Guðrún Birna Blöndal fæddist í Reykjavík 1. júní 2009. Hún lést á heimili sínu í Kópavogi 4. júní 2024.

Foreldrar hennar eru Þorsteinn Þorkelsson, f. 9. nóvember 1966, og Elín Blöndal, f. 27. mars 1966. Systkini Guðrúnar Birnu eru Eiríkur, f. 11. september 2001, og Steinunn Katrín, f. 11. febrúar 2004.

Guðrún Birna var nemandi í Smáraskóla í Kópavogi. Hún stundaði körfubolta með Stjörnunni og síðar Breiðabliki þar til hún veiktist snemma árs 2022. Hún var mikill náttúruunnandi og hafði sterka sýn á lífið og tilveruna.

Jarðsett verður frá Neskirkju í dag, 18. júní 2024, klukkan 13.

Þú komst inn í líf okkar í byrjun sumars fyrir rúmum fimmtán árum og kvaddir okkur á sama árstíma, þremur dögum eftir afmælisdaginn þinn. Þú varst alltaf einstök, ekkert eitt lýsingarorð nær utan um þinn einstaka persónuleika. Spurðir spurninga, strax sem lítið barn, sem við áttum stundum fá svör við. Næm á fólk, náttúru, umhverfi og víddir. Vissir alltaf hvað þú vildir og hafðir sterka sýn en varst óhrædd við að skipta um markmið og leiðir að þeim þegar á þurfti að halda. Húmorinn þinn var óborganlegur og hjálpaði þér og okkur hinum svo mikið þegar á leið. Þegar þú varst lítil varst þú strax komin með markmið og þegar þú varst spurð hvað þú ætlaðir að verða þegar þú yrðir stór sagðir þú stundum að þú ætlaðir að verða læknir og borða grjónagraut (sem okkur fannst mjög fyndið en síðar vildir þú ekki kannast við þetta með grjónagrautinn), seinna var það geimvísindakona og þú safnaðir þér fyrir stjörnusjónauka af bestu gerð. Kynntir þér geiminn og vissir ótrúlegustu hluti um stjörnur, plánetur o.fl.

Eftir að þú veiktist vafðist ekki fyrir þér að breyta um kúrs og þá var það m.a. Formúlan sem tók yfir og áhugi á að starfa sem fréttakona í hringiðu hennar. Meðal þinna einstöku eiginleika voru seiglan og þolinmæðin, þú gast til dæmis staðið tímunum saman með veiðistöngina við ána eða vatnið jafnvel þó enginn væri fiskurinn, vonin var alltaf til staðar. Þú gast setið einbeitt við að kubba legó úr þúsundum lítilla kubba, jafnvel þó þú værir mjög lasin og úr urðu listaverk, eins og McLaren-kappakstursbíllinn og hlutir úr ævintýraveröld Harry Potter.

Ævintýri voru þínar ær og kýr, hvort sem það var að búa þau til með fjölskyldunni heima, á ferðalögum eða þá að upplifa þau í gegnum bóklestur og kvikmyndir. Það var ómetanlegt að geta uppfyllt margar af þínum síðustu óskum og fá tíma með þér til að upplifa ný ævintýri, s.s. með fjölskyldunni á Tenerife og síðan á Flórída, en einn af þínum draumum var að komast þangað. Við gleymum aldrei deginum sem við áttum með þér í Barnes&Noble-bókabúðinni, við vorum þar í margar klukkustundir og þú valdir þér bækur sem þú ætlaðir þér að lesa þegar þú gætir ekki ferðast lengur. Þú valdir þær vandlega því þú vissir að tíminn væri takmarkaður. Ekkert okkar grunaði samt að tíminn væri svona naumur og að þessar bækur yrðu ekki lesnar. Þér var ekki hugað líf á spítalanum eftir að við komum heim en eins og svo oft áður reist þú upp með bjartsýnina að vopni og náðir að vera heima með okkur síðustu dagana. Við erum óendanlega þakklát læknum og hjúkrunarfólki Barnaspítalans o.fl. sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, líka til að þú gætir verið heima þessa daga. Þú ætlaðir þér að halda upp á 15 ára afmælið og það tókst, enn eitt verkefnið
sem þurfti að ljúka.

