Gerd Ellen Skarpaas fæddist í Ósló í Noregi 18. júní 1936. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 3. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Torstein Skarpaas, prestur og trúboði, og Gunvor Skarpaas. Systkini Gerd voru Knut, Eva, Bjørn, Liv og Ingrid.

Gerd ólst upp á Madagaskar til níu ára aldurs, þar sem foreldrar hennar störfuðu sem trúboðar. Yngri systur Gerd, Liv og Ingrid, létust barnungar á Madagaskar. Fjölskyldan flutti aftur til Noregs eftir stríð árið 1945 en skömmu eftir heimkomuna lést Torstein, faðir Gerd, eftir baráttu við krabbamein.

Gerd bjó í Ósló með móður sinni og eldri systkinum þar til árið 1956. Eftir að hafa lokið verslunarskólanámi í Ósló fór Gerd til Íslands til að sinna sumarvinnu á Þingvöllum hjá föðursystur sinni og eiginmanni hennar, Astrid og Jóhanni Hannessyni, presti og þjóðgarðsverði. Á Þingvöllum kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum, Einari Stefáni Einarssyni múrarameistara, f. 27. apríl 1932. Þau gengu í hjónaband sumarið 1957.

Gerd og Einar eignuðust fimm börn saman en fyrir átti Einar dóttur, Ástu, f. 18. maí 1956. Börn þeirra hjóna eru: Einar Þorsteinn, f. 31. desember 1957, Orri, f. 7. apríl 1959, Bjarni Rúnar, f. 5. janúar 1961, Sverrir Þór, f. 2. maí 1962, d. 26. júlí 2020, og Eva, f. 18. maí 1971. Gerd og Einar eignuðust 14 barnabörn, 11 barnabarnabörn og eitt barnabarnabarnabarn.

Gerd starfaði lengst af sem heimavinnandi húsmóðir. Þegar börnin voru komin á legg hóf Gerd störf í Borgarljósum og síðar á handavinnustofunni á Hrafnistu DAS í Reykjavík þar sem hún lauk sínum starfsferli. Gerd lauk jafnframt einu ári í félagsfræði við Háskóla Íslands, þá á sextugsaldri.

Gerd og Einar bjuggu lengst af í Norðurbrún 28, Reykjavík, í einbýlishúsi sem Einar byggði fyrir fjölskylduna og þar bjuggu þau í ríflega fjörutíu ár. Árið 2014 fluttu þau hjónin í fallega íbúð í Mörkinni og bjuggu þar saman þar til í ágúst 2021, en þá flutti Gerd á hjúkrunarheimilið Skjól í kjölfar erfiðra veikinda. Rúmu ári síðar flutti Einar til hennar á Skjól og voru þau bæði þakklát fyrir að fá að vera saman og geta hlúð hvort að öðru síðasta spölinn.

Útför Gerd fer fram frá Langholtskirkju í dag, 18. júní 2024, klukkan 13.

Útförinni verður streymt á eftirfarandi slóð:

www.skjaskot.is/gerd

Ég held ég hafi alltaf vitað að ég átti eitthvað alveg sérstakt, alveg frá því ég man eftir mér. Ég átti mömmuna með hlýjasta faðminn, sem hlustaði alltaf með athygli, gaf skilyrðislaust og passaði upp á alla aðra. En ég átti líka mömmuna sem passaði ekki alveg nógu mikið upp á sig.

Mamma mín átti þrjár uppáhaldsbíómyndir. Við horfðum örugglega á þær hundrað sinnum saman. Thelma and Louise, Fried green tomatos og Shawshank redemption. Allar eiga þær það sameiginlegt að segja sögur af góðum manneskjum sem eru fastar í fjötrum, en finna svo að lokum leiðina til frelsis. Það er engin tilviljun að mamma mín elskaði þessar myndir.

Mamma átti viðburðaríkt líf sem var litað miklum missi. Áður en hún kom til Íslands, þá tvítug, hafði hún misst tvær yngri systur og pabba sinn. Á Íslandi gripu örlögin í taumana, hún hitti pabba og eitt sumar varð að tæplega sjötíu árum. Það var vægast sagt flókið og erfitt fyrir norska trúboðadóttur að aðlagast íslenskum veruleika, með lítið stuðningsnet. Fjötrar skyldurækni og feðraveldis. Fjórir strákar og svo loksins stelpa. Mamma mín elskaði systur sína meira en allt, þær voru sálufélagar Eva og hún. Mamma sagði mér hundrað sinnum söguna af því að í hvert skipti sem bræður hennar eignuðust stelpur, þá hélt hún niðri í sér andanum fram yfir skírn … þvílíkir kjánar að skíra ekki í höfuðið á Evu og þar með átti hún nafnið, fyrir mig. Stóri harmurinn í lífi mömmu var að missa Evu systur sína úr krabbameini 56 ára gamla. Þær sem ætluðu að ferðast saman og njóta þegar börnin væru uppkomin. Harkaleg lexía, ekki bíða þangað til seinna. Við lærðum það.

