Félagsvísindi Höfundur bókarinnar Einmana, Aðalbjörg Stefanía, leggur stund á doktorsnám í félagsvísindum.
Félagsvísindi Höfundur bókarinnar Einmana, Aðalbjörg Stefanía, leggur stund á doktorsnám í félagsvísindum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einmanaleiki Sá fræðimaður sem hvað mest hefur rannsakað einmanaleika og breytt skilningi á og fræðilegri nálgun að fyrirbærinu var John Cacioppo (1951–2018). Hann lét nærri því lífið í bílslysi þegar hann var ungur og það umbylti framtíðaráætlunum hans og viðhorfum til lífsins

Einmanaleiki

Sá fræðimaður sem hvað mest hefur rannsakað einmanaleika og breytt skilningi á og fræðilegri nálgun að fyrirbærinu var John Cacioppo (1951–2018). Hann lét nærri því lífið í bílslysi þegar hann var ungur og það umbylti framtíðaráætlunum hans og viðhorfum til lífsins. Í stað þess að fara í laganám, líkt og hugur hans hafði staðið til, sneri hann sér að sálfræði og varði starfsævinni í að dýpka þekkingu fólks á mannlegu eðli, afleiðingum lífsreynslu á líðan og áhrifum samskipta og tengsla á hamingju og farsæld fólks. Niðurstaða hans var að kærleikur og félagstengsl væru það mikilvægasta í lífinu. Ef við nytum hvorugs yrðum við einmana, það er að segja, félagslega einangruð og án tengsla. Í tengslum er falin orkan sem ríkir á milli okkar þegar annað fólk sér okkur, hlustar, metur og viðurkennir, þegar við getum gefið og þegið án þess að dæma og þegar tengslin endurnæra okkur, styrkja og efla. Að deila hugsunum sínum og líðan með einhverjum sem við treystum dýpkar tengslin, ekki síst vegna þess að aðilinn sem við tölum við deilir sínum tilfinningum einnig með okkur. Tengsl gefa af sér tengsl.

Líkami okkar og hugur er í öllum meginatriðum eins og fyrir 50 þúsund árum síðan. Þróunarfræðilega séð hvíldi möguleikinn á að lifa af á góðum tengslum og samskiptum við aðra. Lífsbaráttan krafðist samvinnu sem náttúruval verðlaunaði forfeður okkar og formæður fyrir. Hver manneskja fæddist inn í hóp 50–150 annarra og hélt sig yfirleitt innan hans ævina á enda. Að vera útskúfað úr hópnum ógnaði lífi fólks með raunverulegum hætti vegna þess að það leiddi ekki einungis til þess að viðkomandi gæti ekki fjölgað sér, heldur naut hann ekki lengur verndar hópsins og hafði ekki aðgang að fæðu. Til að koma í veg fyrir útilokun þróaðist innra með okkur félagslegt næmi gagnvart höfnun; sérstakt varúðarkerfi sem sér til þess að við látum af hegðun sem einangrar okkur. Þess vegna vekur höfnun, missir og skortur á tengslum með okkur líkamlega þjáningu og andlega vanlíðan – öðru nafni einmanaleika.

Eftir því sem heili okkar þroskaðist urðum við bæði færari í að átta okkur á því hvernig öðrum líður og í að mynda og viðhalda félagstengslum og enn í dag erum við líffræðilega stillt inn á að vera hvert með öðru. Við eflumst og okkur líður vel ef við sameinum krafta okkar og getu til að gera áætlanir, vinna saman og eiga í samskiptum. Tengslaþörfin er ein af grunnþörfum manneskjunnar, eins og Abraham Maslow sýndi fram á árið 1943, og einmanakenndin hefur þann skýra tilgang að láta okkur vita að við þörfnumst tengsla og viðurkenningar. Rétt eins og hungur lætur okkur vita að blóðsykurinn sé of lágur og við þurfum að nærast og þorsti segir okkur að við þurfum vökva til að ofþorna ekki. Það er jafn hættulegt að hunsa einmanaleika eins og hungur og þorsta. Ef við erum einmana en viðurkennum það ekki, getur það leitt til þess að við verðum neikvæð gagnvart tengslum og samskiptum, gefum okkur að annað fólk vilji okkur ekki vel og ýtum fólki enn fjær með allt að því fjandsamlegri framkomu. En ef við viðurkennum einmanaleikann og horfumst í augu við það sem orsakaði hann getur hann falið í sér mikilvæg verðmæti. Í kjölfarið komumst við nær því að verða þroskaðar, fullorðnar manneskjur sem getum ekki aðeins bjargað okkur upp á eigin spýtur heldur líka verið öðrum stoð og stytta. Það eru í húfi ómetanleg verðmæti fyrir samfélagið allt.

