[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vandasamt virðist vera að beita stýrivöxtum án verulegrar hættu á miklum aukaverkunum!

Jóhann Rúnar Björgvinsson

Samantektin í töflu sýnir að vaxtatekjur þriggja stærstu bankanna hafa ríflega tvöfaldast frá árinu 2021 eða úr 179 milljörðum króna í 411 milljarða króna árið 2023 og á sama tíma hafa kröfur þeirra á viðskiptavini hækkað um tæplega 18% eða úr 3.410 í 4.007 milljarða króna. Sú staðreynd að vaxtakostnaður heimilanna hafi farið úr 93 milljörðum 2021 í 204 milljarða króna[i] 2023 er að sjálfsögðu mjög íþyngjandi fyrir þau og dregur verulega úr kaupgetu þeirra.

Frá hagfræðilegu sjónarhorni er hins vegar áhugaverðara að vita hvernig „fyrirtækin og aðrir viðskiptavinir“ bregðast við þessari miklu hækkun vaxtakostnaðar sem að stórum hluta eru á lánastokk (á lán sem þegar hafa verið tekin), en samkvæmt lauslegum útreikningum hafa vaxtagreiðslur þeirra til bankanna hækkað úr 77 milljörðum króna árið 2021 í 189 milljarða króna árið 2023. Ef til vill eru mörg fyrirtæki nauðbeygð til að mæta þessari íþyngingu með verðhækkunum, en megintilgangur stýrivaxtahækkana er að slá á verðhækkanir, þ.e. að draga úr verðbólgu, sjá töflu.

Hér áður fyrr þegar hagvísindin voru numin/krufin var áhersla vaxtabreytinga fyrst og fremst á áhrifin á fjárfestingaáform, þ.e.a.s. að hærri vextir drægju úr fjárfestingaáformum og lægri ýttu undir ný áform (hér var hugað að flæðinu á jaðrinum til að auka/draga úr efnahagsumsvifum). Nú eru vextir breytilegir með skilyrðum og/eða verðtryggðir og leggjast einnig á lánastokkinn, þannig að hagaðilar renna í raun blint í sjóinn með fjárfestingaákvarðanir sínar. Árið 2021 voru stýrivextir til dæmis innan við 1% og nýttu fjölmargir sér þau hagstæðu skilyrði, en tveimur árum síðar voru stýrivextirnir komnir í ríflega 9% með tilheyrandi aukningu í vaxtabyrði heimila og fyrirtækja eins og fram hefur komið.

Af ofangreindu má ráða að mjög vandasamt virðist vera að milda ytri eftirspurnarsveiflur með stýrivaxtabreytingum án verulegrar hættu á miklum aukaverkunum. Margir gagnstæðir kraftar geta verið að verki samtímis sem vinna gegn settum markmiðum. Til að draga úr alvarlegum skaða ytri sveiflna (t.d. í túrisma) þyrfti líklega meiri stuðning við peningastefnuna með beinum aðgerðum þannig að jafnvægi hagkerfisins raskist ekki um of. Ein leið væri að styrkja verulega haggreiningu til að sjá sveiflur fyrir og æskilegar mótvægisaðgerðir. Í nýlegum lögum um opinber fjármál er önnur meginstoð þeirra laga hagstjórnarstoðin (sbr. ÞHS) sem ekki hefur verið virkjuð sem skyldi, en megináherslan hefur verið á fjárlagastoðina eins og í fyrri lögum en þó með meiri framtíðasýn (fjármálastefnu og fjármálaáætlun).

Höfundur er fv. starfsmaður ÞHS, FJR og AGS.

Höf.: Jóhann Rúnar Björgvinsson