún mælist,“ segir Páll. Spurður hvort þetta skýrist af því að fleiri mælitæki séu þar nú en áður svarar hann því neitandi.

„Það skýrist ekki af því. Það er hægt að ganga úr skugga um það.“

Aðspurður segir Páll mælingar við Hofsjökul ná allt til áttunda áratugarins. Skjálftavirknin nú víki frá öllum þeim mælingum svo ekki verði um villst.

Hlaup undan jöklinum

Hofsjökull er um 1.800 metra hár og rís upp af miðhálendinu, um 35 til 40 kílómetrar að þvermáli. Nokkur stórfljót má rekja til jökulsins, þar á meðal Þjórsá, Hvítá, Blöndu og Héraðsvötn.

Fjallað er um eldstöðina í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar frá árinu 2013. Þar segir að eðli jökulsins hafi lengi dulist mönnum, enda hafi eldvirkninnar ekki orðið vart í árþúsundir. Það hafi svo ekki verið fyrr en upp úr árinu 1970 sem vísindamenn áttuðu sig á því að undir ísnum leyndist gríðarmikil gosaskja.

„Þetta er virk eldstöð en sennilega með þeim allra lötustu af þeim eldstöðvum sem eru virkar á Íslandi. Það eru engin stór gos þekkt úr þessari eldstöð, en nokkur smáhraun hafa runnið síðan á ísöld,“ segir Páll.

Vart hefur orðið við hlaup undan jöklinum á síðustu árum, fyrst árið 2013, svo 2017 og loks aftur árið 2021. Í ágúst á síðasta ári barst Veðurstofu síðan tilkynning, frá landvörðum í Kerlingarfjöllum, um sterkan fnyk við Blágnípujökul sem skríður suðvestur úr meginjöklinum. Skjálfti af stærðinni 3,0 hafði þá riðið þar yfir kvöldið áður og nokkrir smærri fylgt í kjölfar hans.

Minnir á Eyjafjallajökul

Páll minnist á að eitt þeirra örfáu gosa sem orðið hafa á síðustu tíu þúsund árum hafi komið upp við Blágnípu.

Spurður hvað þessi aukna skjálftavirkni hafi í för með sér segir hann að lítið sé hægt að segja til um það.

„Þetta eru fyrstu vísbendingar um að það sé eitthvað um að vera í þessari eldstöð sem ekki hefur verið lengi. Næsta skref í þessu er að ganga betur úr skugga um hvað það gæti verið, en þetta beinir athyglinni að eldstöðinni,“ segir Páll og bætir við að þetta sé hin hefðbundna aðferðafræði sem notast er við gagnvart eldstöðvum landsins, þegar þær bæra á sér.

Atburðarásin minnir á það þegar virkni í Eyjafjallajökli uppgötvaðist að sögn Páls.

„Árin 1991 og 1992 komu skjálftar og greinileg virkni í þeirri eldstöð og síðan í kjölfarið fylgdu innskot árið 1994 og árin 1999 og 2009. Í fjórða skiptið, árið 2010, kom gos.“

Þannig hafi liðið um átján ár frá því að fjölgunar skjálfta varð vart og þangað til upp kom eldur. „Hugsanlega erum við að líta á eitthvert svoleiðis ferli, sem gæti verið lengra.“

Engin mælitæki eru uppi við Hofsjökul til að vísindamenn geti numið landris á svæðinu.

„Það yrði næsta skref í eftirlitinu, að byrja mælingar á landrisi. Það er erfitt að mæla landris í eldstöð sem er undir jökli,“ segir Páll. Þó kunni að vera hægt að koma fyrir GPS-mælitækjum á þeim jökulskerjum sem skaga upp úr jöklinum, svo sem á barmi öskjunnar.

Hylur myndarlega öskju

Jökullinn rýrnaði að rúmmáli um nær 25% frá árinu 1890 og fram til ársins 2019. Síðan þá hefur hann aðeins haldið áfram að rýrna.

Þessi rýrnun jökulsins síðustu ár, hún hlýtur að gera eldstöðinni auðveldara að láta á sér bæra?

„Já, það er eitt sjónarhornið á þetta. Þetta kann að vera athyglisverð tilraun í eldvirkni. Samkvæmt öllum fræðum ætti minnkandi farg á skorpunni að hvetja til kvikuvirkni og kvikumyndunar. Eldstöðvar ættu að hressast við það,“ segir Páll.

„Spurningin er bara hversu mikið það er, og það eru rannsóknarverkefni í gangi núna sem miða að því að reyna að skilja þetta betur.“

Prófessorinn tekur að lokum fram að þau eldgos sem þekkt eru í eldstöðinni hafi að líkindum verið meinlaus hraungos. „Það er vafasamt jafnvel að þess yrði vart í byggð, ef það verður ekki meira en það,“ segir hann um mögulegan jarðeld við jökulinn.

„Hins vegar getur maður ekki horft framhjá því að þetta er megineldstöð og hún á örugglega til ýmis tilbrigði við þetta. Það er jú myndarleg askja undir jöklinum,“ segir Páll.

„Hún á örugglega ýmsa takta til ef til þess kemur.“

Höf.: Skúli Halldórsson