Elsku engillinn okkar, það er svo þungbært að kveðja þig en þú munt alltaf vera með okkur, andinn þinn er svo sterkur og við finnum fyrir honum þó þú sért ekki lengur í þessari jarðvist. Þú munt lifa áfram í hjarta okkar og huga þar til við hittumst á ný.

Þín

mamma og pabbi.

Elsku Guðrún Birna, litla systir okkar og vinur okkar. Þú varst svo klár, fyndin, skemmtileg og ákveðin. Okkur fannst oft eins og við værum að tala við jafnaldra okkar, þú varst svo þroskuð og vissir oft hluti sem börn á þínum aldri áttu ekki að vita, enda varst það oft þú sem leiðréttir okkur en ekki öfugt. Orð geta ekki lýst því hversu mikið við söknum þín, við höfum alltaf verið svo stolt af þér og að eiga þig sem systur. Þú kenndir okkur svo margt og við munum gera allt til að heiðra minningu þína eins vel og við getum. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman, þótt hann hafi verið alltof stuttur. Þú hélst alltaf áfram og þrautseigjan sem þú sýndir í viðureigninni við krabbameinið var aðdáunarverð, það var í raun ótrúlegt hversu mikið þú neitaðir að gefast upp og náðir alltaf að finna kraft til að halda áfram og berjast gegn þessum hræðilega sjúkdómi. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig heima hjá okkur síðustu dagana, það voru ómetanlegar stundir sem við fengum með þér undir lokin. Þú ætlaðir að ná að halda upp á afmælið þitt sem þú að sjálfsögðu náðir að gera, alltaf þegar þú ætlaðir þér eitthvað þá gerðirðu það. Eftir að við fengum fréttirnar um að það væri ekki mikið eftir þá vorum við alveg niðurbrotin, en reyndum eins og við gátum að nýta tímann með þér. Við erum þakklát fyrir að hafa náð að ferðast saman undir lokin, Tenerife-ferðin okkar eftir að við fengum fréttirnar um að krabbameinið yrði ekki læknað verður alltaf minnisstæð og líka síðasta ferðin sem við systkinin fórum saman í og saman sem fjölskylda. Við verðum að trúa því að þú sért á betri stað núna, þú þarft ekki að þjást lengur og við trúum því að við sjáumst aftur síðar. Við elskum þig mest Guðrún Birna, hetjan okkar. Þú verður alltaf hjá okkur.

Eiríkur og Steinunn Katrín.

Þá er baráttan búin hjá bróðurdóttur minni eftir rúmlega tveggja ára stríð við krabbamein, þar sem hún sýndi hugdirfsku, kjark og jafnlyndi. Með dyggri aðstoð foreldra og systkina, sem allt gerðu til að henni liði sem best þangað til yfir lauk.

Guðrún Birna var ekkert venjulegt barn, var allt sitt líf gömul sál, hógvær, hlý og gáfuð. Hún talaði við alla sem jafningja sína. Mér var eftirtektarvert áttræðisafmæli ömmu hennar, hvernig hún sýndi nöfnu sinni, sem var langt leidd af alzheimer, alúð og væntumþykju, meiri en maður sér oftast hjá tólf ára barni.

Eins kom hún alltaf fram við sérstaka frænda, þann sem þetta skrifar, af skilningi og væntumþykju. Hef ég aldrei kynnst jafn yndislegu og skilningsríku barni.

Orð mega sín lítils, mestur er harmur Þorsteins, Elínar og systkinanna Eiríks og Steinunnar Katrínar sem hafa misst augasteininn sinn.

Við munum aldrei gleyma þér, elsku frænka, þú varst hetja.

Þinn frændi,

Pétur.

Dauðinn getur verið fallegur en óvelkominn. Það var engin leið önnur, við gátum ekki farið til baka, hann var endir á ferð þinni.

Febrúar 2022, held að það hafi verið rigning, man ekki eftir snjó en ég man eftir þér. Þú varst að koma af spítalanum og læknarnir nefndu við þig beinkrabbamein. Ég vildi ekki trúa en varð hrædd. Núna sit ég hér um miðja nótt, allir sofa nema ég, ég hugsa um þig, þig sem varst betri en aðrir. Þyrnirós, fegurð í dauða, fegurð í lífi.

