[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sandra María Jessen, framherji og fyrirliði Þórs/KA, var besti leikmaðurinn í áttundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Sandra var eina ferðina enn í aðalhlutverki og skoraði tvö mörk þegar Þór/KA sigraði Stjörnuna á sannfærandi hátt í Garðabæ á laugardaginn, 4:1

Sandra María Jessen, framherji og fyrirliði Þórs/KA, var besti leikmaðurinn í áttundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Sandra var eina ferðina enn í aðalhlutverki og skoraði tvö mörk þegar Þór/KA sigraði Stjörnuna á sannfærandi hátt í Garðabæ á laugardaginn, 4:1.

Þetta er í annað sinn í fyrstu átta umferðunum sem Sandra er leikmaður umferðarinnar en það var hún líka í annarrri umferðinni í vor þegar hún gerði öll fjögur mörk Þórs/KA í sigri gegn FH í Kaplakrika, 4:0.

Hún var ennfremur útnefnd besti leikmaður apríl og maí hjá Morgunblaðinu en Sandra var efst í einkunnagjöf Morgunblaðsins eftir fyrstu sex umferðirnar. Það hefur ekkert breyst því Sandra er langefst í M-gjöfinni eftir átta umferðir. Hún hefur samtals fengið 10 M fyrir leikina átta á þessu tímabili en næstu leikmenn á eftir henni hafa fengið sjö M.

Sandra náði líka stórum áfanga á laugardaginn þegar hún skoraði sitt 100. mark í deildinni, og raunar það 101. líka. Þar með varð hún fimmtándi leikmaðurinn í sögunni til að skora hundrað mörk í efstu deild kvenna hér á landi en Sandra er nú komin með 12 mörk í fyrstu átta leikjunum og er langmarkahæst í deildinni.

Sandra er ein af þremur leikmönnum Þórs/KA sem eru í úrvalsliði áttundu umferðar enda fékk Akureyrarliðið samtals átta M fyrir leikinn gegn Stjörnunni.

Sandra er í úrvalsliði Morgunblaðsins í fjórða skipti í fyrstu átta umferðunum en sama er að segja um Amöndu Andradóttur úr Val sem er líka í fjórða sinn í liðinu eftir frammistöðu sína í sigri Vals á Fylki, 4:1.

Níu af ellefu leikmönnum í liði umferðarinnar hafa verið valdir áður á þessu tímabili þannig að nýliðarnir eru aðeins tveir, Hafdís Bára Höskuldsdóttir, sem skoraði fyrir Víking í jafntefli gegn Tindastóli, 1:1, og Hildur Anna Birgisdóttir sem átti frábæra innkomu, mark og stoðsendingu eftir aðeins fjórar mínútur í leik Þórs/KA gegn Stjörnunni.