Víkingur, Valur, Breiðablik og Stjarnan komast að því í dag hverjir mótherjar þeirra verða í fyrstu umferð í undankeppnum Evrópumóta karla í fótbolta.
Víkingar eru í neðri styrkleikaflokki í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar og mæta einu af eftirtöldum fimm liðum:
HJK Helsinki, Finnlandi
Flora Tallinn, Eistlandi
KÍ Klaksvík, Færeyjum
Shamrock Rovers, Írlandi
RFS Riga, Lettlandi
Í fyrra féllu Víkingar út í 1. umferð Sambandsdeildar gegn Riga frá Lettlandi. RFS Riga er efst þar í landi núna þegar tímabilið er hálfnað, fimm stigum fyrir ofan granna sína í Riga.
KÍ Klaksvík náði frábærum árangri í fyrra þegar liðið komst fyrst færeyskra liða í riðlakeppni Sambandsdeildar og krækti þar í fjögur stig. KÍ gengur ekki eins vel heima og í fyrra og er sex stigum á eftir Víkingi Götu og HB þegar deildin er hálfnuð.
Shamrock Rovers tapaði tvívegis fyrir Breiðabliki í 1. umferð keppninnar í fyrra en Blikar unnu 1:0 í Dublin og 2:1 á Kópavogsvelli. Shamrock er í þriðja sæti á Írlandi þegar deildin þar er rúmlega hálfnuð.
HJK fór í riðlakeppni
HJK er í þriðja sæti í Finnlandi, tveimur stigum frá toppnum, þegar deildin þar er hálfnuð. HJK komst í riðlakeppni Sambandsdeildar í fyrra og fékk tvö stig með tveimur jafnteflum gegn Aberdeen frá Skotlandi.
Flora Tallinn er í öðru sæti í Eistlandi þegar deildin er ríflega hálfnuð, tíu stigum á eftir Levadia. KR tapaði naumlega fyrir Flora, 2:1, á útivelli árið 2020 þegar aðeins var leikinn einn leikur.
Í Sambandsdeildinni er Breiðablik í efri styrkleikaflokki eftir góðan árangur undanfarin ár. Blikar mæta einu af þessum fimm liðum þar sem Írarnir í Shelbourne gætu verið erfiðastir en þeir eru á toppnum á Írlandi í dag:
Floriana, Möltu
Shelbourne, Írlandi
Atlétic Club Escaldes, Andorra
Tikvesh, Norður-Makedóníu
Caernarfon Town, Wales
Valur er í neðri styrkleikaflokki og mætir einu af þessum liðum:
KuPS Kuopio, Finnlandi
B36 Þórshöfn, Færeyjum
Levadia Tallinn, Eistlandi
Connah’s Quay, Wales
Vllaznia, Albaníu
Tvö lið í toppsætum
Levadia og KuPS eru efst í sínum deildum, Vllaznia gæti verið erfiðasti mótherjinn en Connah’s Quay er þekkt stærð eftir að hafa tapað 2:0 og 2:0 fyrir KA í fyrra.
Stjarnan er í neðri styrkleikaflokki og mætir einu af þessum liðum:
Zalgiris, Litáen
Linfield, Norður-Írlandi
Paide Linnameeskond, Eistl.
Liepaja, Lettlandi
Derry City, Írlandi
Zalgiris og Derry City eru líklega sterkust af þessum liðum en Liepaja er í fallbaráttu í Lettlandi.