Eldgos Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir yfirfallið í nyrðri pollinum draga úr hættu á hraunflæði yfir Grindavíkurveginn.
Eldgos Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir yfirfallið í nyrðri pollinum draga úr hættu á hraunflæði yfir Grindavíkurveginn. — Morgunblaðið/Eggert
Í gær flæddi úr nyrðri hraunpollinum í eldgosinu við Sundhnúkagíga. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að yfirfallið sé jákvæð þróun á eldgosinu

Guðrún Sigríður Arnalds

gsa@mbl.is

Í gær flæddi úr nyrðri hraunpollinum í eldgosinu við Sundhnúkagíga. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að yfirfallið sé jákvæð þróun á eldgosinu. „Vegna þessa dregur úr hættunni á að hraun fari að flæða aftur yfir Grindavíkurveg og að það sé einhver hreyfing norðan við Sýlingarfellið.”

Þorvaldur bætir við að gangurinn í eldgosinu sé mjög svipaður og hann hefur verið undanfarið.

„Það bullar þarna í gígnum, kvikan safnast svolítið fyrir í tvo polla þar sitt hvorum megin við gíginn.“

Þorvaldur segir að heldur mikið hraun sé komið í pollinn sem er sunnan megin við aðalgíginn, en að ekki sjáist mikil hreyfing í gosinu núna þar sem það flæðir úr þeim polli, sennilega eftir lokuðum rásum frá einhverjum gíg. „Mesta virknin í hraunflæðinu virðist vera við nyrðri pollinn og í kringum gígana, eins og var í síðasta gosi, en eitthvað er að flæða úr honum í suðvestur, þannig að það gæti dregið úr hraunflæðinu til norðurs.“

Landris er nú frekar hægt, en þó á svipuðum dampi og það var fyrstu dagana í síðasta gosi. „Ef það heldur áfram í svona hægagangi, þá mun taka lengri tíma að fylla kvikugeymsluna undir Svartsengi,“ segir Þorvaldur. „Þetta gæti svolítið lullað eitthvað áfram eins og er, en svo hættir gosið. Síðan er bara spurning hvort kerfið hafi nægilega mikla uppsafnaða orku til að fara í annað gos eða hvort þetta lognast út af.“

Þorvaldur segir þó erfitt að sjá fyrir hvenær gosinu ljúki, en þó sé enn von á því að það hætti á endanum, á meðan enn er að hægjast á innflæðinu úr stóru kvikugeymslunni að neðan upp í þá grunnu.

„Þá gæti flæðið á endanum orðið það lítið að það nái ekki að haldast gangandi lengur, en það er auðvitað að öllu óbreyttu. Það getur alltaf eitthvað gerst, til dæmis getur einn góður skjálfti breytt öllu. Þetta er allavega að stefna í jákvæða átt.“

Höf.: Guðrún Sigríður Arnalds