Þú sagðist hafa verið ungi, týndur í skóginum og svo fannstu fjölskylduna þína. Ég heyri ekki fuglana syngja, ég heyri bara sorgina. En ég má ekki vorkenna mér, foreldrar þínir, systkini þín … hvernig fara þau að án þín? Þú vilt að við öll höldum áfram, þú vilt öllum hið besta, þú ert heilsteypt, þú ert góð.

Ég vil trúa á guð, ég vil trúa því að ég hitti ykkur öll aftur, ég vil vera þannig manneskja. En get ég það?

Dauðinn getur verið fallegur, þú varst svo falleg eftir að þú fórst. Þegar foreldrar þínir héldu á þér og systkini þín sátu þér við hlið langaði mig að vera endurreisnarmálari, mála þessa fegurð, fegurðina í ástinni. En það er ástin sem heldur okkur saman, hún ýtir okkur áfram. Ekki ást á sjálfum okkur heldur öðrum.

Ég elskaði þig áður en þú fæddist, áður en ég vissi af því að von væri á þér, ég mun elska þig alltaf. Þú sefur Þyrnirósarsvefni, fegurðin sjálf, og ég fæ að eldast, ég fæ að verða eldri, ég þarf að hætta að skammast mín fyrir aldur minn, hann er víst gjöf.

Helst vil ég reisa grafhýsi utan um þig, eins og Lenín, koma þangað og horfa á freknurnar þínar, alltaf … en ég er eigingjörn. Ég vil fá hláturinn þinn aftur, brosið þitt aftur, hreinskilnina þína aftur. Ég vil aftur vera ein með þér og heyra þig segja mér hvað þér finnst, heyra sannleikann, þú sagðir alltaf það sem þér fannst.

Ég er enn með bók í láni frá þér, er voða hrædd að lesa hana, vil ekki beygla kjölinn. Manstu 18. maí þegar þú greipst í höndina á mér þegar ég var að fara og sagðir „segðu mér hvernig bókin sem þú ert að lesa er“, við ætluðum að gera eitthvað sem fengi Kindle-ana okkar til að deila bókum. Núna vil ég bara liggja og lesa, flýja, flýja heim án þín.

Þú og systkini þín eruð ástirnar mínar eins og börnin mín, þið gerið mig stolta að vera frænka ykkar. En þessa dagana er ég ekki góð mamma, ég er of döpur, pirruð, reið. En út í hvern er ég reið? Lífið, æðri veru, læknavísindi sem ekki voru komin nógu langt til að lækna þig?

Þegar maður elskar hættir maður ekki að elska, ástin er að eilífu og ég er að eilífu þín og þú fylgir mér Þyrnirós mín.

Takk fyrir að leyfa mér að vera með þér og vera hjá þér, takk fyrir að leyfa mér að elska þig og elska mig til baka.

Þín frænka,

Arna.

Á kveðjustund

Líf þitt

er á förum,

fellir ilm sinn

og fögnuð sinn,

ljóð sitt,

blöð sín,

birtu sína

og mína.

(Þorgeir Sveinbjarnarson)

Guðrún Birna, systurdóttir mín, greindist með krabbamein fyrir rúmum tveimur árum, þá 12 ára. Við tók endurtekin lyfjameðferð og skurðaðgerðir með óteljandi aukaverkunum. Þrátt fyrir að lækningar væri leitað um víða veröld, varð ekki við neitt ráðið. Allt það sem hún þurfti að þola á þessum tíma var meira en flestir reyna á heilli ævi og hefði fengið venjulegt fólk til að bugast. En Guðrún Birna var aldrei neitt venjulegt barn og það var ekki hennar stíll að velta sér upp úr hlutunum, eða vorkenna sjálfri sér. Hún var baráttujaxl, stríðsmaður, drottning, sem bar hnarreist byrðar sínar og örlög. Kornung byrjaði hún að safna sér fyrir íbúð, kynna sér hlutabréfamarkaðinn og setja sér markmið í lífinu. Gerðist grænkeri, fór í jóga nidra með mömmu sinni, gekk á Móskarðshnúka með pabba sínum og keypti sér risastjörnukíki. Hún elskaði náttúruna og sveitina og ferðalög, ekki síst til annarra landa, enda var skerið Ísland stundum fulllítið fyrir stórhuga stúlku.