Einmanaleiki getur fylgt andlegum áskorunum og geðröskunum – ýmist sem orsök eða afleiðing. Sálfélagslegur einmanaleiki kemur í kjölfar aðstæðubundinna breytinga eða tímabundins aðskilnaðar. Hann er almennur, víðtækur og óþægilegur og segja má að hann sé annars stigs einmanaleiki því hann kemur fram í kjölfar annars ástands eða aðstæðna. Orsökinni má skipta í þrjá meginliði. Í fyrsta lagi vegna félags- og menningarlegra áhrifaþátta, sjálfsmyndar og persónuleika, aðstæðna og lífsstíls sem móta væntingar okkar og þarfir fyrir tengsl og samskipti og sem raunveruleg sambönd okkar og tengsl byggjast á. Í öðru lagi atburðir eins og búferlaflutningar, atvinnu- og ástvinamissir sem henda okkur og hafa áhrif á líf okkar á tilteknu æviskeiði og geta breytt jafnvæginu sem ríkir á milli þeirra samskipta sem okkur bjóðast og þeirra sem við þörfnumst. Í þriðja lagi hugsanir og tilfinningar okkar sjálfra sem geta haft áhrif á færni okkar til að takast á við aðstæður. Dæmi um hugsanir og spurningar sem geta látið á sér kræla eru „er þetta mér að kenna?“, „ræð ég einhverju um þetta“ og „verður þetta alltaf svona?“. Einmanaleika má gróflega skipta í tvo flokka, sem ræðst af ástæðum þess að við erum einmana. Annars vegar er tilfinningalegur einmanaleiki sem endurspeglast í sárri tómleikakennd í kjölfar ástvinamissis, sambandsslita, hjónaskilnaðar, vinslita, erfiðrar lífsreynslu eða skorts á trausti og stuðningi í sambandi. Hins vegar félagslegur einmanaleiki sem er tilkominn vegna skorts á gæðum og nánd í tengslum, til dæmis þegar við getum ekki tjáð það sem er okkur mikilvægt, á okkur er ekki hlustað, rödd okkar heyrist ekki og okkur finnst við vera ósýnileg. Þau samskipti sem við eigum við aðra uppfylla ekki þarfir okkar fyrir merkingarbær og innihaldsrík tengsl. Einmanakennd er þó umfram allt huglæg og einstaklingsbundin tilfinning; hún er það sem þú, ég og við öll upplifum að hún sé, hvert á sinn hátt.

Einmana í nánum tengslum

Árangursríkasta leiðin til að dýpka náin tengsl er að berskjalda sig og tjá tilfinningar sínar. Þar skiptir máli að báðir aðilar séu færir um að hlusta, báðir finni að á sig sé hlustað og að báðir geti verið til staðar hvor fyrir annan. Um leið og við skynjum að manneskjan sem við eigum í nánustu tengslunum við hlustar á okkur, þá finnum við til öryggis og viðurkenningar, bæði tilfinningalega og vitsmunalega. Einmanaleikinn getur orðið alltumvefjandi ef hlustunina, viðurkenninguna og skilninginn skortir. Líkt og Sól, ung kona sem hefur ekki verið í sambandi í nokkur ár, lýsir: „Mér finnst ég hafa verið hvað mest einmana þegar ég átti maka. Þegar hann lét eins og ég væri ekki til. Ég skipti ekki máli. Ég gerði allt vitlaust og fékk svo sannarlega að heyra það. Ég fann að mér myndi hugsanlega líða betur einni. Þegar ég sé aðra tala við sína maka þá átta ég mig á að ég gat aldrei talað við minn maka og þess vegna var ég meira einmana þá.“