Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 144. sinn í gær við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni í bænum, en löng hefð hefur skapast fyrir því að útskrifa MA-stúdenta á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Að þessu sinni voru alls 143 nýstúdentar brautskráðir og er dúx skólans Max Forster, en hann brautskráðist af náttúrufræðibraut með meðaleinkunnina 9,83. Þau Magnús Máni Sigurgeirsson og Vilborg Líf Eyjólfsdóttir voru semídúxar, en bæði voru með meðaleinkunnina 9,57 og voru þau bæði af raungreina- og tæknibraut.
Að lokinni athöfn var haldið til MA í myndatöku af útskriftarárgangnum. Um kvöldið var svo efnt til veglegrar veislu þar sem nýstúdentar, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólans fögnuðu áfanganum.