Eftir að hún veiktist lagaði hún áhugamálin að sínum takmörkunum og tók t.d. við að hesthúsa enskar bækur og fylgjast með tískustraumum og formúlunni sem hún var orðin sérfræðingur í. Það var eftir henni tekið enda var hún gullfalleg, hafði mikla persónutöfra, bar stríðsör sín og hármissi með stolti og var hetjan okkar. Einstakir eiginleikar hennar, svo sem seigla, ákveðni og greind, komu henni án efa í gegnum margan hjallann í baráttunni. Fjölskyldan, foreldrar, systkini, að ógleymdri Drífu frænku, umvöfðu hana líka ást og umhyggju og voru óþreytandi við að styðja og láta drauma hennar rætast. Síðasta verkefnið var að halda upp á 15 ára afmælið sem hún gerði með sömu reisn og einkenndi allt hennar veikindaferli. Síðustu dagarnir heima fyrir andlátið eru ógleymanlegir þar sem hún lá umvafin sínu besta fólki með Taylor Swift, Harry Potter og bláa Disney-dýrið Stitch á kantinum. Sorgin nístir en ég er endalaust þakklát fyrir allar góðu stundirnar og tímann sem hún vildi verja með okkur eins og í göngunni yfir Fimmvörðuháls, skötuveislunum, við að spila þremenning við ömmu Steinunni, fjölskyldumyndatökunni á Tene og nú síðast draumaferðinni til Flórída. Einn af framtíðardraumum Guðrúnar Birnu var að verða geimvísindakona. Nú er hún flogin á brott að kanna óravíddir alheimsins. Minning hennar mun lifa og við höldum merki hennar á lofti með því að muna að lífið er núna, vera þrautseig og standa saman. Við trúum því líka að við sameinumst öll aftur síðar.

Katrín frænka.

Elsku yndislega og góða Guðrún Birna okkar. Allt er svo grátt og tómlegt án þín, eiginlega eins og dregið hafi verið fyrir sólina. Ég sakna þín svo mikið elsku frænkuhjartað mitt. Þú varst algjörlega einstök, dásamleg, gullfalleg, hugrökk og góð.

Það eru engin orð sem lýsa þinni hetjulegu baráttu við sjúkdóm sem ekkert barn á að kynnast. Þú sýndir ótrúlegt hugrekki og þrautseigju og tókst hetjulega á við öll þín stóru verkefni. Varst elskuð af svo mörgum og áttir góða að – mamma, pabbi, Steinunn Katrín og Eiríkur stóðu þétt við bakið á þér og studdu þig. Eins erfið og árin voru frá því að meinið uppgötvaðist þá er ég svo þakklát fyrir tíma okkar saman og fyrir að hafa fengið að standa með þér í þessari ósanngjörnu baráttu. Þrátt fyrir aðstæður höfðum við gaman og nutum samverunnar. Ég man þegar við pöntuðum kassana með allskonar snarli frá Japan sem var svo gaman að prófa – fæst bragðgott, en það var upplifunin sem skipti máli. Þú varst nefnilega alltaf til í nýjungar. Stundirnar okkar voru dýrmætar. Þú varst gömul sál og mér leið oft eins og við værum jafnaldra vinkonur þar sem þú gafst mér ráð, smitaðir mig af hlátrinum og húmornum sem var svo skemmtilegur – og oft óvæntur. Það var svo gaman hvað það var mikil hugsun á bak við orðin þín.

Þegar við fengum fréttirnar á spítalanum í apríl um að krabbameinið yrði ekki sigrað hrundi heimur okkar. Þá ákváðum við að nýta hverja stund saman og stóðum við það. Ég er svo þakklát fyrir allt sem við náðum að gera áður en þú þurftir að fara. Minningarferðin til Tenerife var ævintýraferð sem verður aldrei toppuð, pabbi þinn á „gugguvaktinni“ sem okkur fannst svo fyndið því hann var einn með okkur guggunum áður en fleiri bættust við hópinn. Þar kynntumst við Edda eðlu, héldum „haul“ fyrir allt sem var keypt, borðuðum kleinuhringina bestu, drukkum kokteila á ströndinni, fórum í leyniferðir, versluðum og spjölluðum á melónudýnunni í sundlauginni um heima og geima.