Þegar ég varð fullorðin tók ég við hlutverkinu, bæði sem sálufélagi og ferðafélagi. Á ferðalögunum okkar vorum við Thelma og Louise, við vorum Idgie og Ruth, við vorum Andy og Red á ströndinni, frjálsar. Ég ákvað að taka upp Skarpaas-nafnið og gefa börnunum mínum það líka. Mamma var svo glöð, „en hvað um mig?“ … Hún hafði gefið eftir nafnið sitt þegar hún giftist. Við náðum í það aftur. Mamma var hjá mér þegar ég fæddi Gabríel og klippti á naflastrenginn. Hún var alltaf til staðar fyrir mig og mína. Við ólum upp börnin mín saman, prjónuðum saman, ferðuðumst saman, lásum saman, hlógum endalaust saman, grétum stundum saman og töluðum saman alla daga, um allt.

Þegar við misstum hann Gabríel okkar brast eitthvað endanlega í mömmu minni. Það var of mikið, hún byrjaði að veikjast og missti hreint og beint lífsviljann. Tæpu ári síðar misstum við hann Sverri okkar og svo hana tante Åse sem var okkur svo kær og onkel Bjørn. Hana langaði ekki meir.

Lífið getur verið svo brútal. Mamma mín eyddi síðustu árunum sínum í fjötrum hryllilegs taugahrörnunarsjúkdóms. Elsku mamma mín, hvað ég hefði gefið fyrir frelsi fyrir þig frá öllum þeim fjötrum sem lituðu líf þitt.

Ég fékk að halda utan um mömmu mína þegar hún fór. Hvíslaði í eyrað á henni aftur og aftur: ég elska þig mamma, ég verð ok, þú mátt sleppa …

Þín

Eva.

Núna kveðjum við Gerd Ellen Skarpaas, kæra vinkonu og tengdamóður. Gerd var norsk, foreldrar hennar voru Gunvor og Torsten Skarpaas. Gerd var eins árs þegar þau fluttu til Madagaskar þar sem fjölskyldufaðirinn var prestur og trúboði. Gerd átti 5 systkini en tvær yngstu stelpurnar létust á barnsaldri. Árið 1945 fluttu þau aftur heim til Noregs, þá var faðir hennar veikur af krabbameini og lést í kjölfar þess. Í Osló hélt hún áfram sinni skólagöngu og útskrifaðist sem stúdent úr verslunarskóla. Eftir stúdentsprófið langaði hana að gera eitthvað annað en að fara beint að vinna og skrifaði hún föðursystur sinni Astrid Hannesson sem var gift Jóhanni Hannessyni presti á Þingvöllum. Torstein og Jóhann höfðu kynnst í trúboðaskólanum á sínum tíma og höfðu Astrid og Jóhann verið trúboðar í Kína. Astrid svaraði um hæl og bauð Gerd að koma og dvelja um sumarið á Þingvöllum. Þetta var afdrifarík ferð því á Þingvöllum kynntist Gerd ungum myndarlegum pilti, Einari Stefáni Einarssyni, sem var þar í vinnumennsku. Þarna voru örlögin ráðin, um fallegt íslenskt sumar á einum fallegasta stað landsins.

Gerd og Einar giftu sig árið 1957 og þau eignuðust 5 börn en fyrir átti Einar eina dóttur. Gerd var einstaklega mikil málamanneskja, talaði nokkur tungumál og og lagði metnað sinn í að tala óaðfinnanlega íslensku, málfræðina þekkti hún betur en margur Íslendingurinn. Gerd var ákaflega fróð um allskonar hluti og hafði áhuga á þjóðmálum og hafði sterkar skoðanir þó að hún léti þær ekki alltaf í ljós, hógværðin var henni í blóði borin. Hún hafði ákaflega gaman af því að ferðast um heiminn og fóru þau Einar í margar ferðir á framandi slóðir en ferðinni var oftar en ekki heitið til Noregs en Gerd hélt góðum og sterkum tengslum við systkini sín og fjölskyldur þeirra sem og móður sína á meðan hún lifði.

Gerd var ákaflega afkastamikil og vandvirk handavinnukona og eftir hana liggja ófáar peysurnar og allskonar verk stór og smá, enda vann hún síðustu starfsárin sín á Hrafnistu við að leiðbeina í handavinnunni þar, ég veit að hún fékk að njóta sín þar og hafði mjög gaman af vinnunni og að umgangast fólkið þar. Lífið var ekki alltaf auðvelt en hún tók því sem að höndum bar með jafnaðargeði. Gerd sá alltaf það besta í fólki og fjölskyldan var henni allt. Síðustu árin voru sérstaklega erfið, missir sonar og barnabarns og sjúkdómurinn sem hún greindist með tók frá henni svo margt, lífsgæðin voru ekki söm. Mér og mínum börnum var hún ákaflega góð og gott að leita til hennar.

Takk elsku Gerd fyrir allar góðu stundirnar, fyrir alla aðstoðina í gegnum árin og fyrir einstaka vináttu.

Dagný.