Ferðin var þér allt annað en auðveld en þú lést ekkert stoppa þig og með góðri hjálp fjölskyldunnar gátum við haldið áfram að njóta enda svo ótrúlega einbeitt. Ef þú ætlaðir, þá var það bara svoleiðis. Svo var það Flórídaferðin sem ég fékk að kíkja í með ykkur mömmu, pabba og Katrínu mömmu minni – þarna varstu alveg á réttum stað og ég er svo þakklát fyrir tímann okkar saman þar.

Þú varst svo sannarlega einstök og lést veikindin ekki skilgreina þig sem manneskju. Hélst þinni reisn og lést fólkið þitt finna og heyra að þú elskaðir það og sameinaðir okkur. Við fjölskyldan dáðumst að þér og Ylfa stelpan mín leit svo upp til þín, lærði af þér og fjölskyldunni og sá hvað þú varst mikil hetja. Það mun fylgja henni alla ævi.

Ég ætla að finna leið til þess að draga frá aftur og lofa að reynsla síðustu ára verði ekki til einskis. Þú gerðir mig að betri manneskju og við hættum aldrei að tala um þig, elska þig, rifja upp allt sem þú kenndir okkur og hjálpa hvert öðru að lifa áfram með þig í hjörtum okkar.

Drífa K. Guðmundsdóttir Blöndal.

Haustið 2015 hóf glaðvær hópur sex ára nemenda skólagöngu sína í Smáraskóla. Í þeim hópi var hin ljúfa og skemmtilega Guðrún Birna, yngst þriggja systkina sem öll stunduðu grunnskólanám í Smáraskóla.

Við starfsfólk skólans sáum strax að Guðrún Birna hafði sterkan en jafnframt skapandi persónuleika. Hún stóð föst á sínu og hafði líka gaman af því að segja sögur og lita. Hún óx og dafnaði hér í Smáraskóla og átti með okkur margar góðar stundir í leik og starfi.

Þegar Guðrún Birna var í 7. bekk veiktist hún alvarlega og gat því ekki stundað skólann eins og áður. Það er þó til marks um hennar sterka persónuleika og vilja að hún kom í skólann hvenær sem hún mögulega gat, allt fram undir það síðasta. Hún barðist eins og hetja við þennan illvíga sjúkdóm og sýndi einstaka þrautseigju. Dugnaður hennar í gegnum veikindin hefur verið aðdáunarverður.

Við í Smáraskóla erum afar þakklát fyrir þau ár sem við fengum að hafa Guðrúnu Birnu og hennar fjölskyldu í okkar samfélagi og þökkum góð samskipti við fjölskylduna alla tíð. Minningin um Guðrúnu Birnu lifir með okkur.

Sof, ástríka auga,

sof, yndisrödd þýð,

hvíl, hlýjasta hjarta,

hvíl, höndin svo blíð!

Það hverfur ei héðan,

sem helgast oss var:

vor brjóst eiga bústað,

– þú býrð alltaf þar.

Hið mjúka milda vor

sín blóm á þig breiði

og blessi þín spor.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elsku Elín, Þorsteinn, Eiríkur og Steinunn Katrín og aðrir ættingjar og vinir Guðrúnar Birnu. Ykkur sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi minningin um Guðrún Birnu lifa um ókomna tíð.

Starfsfólk Smáraskóla,

Börkur Vígþórsson.

hinsta kveðja

Guðrún Birna var besta frænka sem ég hef átt í lífinu. Þegar við vorum litlar vorum við mjög nánar. Við deildum leyndarmálum og vissum allt hvor um aðra og ég gat treyst henni fyrir öllu. Ég sakna hennar mjög mikið. Það er mjög ósanngjarnt að hún hafi dáið svona ung. Ég mun alltaf sakna hennar.

Bríet Þ. Blöndal.

Ó, sofðu, blessað barnið frítt,

þú blundar vært og rótt.

Þig vængir engla vefja blítt

og vindar anda hljótt.

Af hjarta syngja hjarðmenn þér

til heiðurs vögguljóð sem tér:

Sofðu rótt, sofðu rótt, vært og rótt, sofðu rótt.

(Þýð. Þorgils Hlynur Þorbergsson)

Fyrir stelpuna sem var ætíð glöð og þakklát.

Þorkell Þorsteinsson (afi Keli).